Sigurjón Örn Böðvarsson mætti Elísu Ýrr Erlendsdóttur í einvígjum sjónvarpsþáttanna The Voice Ísland. Saman sungu þau lagið Ain‘t no Mountain High Enough í útgáfu Diana Ross. Aðeins annað þeirra gat haldið sæti í liði þjálfarans Unnsteins Manúels og var það Sigurjón sem bar sigur úr býtum.
„Mér finnst alltaf einhver styrkur í að vera með öðrum á sviði,“ sagði Sigurjón um að þurfa að syngja með Elísu en keppa á móti henni í leiðinni. „Ég er vanur að syngja dúetta og finnst það þægilegt. Ég held að það hafi hjálpað mér í þessu.“
Þar vísar Sigurjón meðal annars til söngkonunnar Rebekku Blöndal sem komst í fjögurra manna úrslit í fyrstu þáttaröð The Voice Ísland, en þau syngja saman í hljómsveitinni Prinsessan og durtarnir.
„Ég fylgdist með Rebekku vinkonu minni í fyrra og fannst þetta kjörið tækifæri. Ég held að þetta sé góð kynning og góð reynsla, fínt til að byggja upp tengslanet,“ segir Sigurjón um þátttökuna í The Voice.
Þegar tökur hófust var ýmislegt sem kom á óvart. „Ég hélt að þetta yrði ekki jafnmikið mál og það var, sérstaklega í fyrstu prufunni. Það kom mér í opna skjöldu hvað stressið helltist yfir mann, en eftir því sem lengra líður á þáttinn fer stressið af manni.“
Sigurjón var ekki gamall þegar áhuginn á söng vaknaði. „Ég byrjaði í barnakór í grunnskóla sem var svolítið upphafið að þessu öllu saman, þar kviknaði söngáhuginn. Svo fór ég að læra klassískan söng í Tónlistarskóla Kópavogs og kláraði burtfararpróf þaðan núna í vor.“
Ásamt því að koma fram með hljómsveitinni Prinsessan og durtarnir hefur Sigurjón sungið við brúðkaup og fleiri viðburði. Áhugasviðið í tónlist er fjölbreytt og Sigurjón er alæta á tónlist að eigin sögn. Sjálfum finnst honum þó skemmtilegast að syngja soul, blús, dægur- og popptónlist auk þess að vera eldheitur aðdáandi Eurovision-söngkeppninnar.
Molitva var framlag Serbíu til Eurovision árið 2007, það er í miklu uppáhaldi hjá Sigurjóni ásamt laginu Euphoria frá Svíþjóð sem sigraði 2012.