„Það gerðist eiginlega óvart að hinseginleikinn varð að ákveðnu þema á leikárinu,“ segir Valur Freyr Einarsson, leikstjóri Fjallabaks, inntur eftir því hvers vegna þessi sýning hafi orðið fyrir valinu.
„Það voru til dæmis samkynhneigðir karakterar í verkunum Ungfrú Ísland og Óskaland þó svo að hinseginleikinn væri ekki beinlínis umfjöllunarefnið í þeim sýningum. Fjallabak dettur inn í þemað sem tragísk og hjartaskerandi ástarsaga á milli tveggja manna, stútfull af lífi og húmor,“ bætir hann við en verkið verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í kvöld, föstudaginn 28. mars, klukkan 20.
Verkið Fjallabak byggist á samnefndri smásögu Annie Proulx en fyrir hana hlaut hún Pulitzer-verðlaunin. Síðar gerði leikstjórinn Ang Lee kvikmynd eftir sögunni en þar segir frá kúrekunum Ennis og Jack sem hittast fyrir tilviljun þegar þeir vinna saman við að smala búfé á fjöllum í Bandaríkjunum.
Ytri tími sögunnar gerist um miðbik síðustu aldar og þrátt fyrir gríðarlega fordóma samfélagsins dragast þeir hvor að öðrum og reyna eftir fremsta megni að höndla ástina. Með hlutverk elskhuganna fara þeir Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson en aðrir leikarar í sýningunni eru Esther Talía Casey, Hilmir Snær Guðnason og Íris Tanja Flygenring.
Aðspurður segir Valur Freyr sögu Proulx hafa tekið á sig ýmsar myndir í gegnum tíðina en verkið hafi hins vegar í fyrsta sinn verið sett upp í leikhúsi fyrir tveimur árum.
„Það var á West End en sú leikgerð er aðeins öðruvísi heldur en þessi leikgerð sem við erum að vinna með því við óskuðum eftir því að einn karakterinn yrði tekinn út sem okkur fannst ekki gera neitt fyrir sýninguna. Höfundur leikgerðarinnar, Ashley Robinson, tók vel í þá ósk og sendi okkur nýja leikgerð. Þetta verður því í fyrsta sinn sem þessi útfærsla á sögunni er gerð í leikhúsi.“
Spurður að því hvort sagan sé á einhvern hátt staðfærð yfir í nútímann eða íslenskar aðstæður segir Valur Freyr svo ekki vera.
„Sagan stendur algjörlega fyrir sínu því um er að ræða tengslasögu um ást í meinum. Fókusinn er því á sambandið og allar hindranirnar sem þeir Ennis og Jack standa frammi fyrir. Þetta snýst um baráttuna fyrir því að fá að elska og fá að vera. Sú saga er alþjóðleg svo það skiptir ekki öllu máli hvar hún gerist. Við tengjum alveg jafn vel við hana þó hún gerist á þessum stað og þessum tíma. Það væri því mjög afkáralegt að fara að færa hana eitthvað til,“ segir hann og hlær.
Þá telur Valur Freyr bæði blessun og hindrun felast í því að setja upp verk sem búið sé að kvikmynda.
„Því það eru mjög margir með einhvers konar fyrirframákveðnar hugmyndir um hvað þeir eru að fara að sjá. Verkefnið snýst hins vegar um það að vita af hverju við erum að segja þessa sögu í leikhúsinu og af hverju hún er mikilvæg. Bíómyndin er í raun aukaatriði því sagan sem slík er aðalatriðið.
Á hún erindi, skiptir hún máli og er enn þörf á að segja hana? Því miður er það niðurstaðan. Það er enn þörf á að segja þessa sögu. Sögu þar sem hinseginleikinn fær sitt pláss,“ segir hann og bætir því við að í rauninni sé þörfin meiri í dag en fyrir tíu árum.
Ítarlegt viðtal við leikstjórann birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins í gær, fimmtudag.