Áfram stelpur

Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson eru „hirðfífl þjóðarinnar sem …
Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson eru „hirðfífl þjóðarinnar sem leyfist að gagnrýna menn og málefni með bros á vör og sakleysisblik trúðsins í augum áhorfendum til ómældrar skemmtunar,“ segir í rýni um Kvenfólk. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Gott orð hefur farið af Kvenfólki  síðan sýningin var frumsýnd norðan heiða í leikstjórn Ágústu Skúladóttur fyrir rúmu ári – og ekki að ástæðulausu. Þríeykið vinnur augljóslega afskaplega vel saman þar sem hugmyndaauðgin fær notið sín með kímnina að leiðarljósi á sama tíma og samfélagsádeilan er aldrei langt undan,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi um sýninguna Kvenfólk eftir Eirík G. Stephensen og Hjörleif Hjartarson í hljómsveitinni Hundur í óskilum sem tekin var til sýningar í Borgarleikhúsinu fyrir skemmstu, en frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrra. 

Kvenfólkmun vera síðasti hluti þríleiks Hunds í óskilum sem hófst með Sögu þjóðar 2012, þar sem félagarnir fóru á hundavaði í gegnum Íslandssöguna, og hélt áfram í Öldinni okkar2015, þar sem þeir horfðu til atburða 21. aldarinnar með fókus á efnahagshrunið 2008 og afleiðingar þess. Í öllum þremur sýningum leikur húmorinn lykilhlutverk, en óhætt er að segja að Eiríkur og Hjörleifur séu nokkurs konar hirðfífl þjóðarinnar sem leyfist að gagnrýna menn og málefni með bros á vör og sakleysisblik trúðsins í augum áhorfendum til ómældrar skemmtunar – og stundum jafnvel undrunar. Eftir að hafa sökkt sér fyrst ofan í Íslandssöguna og síðan samtímasöguna hafa tvímenningarnir dregið þá „rökréttu“ ályktun að konur hafi ekki komið til Íslands fyrr en laust fyrir aldamótin 1900 og í Kvenfólkideila þeir uppgötvun sinni með áhorfendum og greina í framhaldinu sögu kvenna og kvennabaráttunnar hérlendis með nokkrum vel völdum vísunum út fyrir landsteinana.

Eiríkur og Hjörleifur leggja út af fortíðinni með bráðskemmtilegum hætti þar sem ólíkir tímar mætast með skapandi hætti. Í meðförum þeirra er auðvelt að sannfærast um að Íslendingasögurnar hafi beinlínis verið skrifaðar af munkum á miðöldum sem viðvörun við því hvaða afleiðingar það gæti haft að hleypa konum til Íslands, enda gripu menn, að þeirra sögn, til íþyngjandi reglugerða til að stemma stigu við landnámi kvenna. Beitt er ádeilan þegar orðræða samtímans um óæskilega fjölgun útlendinga sem ræni af heimamönnum störfunum fyrir mun lægra kaup er snúið upp á konur,“ segir í leikdómnum sem birtur var í Morgunblaðinu í gær, fimmtudaginn 29. nóvember. 

„Þó að margar þeirra upplýsinga sem Eiríkur og Hjörleifur bera á borð í sýningunni séu vel þekktar staðreyndir mátti iðulega heyra andköf áhorfenda og upphrópanir á borð við „Að hugsa sér!“, til dæmis þegar rifjað var upp að þegar Jóhanna Sigurðardóttir settist á þing 1978 hafi hún aðeins verið tíunda alþingiskonan hérlendis og að fyrsta verkfall landsins hafi verið knúið fram 1912 af konum sem kröfðust sömu launa fyrir sömu vinnu – krafa sem því miður enn er í fullu gildi rúmum hundrað árum síðar. Því eins og þeir félagar benda réttilega á hafa hlutirnir þokast alltof hægt í átt að jafnrétti – þrátt fyrir að við Íslendingar teljum okkur iðulega vera heimsmeistara í kynjajafnrétti (þó að tölurnar segi síðan annað). Á sama tíma og áhorfendur gátu hlegið sig máttlausa yfir skemmtilegheitum Eiríks og Hjörleifs fór þungur undirtónn sýningarinnar ekki á milli mála, enda ekkert launungarmál að baráttan fyrir jöfnum tækifærum og kjörum kynjanna á enn töluvert í land,“ segir í dómnum og í framhaldinu er fögrum orðum farið um umgjörðina alla. 

„Í ljósi þess að enn hallar á konur innan leikhússins, hvort heldur er í hópi leikskálda, leikstjóra eða burðarhlutverka, spyr sig vafalítið einhver hvað tveir miðaldra karlar vilja upp á dekk í sýningu um kvenfólk. Því er til að svara að sama er hvaðan gott kemur. Hundur í óskilum skilgreinir sig kinnroðalaust sem femíníska hljómsveit, en femínisti er einfaldlega karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki enn verið náð og vill gera eitthvað í því. Kyns síns vegna ná Eiríkur og Hjörleifur vafalítið eyrum sem kvenkyns femínistar eiga erfiðara með að ná og það er jákvætt. Á sama tíma eru tvímenningarnir meðvitaðir um mikilvægi þess að raddir kvenna heyrist. Það birtist skýrt í lokakafla sýningarinnar sem er ótvíræður hápunktur hennar,“ segir í leikdómnum, en þar er vísað til flutning kvennahljómsveitar sem nefnist Bríet og bomburnar og skipuð er Fríðu Björgu Pétursdóttur, Hrafnhildi Einarsdóttur, Margréti Hildi Egilsdóttur og Unu Haraldsdóttur á vel þekktu lagi frá sjöunda áratug síðustu aldar sem inniheldur mikilvæga sjálfstæðisyfirlýsingu kvenna sem enn er í fullu gildi. Dóminn í heild má lesa í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir