„Gjöfult samstarf höfundar og leikstjóra skilar sér í áhrifamikilli sýningu sem birtir okkur grimman og ofbeldisfullan heim sem erfitt getur verið að horfast í augu við. Við getum þó heilmikið lært af leit höfundar að ljósinu sem leynist í sérhverri manneskju, en fær vegna aðstæðna ekki alltaf tækifæri til að loga,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi um verkið Helgi Þór rofnar eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar sem nýverið var frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Sýningin fær fjórar stjörnur í Morgunblaðinu í dag.
„Áberandi leiðarstef í verkum Tyrfings hefur frá upphafi verið ofbeldi í nánum samböndum, þar sem vanræksla, skortur á nánd, tilfinningaleg fátækt, markaleysi og stjórnsemi hafa skelfilegar afleiðingar. Tyrfingur skrifar um flókin sálfræðileg tengsl af djúpu innsæi og augljósri þekkingu sem skilar sér í áhrifamiklum leiktexta sem nýtur sín vel á sviði.
Beitt orðfæri og ákveðin gróteska í bland við ofbeldi og grimmd, sem minnir á stundum á verk Söruh Kane, ýta auðveldlega við áhorfendum, en Tyrfingur gætir þess vandlega að nýta húmorinn til að hjálpa okkur að meðtaka óþægilega og sára hluti. Húmorinn hefur þannig ávallt verið eitt mikilvægasta verkfærið í verkfærakistu Tyrfings og er óhætt að segja að hann sé sótsvartur í nýjasta leikriti hans.
Í Helgi Þór rofnar beinir Tyrfingur, líkt og oft áður, sjónum sínum að undirmálsfólki án þess þó að gera lítið úr því – því mennskan er alltaf í fyrirrúmi hjá höfundi. Í forgrunni eru feðgarnir Helgi Þór (Hilmar Guðjónsson) og Jón (Bergur Þór Ingólfsson) sem reka saman útfararþjónustu þar sem Helgi Þór starfar sem líksnyrtir, en dreymir um að láta rödd sína heyrast, meðan faðir hans er útfararstjóri sem hefur viðurværi sitt af alls kyns skiptidílum. Snemma verks birtist Katrín (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) og reynist vera dóttir líksins (Kári Gíslason) sem Helgi Þór er þá stundina með á börunum.
Á milli Helga Þórs og Katrínar kviknar einhver neisti sem fær Helga Þór til að vilja sýna meira sjálfstæði í eigin lífi en hann hefur áður gert og brjótast út úr aðstæðum sínum. Þegar Jón mætir á svæðið og gerir sér grein fyrir því að hann gæti mögulega verið að missa yfirráðin yfir syni sínum kastar hann fram spádómi og segir líf sonarins í hættu. Inn í atburðarásina blandast síðan bakarinn (Hjörtur Jóhann Jónsson) sem vill ólmur að Helgi Þór flytji inn til sín, í stað barnungrar dóttur sem hann hefur ekki lengur burði eða nennu til að sjá um,“ skrifar Silja meðal annars í leikdómi sínum og fjallar í framhaldinu um frammistöðu leikaranna.
„Stefán Jónsson leikstjóri lýsir Helgi Þór rofnarsem grískum harmleik í viðtali í leikskrá með vísan til þess hversu afgerandi atburðir verksins eru og höfundur noti markvisst minni á borð við álög og spádóma. Áhugavert er að skoða hvaða áhrif spádómar hafa á fólk. Hefði Lajos konungur aldrei heyrt spádóm þess efnis að Ödipus, sonur hans, myndi myrða föður sinn og því næst kvænast móður sinni, Jóköstu, hefði Lajos sennilega aldrei skipað svo fyrir að bera ætti barnið út heldur alið það upp hjá sér og þá hefði spádómurinn mögulega aldrei ræst.
Eins mætti spyrja sig hvort hvarflað hefði að Makbeð að myrða Dúnkan konung ef nornirnar þrjár hefðu ekki orðið á vegi hans á heiðinni og spáð fyrir honum konungdómi? Sagt er að orð séu til alls fyrst, en orð og hvernig talað er til okkar á mótunarskeiði hefur líka afgerandi áhrif á þroska einstaklingsins. Hvaða sjálfstraust öðlast sá sem ávallt fær að heyra að hann sé einskis megnugur? Og hvernig lærir manneskja sem býr ekki við alúð að elska? Börn læra jú það sem fyrir þeim er haft og mantran sem þau heyra mótar.“
Leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.