Áhrifaríkasta frammistaðan á árinu

„Nestuð safaríkum efnivið vinnur Nína Dögg sannkallaðan leiksigur í hlutverki …
„Nestuð safaríkum efnivið vinnur Nína Dögg sannkallaðan leiksigur í hlutverki fíkilsins og þetta er áhrifaríkasta frammistaði leikara á leikárinu,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um frammistöðu Nínu Daggar Filippusdóttur í leiksýningunni Fólk, staðir og hlutir. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Á sama tíma og stöðugt berast alvarlegar fréttir af ópíóíðafaraldrinum sem geisar nú bæði vestanhafs og austan, aldrei hafa fleiri verið á biðlista eftir að komast í vímuefnameðferð hérlendis og alltof fá úrræði eru fyrir ungmenni í neyslu frumsýnir Borgarleikhúsið í samvinnu við Vesturport og Þjóðleikhúsið í Osló leikrit sem talar með sterkum hætti beint inn í samtímann. Þar er um að ræða Fólk, staðir og hlutir eftir breska leikskáldið Duncan Macmillan sem frumsýnt var í Breska þjóðleikhúsinu 2015 við einstaklega góðar viðtökur og rataði uppfærslan á West End innan árs,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um Fólk, staði og hluti sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Rýnir rifjar upp að Fólk, staðir og hlutir sé þriðja sviðsverk Macmillan sem íslenskir áhorfendur fá tækifæri til að sjá á rétt rúmu ári. Snemma árs 2017 sýndi Leikfélagið fljúgandi fiskar leikrit hans Andaðu í Iðnó og síðasta haust setti Borgarleikhúsið upp leikgerð á skáldsögunni 1984 eftir George Orwell sem Macmillan vann í samvinnu við Robert Icke. „Öll bera verkin vönduðu handbragði höfundar vitni og ljóst að hér er á ferðinni leikskáld sem kann á leikhúsið sem miðil,“ skrifar rýnir. 

„Í Fólk, staðir og hlutir skrifar Macmillan af mögnuðu innsæi um áfengis- og lyfjafíkil sem fer í meðferð hjá meðferðarstofnun sem vinnur eftir 12 spora kerfinu. Verkið, sem er afspyrnuvel þýtt af Garðari Gíslasyni, fjallar um leikkonu (Nína Dögg Filippusdóttir) sem veldur ekki lengur starfinu vegna neyslu og er neydd af vinnuveitanda sínum til að fara í afvötnun. Framan af er leikkonan einvörðungu að bíða meðferðina af sér. Hún þurrkar sig upp og tekst þannig á við efnafræðilega hlutann, en er engan veginn tilbúin til að fara í þá sjálfsskoðun og sjálfsvinnu til að leita orsaka fíknarinnar sem meðferðarferlið krefst ef hægt á að vera að ná raunverulegum bata. Líkt og læknir verksins (Sigrún Edda Björnsdóttir) bendir á þurfa fíklar að viðurkenna vanmátt sitt gagnvart fólki sem veldur því að þeir gætu fallið, stöðum sem þeir tengja við neysluna og hlutum sem kveikja í gömlum venjum og þaðan er titill leikritsins fenginn.

„Sýningin hvílir á herðum Nínu Daggar Filippusdóttur sem er á …
„Sýningin hvílir á herðum Nínu Daggar Filippusdóttur sem er á sviðinu nær allan tímann. Þetta er einstaklega krefjandi hlutverk þar sem persónan sveiflast frá yfirgengilegum hroka yfir í botnlaust sjálfshatur fíkilsins sem býr yfir baneitraðri blöndu af lélegu sjálfsmati og mikilmennskubrjálæði,“ segir í leikdóminum um Fólk, staði og hluti. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Leikkonan er eldklár, hraðlygin, kjaftfor og meinfyndin – og því ekki hægt annað en hrífast af heimspekilegum vangaveltum hennar um tilgang lífsins og efasemdum um æðri máttarvöld og hlæja að eitruðum pillum hennar á samferðafólk sitt. Á sama tíma leynir sér ekkert hversu alvarlega veik hún er og hjálparþurfi – en innst inni veit hún að fíknin mun ganga af henni dauðri geri hún ekkert í sínum málum. Henni gengur hins vegar erfiðlega að viðurkenna vanda sinn og vanmátt og því reynir hún örvæntingarfullt, en árangurslaust, að hafa stjórn á kringumstæðunum. Leikskáldið leiðir okkur með klókindalegum hætti gegnum tvær gjörólíkar meðferðir leikkonunnar, þar sem sú fyrri er lengri og meira krefjandi sem veldur því að áhorfendur skilja betur hversu óþolandi fíkillinn getur verið.

Börkur Jónsson fangar vel með stílhreinni leikmynd sinni hvítt og sterílt umhverfi meðferðarstofnunarinnar. Áhorfendur sitja sitt hvorum megin við leikrýmið á Litla sviðinu sem minnir á stundum á risastórt fiskabúr, ekki síst þegar meistaraleg lýsing Þórðar Orra Péturssonar í bland við kraftmikla tónlist Gaute Tönder og Frode Jacobsen, er notuð til að túlka skyntruflanir, tímaflakk og minnisleysi leikkonunnar. Vel var til fundið að nota gula birtu í upphafssenu sýningarinnar til að skapa tilfinningu fyrir öðrum tíma í brúnum tónum og lokamyndin með sinni skörpu lýsingu var áhrifarík í einfaldleika sínum. Búningar Kötju Ebbel Fredriksen þjónuðu persónum vel og stálu aldrei athyglinni frá innihaldinu.

Sýningin hvílir á herðum Nínu Daggar Filippusdóttur sem er á sviðinu nær allan tímann. Þetta er einstaklega krefjandi hlutverk þar sem persónan sveiflast frá yfirgengilegum hroka yfir í botnlaust sjálfshatur fíkilsins sem býr yfir baneitraðri blöndu af lélegu sjálfsmati og mikilmennskubrjálæði. Áhorfendur fá að sjá leikkonuna í vinnunni, undir áhrifum, að kljást við fráhvarfseinkenni og ofskynjanir í afvötnuninni sem tekur líkamlega mjög á, í samspili við starfsfólk og aðra sjúklinga meðferðarstofnunarinnar og síðast en ekki síst í uppgjöri við foreldra sína, sem Sigrún Edda Björnsdóttir og Jóhann Sigurðarson túlka af miklu öryggi. 

Lokauppgjör mæðgnanna var eitt það áhrifaríkasta sem rýnir hefur séð á síðustu misserum, enda auðveldlega hægt að skilja alla þá reiði, vonleysi, sorg og uppgjöf sem foreldrarnir glíma við vegna neyslu dóttur sinnar á sama tíma og ekkert fór á milli mála hvernig samspilið í samskiptunum hefur mótað dótturina með afdrifaríkum hætti. Hér náði margslungið verk Macmillan listrænum hápunkti. Nestuð safaríkum efnivið vinnur Nína Dögg sannkallaðan leiksigur í hlutverki fíkilsins og þetta er áhrifaríkasta frammistaði leikara á leikárinu.

Önnur hlutverk verksins eru mun minni, en þjóna engu að síður mikilvægum þætti í þeirri heildarmynd sem sköpuð er á sviðinu. Sigrún Edda gerir sér mikinn mat úr hlutverkum móðurinnar, læknis og ráðgjafa, en snjallt er að láta þessar þrjár lykilpersónur í lífi leikkonunnar renna saman. Edda Björg Eyjólfsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir eru ýmist í hlutverkum fámálla hjúkrunarfræðinga eða fíkla í hópmeðferðinni þar sem þær veita örlitla innsýn í fíknivanda persóna sinna. Hannes Óli Ágústsson er fallega óframfærinn í hlutverki Steinars og Björn Thors afslappaður og einlægur í hlutverki Markúsar sem helst vill ekki þurfa að yfirgefa öruggt skjól meðferðarstofnunarinnar og snýr því aftur sem ráðgjafi.

„Íslenska útfærslan á Fólk, staðir og hlutir er sýning sem …
„Íslenska útfærslan á Fólk, staðir og hlutir er sýning sem allir ættu að sjá, jafnt ungir sem aldnir, jafnt fíklar sem aðstandendur – því öll þekkjum við einhvern eða einhverja sem lent hafa í klóm fíknarinnar með einum eða öðrum hætti og höfum gott af því að sjá fjallað um þetta vandasama viðfangsefni af innsæi, alúð, virðingu, húmor og hlýju,“ segir í leikdóminum um Fólk, staði og hluti. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Höfundurinn vinnur meðvitað með hliðstæðurnar milli leikhússins og meðferðarstofnunarinnar þar sem hlutverkaleikir eru notaðir í hópmeðferðinni til að ná bata. Meðferðin verður þannig líkt og æfingaferli leikhúsanna rými þar sem leyfilegt er að prófa sig áfram, gera mistök, örvænta og fikra sig áfram í leit að svörum en stóra spurningin er síðan hvað taki við þegar stíga þarf út úr hinu verndaða umhverfi og mæta ytri heiminum á ný – því bataferlinu lýkur ekki við útskrift/frumsýningu. Þá tekur við viðkvæmt ferli þar sem lifa þarf einn dag í einu, njóta hvers andartaks fyrir sig og þakka fyrir tækifærin sem gefast.

Gísli Örn Garðarsson hefur áður sýnt að hann hefur sem leikstjóri einstakt lag á að skapa sýningar sem búa yfir húmor og hlýju. Fólk, staðir og hlutir er þar engin undantekning og því skal engan undra að norska uppfærsla verksins sem hann frumsýndi hjá Þjóðleikhúsinu í Osló í febrúar með sömu listrænum stjórnendum en þarlendum leikurum hafi slegið í gegn og gangi fyrir fullu húsi. Íslenska útfærslan á Fólk, staðir og hlutir er sýning sem allir ættu að sjá, jafnt ungir sem aldnir, jafnt fíklar sem aðstandendur – því öll þekkjum við einhvern eða einhverja sem lent hafa í klóm fíknarinnar með einum eða öðrum hætti og höfum gott af því að sjá fjallað um þetta vandasama viðfangsefni af innsæi, alúð, virðingu, húmor og hlýju,“ segir í leikdóminum sem lesa má í Morgunblaðinu í dag.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir