Súperskörp stúdía

„Á glerhálum kynhlutverkavellinum spilar Jón gott mót í Súper,“ segir …
„Á glerhálum kynhlutverkavellinum spilar Jón gott mót í Súper,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Súper er bráðfyndin og skörp stúdía í íslenskum sjálfsmyndarklisjum. Kannski ekki djúpskreið. Kannski ekki ýkja frumleg, við höfum heyrt þetta allt áður. En það er auðvitað mergurinn málsins,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í leikdómi sínum um Súper – þar sem kjöt snýst um fólk í leikstjórn Benedikts Erlingssonar sem Þjóðleikhúsið frumsýndi um liðna helgi. Gagnrýnandi blaðsins gefur uppfærslunni fjórar stjörnur. 

„Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á loft fána fáránleikans í leikhúsinu, taka upp þráðinn þar sem Ionesco þraut erindið. Hvort sem hlutskipti utanveltumannsins, útlagans, geimverunnar, er Jóni áskapað eða áunnið þá hefur sýn hans á fólk á sér öll einkenni hins glögga gestsauga. Hann sér kannski ekki djúpt undir yfirborðið, kryfur ekki eða greinir. En hann heyrir það sem við erum hætt að heyra, fangar fullkomlega fáránleikann í hversdagshjalinu – hið fráleita, vanhugsaða og heimskulega – og skilar því gljáfægðu til okkar á ný. Það er ekki alltaf notalegt, en alla jafnan morðfyndið og sennilega meinhollt.“

„Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á …
„Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á loft fána fáránleikans í leikhúsinu, taka upp þráðinn þar sem Ionesco þraut erindið,“ segir í leikdómi um Súper. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Gagnrýnandi Morgunblaðsins bendir á að til hliðar við hina þjóðlegu og dálítið þjóðrembdu hlið sjálfsmyndarinnar séu kynhlutverkin. „Þar er bæði margt að skoða í viðteknum og jafnvel klisjukenndum og sjálfvirkum hugmyndum okkar. Þarna er vettvangur fyrir bæði ærsl og usla. Sá vettvangur hefur lengi verið heimavöllur Jóns Gnarr, fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar, við útvarpshljóðnemann og eftirminnilega í hlutverki borgarstjórans í Reykjavík. Á glerhálum kynhlutverkavellinum spilar Jón gott mót í Súper,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í blaðinu í dag. Þar er fjallað nánar um frammistöðu leikhópsins, alla sjónræna umgjörð og leikstjórnina. 

Í niðurlagi dómsins segir síðan: „Súper – þar sem kjöt snýst um fólk er meðal skemmtilegustu sýninga sem ég hef séð það sem af er þessum leikvetri. Hún er óvænt, en það kemur líka á óvart hvað hún er óvænt, svo mjög sem hún ber stíl höfundar sínum vitni. Hún er líka enn eitt dæmið um að því er virðist áreynslulaust öryggi Benedikts Erlingssonar við að finna viðfangsefnum sínum nákvæmlega réttan tón, stíl og yfirbragð. Hún mun ekki breyta því hvernig við erum, en kannski mun hún stundum kalla fram smá kinnroða yfir því hvað við segjum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir