Svala Björgvinsdóttir kom mörgum á óvart þegar hún tók sæti þjálfara í The Voice sem sýndir verða á SkjáEinum, enda býr hún í Los Angeles, fjarri köldum heimahögum. Í borg englanna gerir hún garðinn frægan í fatahönnun og kemur fram undir listamannanafninu Kali með hljómsveitinni Steed Lord.
Að búa í L.A. og taka þátt í raunveruleikaþætti á Íslandi er alveg jafn flókið og það hljómar. Það er nóg að gera á báðum vígstöðum svo Svala flýgur mikið á milli. „Ég verð á flakki,“ segir Svala, „ég var á Íslandi í sjö daga um daginn til að taka upp „Blind Audition“-þættina og flaug heim til LA 9. sept. Svo kem ég aftur 2. október til að taka upp „Battle Rounds“ og flýg svo aftur út til LA. Svo kem ég aftur í miðjan nóvember til að taka upp „live“-þættina. Ég varð að gera þetta svona því við erum í miðjum upptökum í LA á plötunni okkar og stúdíó eru bókuð fyrirfram. Svo erum við líka að spila gigg í Ameríku þannig að eina leiðin til að taka þátt í The Voice er að leggja í þessi ferðalög.“
Svala kippir sér þó ekki mikið upp við það, enda vön. Hljómsveitin hennar Steed Lord kemur oft fram í Evrópu, langa leið frá heimilum meðlima í Los Angeles.
Svölu finnst yndislegt að fá að eyða svona miklum tíma á Íslandi, en annasamt líf hennar undanfarin ár hefur ekki boðið upp á mikið meira en eina heimsókn á ári undanfarin ár. Þær hafa verið til að koma fram á jólatónleikunum föður hennar, Björgvins Halldórssonar.
Svala hefur búið í Los Angeles í rúm 6 ár. Þar er hún ásamt öðrum meðlimum Steed Lord með eigið plötufyrirtæki þar sem þau gefa út eigin tónlist, sjá um alla markaðsvinnu, hönnun á varningi og fleira. Hljómsveitin sér sjálf um að búa til eigin tónlistarmyndbönd, auk þess að gera myndbönd fyrir aðra listamenn og búa til auglýsingar. „Það gengur bara mjög vel hjá okkur og síðastliðin tvö ár hafa verið mjög spennandi því það er svo margt að gerast með bandið okkar. Allskyns stór tækifæri og dyr sem eru að opnast fyrir okkur. Enda er alltaf sagt að það taki allavega fjögur ár að komast inn í „bransann“ í LA, jafnvel lengur. Í svona stórri borg eru margir að reyna að komast að.“
Tónlist Steed Lord hefur heyrst víða í sjónvarpi, í bíómyndum, auglýsingum og síðast en ekki síst dansþættinum So You Think You Can Dance.
Sveitin vinnur nú að upptökum á nýrri plötu og miðað við gengið verður athyglisvert að sjá hvaða viðbrögð hún fær og hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir Svölu og hljómsveitina.