Kviðfeðgar á Flateyri

Helgi Björnsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Sigurður Skúlason, Dagur Thors, Björn …
Helgi Björnsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Sigurður Skúlason, Dagur Thors, Björn Thors og Hafsteinn G. Sigurðsson. Ómar Óskarsson

Það er ætíð mikið um dýrðir þegar íslenskar kvikmyndir eru forsýndar og forsýning París norðursins í Háskólabíói á miðvikudaginn síðastliðinn var þar engin undantekning. Þotuliði sem finnst það merkilegt mætir ætíð á slíkar sýningar íklætt sparibrosi og sínu fínasta pússi og keppist um að fanga athygli ljósmyndara sem síðar léttir af sér inn á smarta hámenningarvefi. Að sjálfsögðu var ég mættur góðum fjörutíu mínútum fyrir sýninguna og spígsporaði ákafur í kringum ljósmyndara sem veittu mér litla sem enga athygli. Það skipti engu máli hversu mikið ég reyndi að vera fallegur, ég var greinilega ekki nógu góður pappír. Með brotið sjálfstraust steig ég því inn í troðfullan aðalsal Háskólabíós, að sjálfsögðu með lítinn popppoka í hönd sem var í góðu samræmi við sjálfsmynd mína.

Sérkennileg búkhljóð

Leikstjóri myndarinnar, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, handritshöfundurinn Huldar Breiðfjörð og framleiðendur héldu að sjálfsögðu nokkuð langt forspil áður en kvikmyndin var sýnd og þökkuðu öllum þeim er lyftu litlafingri við gerð hennar hjálpina. Upphafsskot myndarinnar var áhugavert og vel útfært. Langt samfellt skotið fór vel saman við góða tónlist Prins Póló og leturgerðí anda Wes Anderson fór vel saman við myndefnið. Myndin var oft á tíðum skemmtilega skotin og frumleg sjónarhorn vöktu lukku og héldu athygli áhorfenda. Kvikmyndin var þó ekki gömul þegar sýningin rak í rogastans sökum tæknilegra örðuleika. Þögnin varð yfirgnæfandi og bíótjaldið varð álíka svart og miðnætti á tunglslausri nóttu eins og Dale Cooper myndi orða það. Vandræðalegar ræskingar og önnur sérkennileg búkhljóð fylltu salinn áður en tæknimenn náðu að bjarga hlutunum og þeyta áhorfendum inn í næstu senu. Djöfull sem Hafsteinn Gunnar hlýtur að hafa orðið pirraður.

Sérkenni íslenskrar kvikmyndagerðar fengu að njóta sín í París norðursins og Frónbúar í salnum eflaust kannast við ýmislegt. Þunglynt og lítilfjörlegt smábæjarlíf þar sem drykkfellt mislyndisfólk í haltu-mér-slepptu-mér samböndum skiptist á að elska og hata hvort annað virðist alltaf eiga upp á pallborðið. Því ber þó að fagna hversu fögur þjáningin er í meðhöndlun Hafsteins og Huldars og tókst þeim vel til við að skapa grátbrosleg atriði. Eitthvað bar á óþjálum díalók sem þó hefur oft verið óþjálli. Slíkt truflaði ekki framvindu sögunnar sem var nokkuð línuleg og auðmeltanleg.

Teygjur og timburmenn

Björn Thors er sérstaklega viðkunnalegur leikari og túlkun hans á persónum, hvort sem það er á sviði eða á tjaldi, vekur ætíð samkennd í brjóstum þeirra er á horfa. Persóna hans, Hugi, var að sama skapi nokkuð sannfærandi og vel skrifuð. Nanna Kristín Magnúsdóttir, Sigurður Skúlason, Jón Páll Eyjólfsson og hinn ungi Haki Lorenzen stóðu sig einnig með prýði. Helgi Björnsson stal þó senunni í hlutverki Veigars, föðurs Huga. Helgi virðist eiga fremur auðvelt með að túlka ógeðfelldar, drykkfelldar og ómerkilegar persónur. Hlutverk hans var þó nokkuð skondið og hélt kómíkin myndinni gangandi á köflum. Með boðsmiðanum á myndina fylgdi teygja nokkur og vakti það furðu þeirra sem hana fengu. Helgi sýndi þó á fremur gróteskan hátt hvað má gera við slíkar teygjur en ekki verður farið nánar út í það að þessu sinni.

Mikið er gert úr vandræðalegum mannlegum samskiptum og kemur það mjög vel út, þá sérstaklega AA-fundir þeirra Björns, Sigurðar og Jóns Páls. Óþægilegar kringumstæður þeirra feðga eru ljúfsárar og samspil Björns og Helga til eftirbreytni. Viðkomandi mynd er önnur kvikmynd Hafsteins Gunnars í fullri lengd en eins og margir muna sló hans fyrsta mynd, Á annan veg, í gegn og var meðal annars endurgerð í Bandaríkjunum. Nú er bara að bíða og sjá hvernig viðtökurnar á París norðursins verða en ég sé því ekkert til fyrirstöðu að hún slái í gegn. Kvikmyndin segir mannlega sögu þjáningar og gleði sem á við öll smá samfélög manna, hvort sem það er á Flateyri eða í öðrum útnárum þessa heims. Þess má geta að kvikmyndin er frumsýnd í kvöld. 

Helgi Björnsson var góður í hlutverki Veigars.
Helgi Björnsson var góður í hlutverki Veigars.
Ljósmyndari hafði meiri áhuga á þessu fólki en mér.
Ljósmyndari hafði meiri áhuga á þessu fólki en mér. Ómar Óskarsson
Helgi Björnsson, nýsnyrti hundurinn Flóki, sem er einmitt einn af …
Helgi Björnsson, nýsnyrti hundurinn Flóki, sem er einmitt einn af leikurum myndarinnar og Auður Björnsdóttir, eigandi Flóka og systir Helga. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir