Vonarstrætisleikhúsið var stofnað formlega 2007 að undirlagi tveggja fyrrverandi leikhússtjóra hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó, Sveins Einarssonar og Vigdísar Finnbogadóttur. Kaupmannahöfn er fyrsta viðfangsefni leikhópsins og flutt hér í leiklestrarformi.
Leikritið Kaupmannahöfn var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu breska 1998 og hefur síðan farið víða um lönd, enda hefur efni þess vakið mikila eftirtekt og vakið upp mikil blaðaskrif ekki síst meðal raunvísindamanna. En leikurinn fjallar um siðferðilega ábyrgð vísindamanna og er kveikja þess fræg heimsókn þýska visindamannsins Werners Heisenberg til Kaupmannahafnar á brennandi stríðsárum, 1941, til fundar við hinn heimsfræga danska Nobelsverðlaunahafa Niels Bohr. Hafa menn allar götur síðar velt fyrir sér hvað þeirra fór á milli, en skömmu síðar flýði Bohr yfir til Svíþjóðar og komst þaðan til Bandaríkjanna.
Höfundur leiksins er í hópi þekktustu leikskálda Breta í dag og hafa að minnsta kosti tvö verka hans verið sýnd hér á landi áður við miklar vinsældir.
Flytjendur leiksins, sem er í þýðingu Árna Bergmann, eru Valgerður Dan, Jakob Þór Einarsson og Þorsteinn Gunnarsson, en leikstjóri er Sveinn Einarsson.
Miðasala í Iðnó opin 11.00 til 16.00 virka daga