Já ráðherra

„Rammpólitískt og hraðsoðið ádeiluverk sem virkar,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í …
„Rammpólitískt og hraðsoðið ádeiluverk sem virkar,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í niðurlagi á leikdómi sínum um Svartlyng sem GRAL sýnir í Tjarnarbíói. Ljósmynd/Leifur Wilberg

„Þá er ótalin Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir sem hnýtir endahnút sýningarinnar á táknrænan hátt og minnir á að þrátt fyrir allan galgopaskapinn og fyndnina er dauðans alvara á bak við Svartlyng. Rammpólitískt og hraðsoðið ádeiluverk sem virkar,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í niðurlagi á leikdómi sínum um Svartlyng sem GRAL sýnir í Tjarnarbíói.  

„Pólitískt ádeiluleikhús er vandmeðfarið verkfæri. Eitt er nú hvað leikhúsformið er þungt í vöfum og tímafrekt í framleiðslu, sem hentar ekki sérlega vel ef tala á beint inn í samtímann, skoða og skensa ráðamenn meðan skandalarnir eru enn í fersku minni. Annar vandi er sá að litlar líkur eru á að þeir sem ætlunin er að lesa pistilinn leggi á sig leikhúsferð með tilheyrandi fjárútlátum og fyrirhöfn. Stundum gleymist að skúrkarnir eru næstum örugglega fjarverandi og reiðigusur ganga yfir áhorfendur sem langar mest að samsinna öllu sem sagt er, en er stillt upp sem óvinum. Hinar öfgarnar eru líka dauði yfir áhugaverðri kvöldstund. Þá ríkir yfirlætið eitt, engra spurninga er spurt enda allir sammála um svörin og fara sjálfsánægðir og umhugsunarlausir heim. 

Það er langt síðan ég sá leiksýningu sneiða eins fimlega hjá þessum skerjum án þess að bleyta um of í eigin púðri og Svartlyng gerir,“ skrifar Þorgeir og bendir á að Bergur Þór Ingólfsson sé einn næmasti leikstjóri landsins og Guðmundur Brynjólfsson ágætlega að sér í leikhúsi fáránleikans.

„Hvernig þar er sótt í innantóma og merkingarlausa síbylju þess sem við köllum tjáskipti, en er oftast einhverskonar valdaspil og feluleikur, ekki síst þegar valdamenn tala. Enda eru ræðuhöld og samræður persónanna í senn fráleitar og hrollvekjandi kunnuglegar. Í sama skóla er hægt að læra að nota einfaldar líkingar og bernskt myndmál sem jaðrar við fimmaurabrandara á áhrifaríkan hátt. Þaðan kemur hugmyndin um hendurnar sem fólk er tilbúið að fórna frekar en að svíkja flokkinn, og þaðan koma glerkassar Evu Völu Guðjónsdóttur útlitshönnuðar sem gefa sviðinu form og tákna gegnsæið, og klósettpappírinn sem þjónar fjölbreyttum tilgangi, m.a. sem forgengilegur pappír svart- og hvítbókar.

Annað sem hjálpar er hvernig farsafléttan sem liggur undir byggingu verksins er aldrei látin taka völdin. Fyrir vikið verður aldrei óþægilegt að það stendur greinilega ekki til að leiða hana til lykta á viðtekinn hátt, eða sækja beint í hana kómískt eldsneyti í feluleik og vandræðagang með hin ýmsu leyndarmál flokks og fjölskyldu. Slík nálgun hefði sett erindi sýningarinnar aftar í forgangsröðina og það er alveg ljóst að hér liggur fólki meira á hjarta en svo að það hefði verið ásættanlegt. Eftir hlé, þegar leikslok nálgast verður erfiðara að víkja sér undan kröfunni um lausn fléttunnar. Þá slaknar eilítið á spennunni í sýningunni. Eins þegar tekin eru af öll tvímæli um að hið óræða hneyksli sem persónurnar hafa glímt við lengi vel er sömu ættar og málsmeðferðin á „ærumálinu“ sem sprengdi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar 2017. Frá sjónarhóli fagurfræði leikritunar hefði verið betra að halda þó þeirri óræðni sem ríkir fram að því allt til enda, en sennilega var nokkrum hláturgusum fórnandi fyrir hina óþægilegu og spennuþrungnu þögn sem breiðist yfir salinn þegar þetta blasir loksins við án tvímæla,“ skrifar Þorgeir í leikdómi sem birtist í Morgunblaðinu sl. miðvikudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir