EINKENNI

  • Lykilorð: Skipulagning
  • Pláneta: Merkúr
  • Höfuðskeppna: Jörð
  • Litur: Brúnn og grænn
  • Málmur: Kvikasilfur
  • Steinar: Smaragður, malakít
  • Líkamshluti: Meltingarkerfi
  • Frægar meyjur Gene Kelly, Steinunn Sigurðardóttir, Sophia Loren, Sean Connery, Claudia Schiffer, Michael Jackson, Greta Garbo, Leonard Cohen og Ómar Ragnarsson.

MEYJA

Meyjur eru gjarnan auðþekkjanlegar af háum kollvikum, en þá ekki síður stórum og hreinum augum. Þær klæða sig tilgerðarlaust og smekklega, en elta ekki endilega nýjustu tískugrillur. Þær eru hagsýnar og duglegar, en lítið gefnar fyrir langar og hugmyndafræðilegar samræður og vilja miklu frekar láta verkin tala. Meyjur vilja helst vera á fartinni, ekki þó stefnulaust heldur að sinna einhverjum verkefnum. Líkt og önnur jarðarmerki eru þær holdlegar og veraldlegar, en beita orku sinni yfirleitt á hagnýtan og vinnutengdan hátt. Þær hafa mikla skipulags- og aðlögunarhæfileika, en eru haldnar fullkomnunaráráttu og geta búið yfir óhóflega mikilli sjálfsgagnrýni og smámunasemi. Meyjur hafa rökfasta hugsun og oft hvassa tungu, og þær eiga bágt með að þola hirðuleysi og slóðaskap. Þær eru áreiðanlegar og hjálpsamar og fúsar að vera öðrum innan handar. Meyjum lætur ágætlega hjúkrun og reyndar hvert það starf sem krefst nákvæmni og sjálfsaga, t.d. úrsmíði eða tölvuvinna af öllu tagi. Þær eru smekkvísar og gætu gert það gott sem fatahönnuðir eða í listiðnaði, helst þá þeim greinum þar sem notuð eru jarðarefni, t.d. við leirkeragerð eða textílvinnu. Meyjan ætti að sinna betur ímyndunaraflinu og láta stundum eftir skyndilegum hugdettum í stað þess að láta skynsemina alltaf ráða ferðinni og einblína stöðugt á vinnu. Þannig gæti hún náð betra andlegu jafnvægi.