Með tóma vasa

„Leikkonurnar tvær ná samt ekki að gera sér almennilegan mat …
„Leikkonurnar tvær ná samt ekki að gera sér almennilegan mat úr efniviðnum, enda takmarkað hversu góða máltíð hægt er að elda þegar hráefnið er einfaldlega ekki nógu gott,“ segir í leikdómi um Fly Me to the Moon eftir Marie Jones í leikstjórn höfundar sem Þjóðleikhúsið frumsýndi nýverið. Ljósmynd/Olga Helgadóttir

„Marie Jones hefur leikstýrt Fly Me to the Moon bæði á Írlandi og í Bandaríkjunum við misjafnar viðtökur. Íslenska uppfærsla verksins virkaði á köflum ekki fullæfð auk þess sem sviðsumferðin var of oft kauðaleg. Niðurstaða kvöldsins var því að fyrri frægð og velgengni er ekki endilega ávísun á gæðastund í leikhúsinu,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í niðurlagi leikdóms síns um Fly Me to the Moon eftir Marie Jones í leikstjórn höfundar sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu um helgina. 

Eins og margir muna vafalítið er Marie Jones einnig höfundur leikritsins Með fulla vasa af grjóti frá 1996 sem Þjóðleikhúsið sýndi við feikigóðar viðtökur fyrst árið 2000 og aftur 2012 og 2017. „Í ljósi þeirra miklu vinsælda sem uppfærslan naut er skiljanlega freistandi að leita aftur í smiðju Jones,“ segir í leikdómnum. 

„Líkt og í Með fulla vasa af grjóti eru aðeins tveir leikarar í Fly Me to the Moon. Bæði verk draga upp mynd af írsku samfélagi þar sem atvinnuleysi og stéttaskipting eru landlæg og ákveðið vonleysi ríkir. Þar með lýkur samanburðinum því ólíkt leikurunum tveimur í Með fulla vasa af grjóti, sem fengu tækifæri til að sýna fimi sína þegar þeir skiptu á milli sín fimmtán hlutverkum verksins, eru leikkonurnar tvær í Fly Me to the Moon fastar í sömu hlutverkum allan leikinn.

Verkið gerist í Belfast og hverfist um Lorettu Mackie (Anna Svava Knútsdóttir) og Francis Shields (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) sem vinna við aðhlynningu heima hjá hinum 84 ára gamla Davy McGee sem núorðið lifir fyrir það eitt að hlusta á tónlist í flutningi Franks Sinatra, veðja á hesta og lesa The Daily Mail. Þegar skjólstæðingur kvennanna hrekkur skyndilega upp af á þeirra vakt sjá þær tækifæri til að eignast örlítinn aur. Með því að láta umheiminn halda að Davy McGee sé enn á lífi nokkrum tímum eftir andlátið geta þær svikið út ellilífeyri hans, samtals 120 pund eða um 17 þúsund íslenskar krónur, og skipt honum á milli sín. Þar með hefst farsakennd atburðarás sem teygir sig yfir tvo klukkutíma með hléi.

Því miður verður að segjast að lopinn er óþarflega teygður í verkinu og framvindan höktandi. Einn ágætis brandari undir lokin stendur ekki undir heils kvölds sýningu. Þegar við bætist að höfundurinn ætlast til að írsk eftirnöfn og götuheiti miðli mikilvægum upplýsingum til áhorfenda um trúmál persóna þá er úr vöndu að ráða. Þýðing Guðna Kolbeinssonar er þjál, en sennilega hefði farið betur á því að staðfæra verkið og skera burt hluti sem augljóslega hafa aðeins þýðingu fyrir samlanda höfundar.“

Rýnir bendir á að frá höfundarins hendi fá áhorfendur lítið að vita um konurnar tvær annað en að þær hafa ekki efni á að komast með í gæsapartí til Barcelona, sonur Francis var rekinn úr skóla og þénar nú peninga á því að selja ólöglegt niðurhal á kvikmyndum og dóttir Lorettu kemst ekki í Disney-ferð með skólanum sínum vegna peningaleysis auk þess sem eiginmaður hennar missti vinnu sína sem múrari í kjölfar efnahagskreppunnar.

„Þessir dýpri undirtónar verksins um fjárhagslega örbirgð kvennanna tveggja sem vinna fyrir sex pund á tímann (sem samsvarar 870 íslenskum krónum) týnist hins vegar í öllum vandræðagangi farsans.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir drífur framvinduna áfram af krafti í hlutverki Francis sem framan af er sú sem fær allar hugmyndirnar að því hvernig þær vinkonur geti krækt í örfáa þúsundkalla. Anna Svava Knútsdóttir nær vel að miðla vandræðagangi Lorettu sem jaðrar við taugaveiklun, en báðar hafa konurnar þekkingu sína af glæpum úr misgóðum sjónvarpsþáttum. Leikkonurnar tvær ná samt ekki að gera sér almennilegan mat úr efniviðnum, enda takmarkað hversu góða máltíð hægt er að elda þegar hráefnið er einfaldlega ekki nógu gott,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka