„Slá í gegn er mannmargt og íburðarmikið stórsjó. Öllu er tjaldað til úr vopnabúri Þjóðleikhússins til viðbótar þeirri miklu meðgjöf sem tónlist Stuðmanna er. Frá sjónarhóli skemmtunar næst harla góður árangur og fagnaðarlætin á frumsýningarkvöldinu voru eins og í Atlavík '84. Úr bæjardyrum leiklistar horfir aðeins öðruvísi við. Leikræni efniviðurinn er vægast sagt rýr og ekki erfitt að ímynda sér viðbrögð listrænnar forystu leikhússins ef því bærist slíkt handrit í póstinum. Þau yrðu alla vega ekki að opna alla skápa, ræsa allar vélar, ráða stóra hljómsveit og sirkus utan úr bæ.
Þjóðleikhúsið er ekki fjáröflunararmur Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Það hefur listrænum skyldum að gegna. Það er ekki sama hvað það gerir, eða hvernig það gerir það, þó að öryggisnet tónlistar allra landsmanna grípi það í þetta sinn og skili öllum brosandi heim,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í niðurlaginu á leikdómi sínum um söngleikinn Slá í gegn sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Rýnir rifjar upp að í kynningu sýningarinnar hafi mátt skilja það sem svo að „hún byggðist á nokkuð skýrri og glúrinni grunnhugmynd, sem er alger lífsnauðsyn fyrir sýningu sem þessa. Hér þarf sterka sögu og skýr átök sem halda fleytunni á floti og gefa svigrúm fyrir þá útúrdúra sem tónlistin kallar á. Togstreita milli áhugaleikfélags í litlu þorpi og sirkuss sem mætir á svæðið er alveg ágætis vettvangur, en það spilast ekki vel úr þessu,“ skrifar Þorgeir, en höfundur og leikstjóri sýningarinnar er Guðjón Davíð Karlsson.
„Í stað þess að leyfa leiktextanum að vera límið, skapa togstreitu leggja til hreyfiorku í samskipti persónanna er hann að mestu lagður undir fimmaurabrandara. Sem auðvitað hitta sumir í mark, en ofgnóttin er þreytandi, sérstaklega endalausar vísanir í Stuðmannatexta. Þá þykja mér textatengsl verksins við leiktexta Með allt á hreinu misráðin (fyrir nú utan að skjóta inn bútum úr tveimur Gærulögum, sem er furðuleg ráðstöfun). Hér hefði þurft að skapa nýjan og lífvænlegan jarðveg fyrir tónlistina, en það er ekki gert.
Persónugalleríið er það best heppnaða í framlagi höfundarins, einfaldar týpur, sumar andlits- og einkennalausar en aðrar harla sniðuglega samsettar; Kalli lögga með búktalsdúkkuna sína, hin skeggjaða Ólína sem finnst enginn sjá sig fyrir brjóstunum, alvitri presturinn og svo auðvitað prímadonnan Sigurjón digri, sem reyndar er sóttur að stórum hluta á bensínstöðina í Næturvaktinni, en býr að því að Jón Gnarr hefur áratugareynslu af jafnvægisdansi milli fyndins banalítets og alvöru í leiktexta á barmi paródíunnar. Tveir af leikrænum hápunktum sýningarinnar eru hans: tilraun Sigurjóns til að flytja Gullna hlið Davíðs einn síns liðs eftir að hafa flæmt leikfélagið út í sirkustjald og svo samtal hans og Ólínu, sem Edda Björgvinsdóttir túlkar fallega. Jón syngur ekki í meistaradeildinni, en hefur það fram yfir flesta að það sem hann syngur hljómar eins og þar sé persóna að tjá sig en ekki söngvari að brillera, sem rétt er að geta að flestir þeirra gera. Sömu áhrifum nær Snæfríður Ingvarsdóttir í gullfallegri túlkun á „Angantý“ og þau Sigurður Þór Óskarsson í skemmtilega endurútsettum „Ástardúett“. Sem vel á minnst er eina lagið sem hægt er að segja að sé meðhöndlað með skapandi afstöðu. Að öðru leyti einkennist framlag Vignis Snæs Vigfússonar og liðsmanna hans af skotheldri fagmennsku og engu þar umfram. Ég var á sveitaballaaldrinum á gullaldarárum Stuðmanna og hef heyrt flest þessi lög fara í gegnum hakkavél hugmyndaríkra grallara. Þau þola það vel, og græða sum.
Þau halda líka bolta sýningarinnar á lofti þrátt fyrir allt. Dauðir punktar þjóta hjá og hverfa í rykið af hverjum smellinum á fætur öðrum. Þrjátíu lög koma við sögu, fyrir utan öll hin sem vitnað er til í leiktextanum. Undir lokin, þegar sirkusinn frumsýnir sjóið sitt, tekur tónlistin öll völd og gleðisprengjan springur. Þá er gaman. Það er vel haldið utan um gangverk sýningarinnar af Guðjóni Davíð og Chantelle Carey, þó dansatriðin hafi svo sem ekki slegið mig sem sérlega frumleg sköpun,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.