Allt sem má ekki segja

„Í ljós á eftir að koma að brúðan, sem er …
„Í ljós á eftir að koma að brúðan, sem er ein af mörgum hliðarsjálfum Günthers í sýningunni, reynist ófær um að fljúga þar til uppgjörinu við fortíðina er lokið,“ segir í leikdómi um Brúðumeistarann eftir Bernd Ogrodnik. Ljósmynd/Eddi

Nokkur ár líða yfirleitt milli frumsýninga hjá Bernd, sem skýrist ekki síst af því að það tekur tíma að vinna allar brúðurnar frá grunni. Biðin er þó ávallt þess virði, því Bernd býður upp á sannkallaða leikhústöfra sem láta engan ósnortinn. Brúðumeistarinn er mikilvæg sýning sem minnir okkur á nauðsyn þess að horfast í augu við fortíðina og gera hana upp. Á sama tíma er hún brýn áminning um þá viðsjárverðu tíma sem við lifum með vaxandi þjóðernishyggju og útlendingahatri. Eftir því sem fækkar í hópi þeirra sem lifðu af hörmungar seinni heimsstyrjaldar fækkar því miður jafnframt í hópi þeirra sem minna okkur á að við megum aldrei sofna á verðinum gagnvart öfgaöflum,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi um Brúðumeistarann sem leikhópurinn Brúðuheimar frumsýndi á Brúðulofti Þjóðleikhússins fyrr í mánuðinum.

„Í viðtölum við Bernd í aðdraganda frumsýningar nýjustu sýningar listamannsins fór hann ekki dult með að Brúðumeistarinn, í góðri leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar og ljómandi þýðingu Maríu Helgu Guðmundsdóttur, væri persónulegasta sýning hans til þessa, en hún hefur verið í undirbúningi í um 15 ár. Ólíkt mörgum fyrri sýningum Bernds er Brúðumeistarinn ekki ætluð allri fjölskyldunni heldur aðeins fullorðnum, enda er umfjöllunarefnið ekkert léttmeti.

Í verkinu bregður Bernd sér í hlutverk þýska brúðumeistarans Günther sem fluttist til Íslands fyrir nokkrum áratugum til að flýja fortíðina, fjölskylduna, samfélagið og ættjörðina. Þegar sýningin hefst hefur Günther komið sér fyrir í sjálfsskipaðri einangrun frá umheiminum, sem kallast óvænt á við samkomubann og sóttkví samtímans. Ástæða þess að Günther hefur valið að loka sig inni bak við marglæstar dyr er að til stendur að bera hann út þar sem húsnæði hans á að víkja fyrir enn einu lúxushótelinu. Fljótlega kemur þó í ljós að Günther er ekki síður að reyna að loka fortíðina, með öllum sínum draugum, úti – en eins og vatn finnur hún sér alltaf leið. Áhrifamikil lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar og flott hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar gefa snemma í uppfærslunni tilfinningu fyrir því að Günther sé staddur í stríðshrjáðu landi með tilheyrandi sprengingum. Það kallast áþreifanlega á við það óveðursský sem ríkir í höfði brúðugerðarmannsins í tengslum við óuppgerða fortíð og skýrir að stórum hluta ótta og taugaspennu persónunnar. Snjallt er að láta ólík tímaskeið renna saman með þessum hætti, enda undirbýr það áhorfendur fyrir framhaldið. 

Eva Signý Berger hannar bæði leikmynd og búninga. Rýmið er listilega vel nýtt og leikmunir luma iðulega á leyndum flötum sem kallast á við leyndarmálin sem Günther þarf sjálfur að afhjúpa til að vinda ofan af vanlíðan sinni. Í fyrsta hluta sýningarinnar fá áhorfendur að kynnast Günther á vinnustofu sinni í samtímanum. Þar vinnur hann ötullega að því að útfæra vængi fyrir eina brúðuna svo hún geti flogið frjáls, en útfærslan vefst fyrir honum. Í ljós á eftir að koma að brúðan, sem er ein af mörgum hliðarsjálfum Günthers í sýningunni, reynist ófær um að fljúga þar til uppgjörinu við fortíðina er lokið.

„Við sjáum Günther rifja upp spakmæli afa síns sem brýndi …
„Við sjáum Günther rifja upp spakmæli afa síns sem brýndi fyrir afkomendum sínum að þolinmæði væri dyggð, en sjálfur beið hann vikum saman til að komast að því hvort dætur hans hefðu lifað af sprengjuárás,“ segir í leikdómnum. Ljósmynd/Eddi

Á vinnustofu brúðumeistarans leynist fjöldinn allur af brúðum sem kvikna bókstaflega til lífsins í höndum skapara síns. Við sjáum Günther rifja upp spakmæli afa síns sem brýndi fyrir afkomendum sínum að þolinmæði væri dyggð, en sjálfur beið hann vikum saman til að komast að því hvort dætur hans hefðu lifað af sprengjuárás. Áhrifamikill dauðadans afans við eina dóttur sína snemma í sýningunni setur tóninn fyrir það sem koma skal þar sem dauði, útrýmingarbúðir, sorg og leyndarmál eru í forgrunni. Í leikskránni er þeim spurningum réttilega velt upp hvort hægt sé að gera upp örvæntingu og sár heillar þjóðar í gegnum sögu eins manns; hvort hægt sé að vinna sig í gegnum kynferðislega misnotkun með því að búa til brúðu af ofbeldismanninum; hvort tímabært sé að varpa ljósi á samkynhneigð foreldris eftir að það fellur frá og hvort hægt sé að heila ævilanga leynd og þöggun. Þetta eru áhugaverðar spurningar og þarfar. Öll burðumst við að einhverju leyti með fortíðina á bakinu og þurfum mörg hver að gera upp sára fortíð og reynslu til að geta fundið frið í sálinni, þó að uppgjörið sé sem betur fer ekki jafn dramatískt og hjá Günther.

Bernd og Bergur nálgast vandmeðfarinn efniviðinn af nauðsynlegri virðingu og væntumþykju. Óhugnaðurinn er allsráðandi þegar minningar úr seinni heimsstyrjöldinni eru rifjaðar upp. Skuggamyndir úr smiðju Katarínu Caková eru nýttar með áhrifaríkum hætti til að miðla dapurlegum örlögum ömmu Günthers, þær sýna okkur líka sprengjuflugvélar, hermenn og járnbrautarlestirnar sem fluttu milljónir í útrýmingarbúðir nasista. Þrátt fyrir erfitt umfjöllunarefni er húmorinn sem betur fer aldrei langt undan. Þannig var gaman að fylgjast með því hvernig Günther sendi þá sem honum var illa við í útlegð á eyðieyju og beinlínis grátbroslegt að upplifa samtal Günthers við þýskan nasistaforingja þar sem sá síðarnefndi reynir að bera í bætifláka fyrir foringja sinn með takmörkuðum árangri.

„Sem mótvægi við allan óhugnaðinn er áhorfendum boðið upp á …
„Sem mótvægi við allan óhugnaðinn er áhorfendum boðið upp á undurfallegar senur, eins og þegar Günther afhjúpar yngri útgáfur foreldra sinna sem eiga fallegan endurfund um stund,“ segir í leikdómnum. Ljósmynd/Eddi

Sem mótvægi við allan óhugnaðinn er áhorfendum boðið upp á undurfallegar senur, eins og þegar Günther afhjúpar yngri útgáfur foreldra sinna sem eiga fallegan endurfund um stund eða þegar afi hans hjálpar þýsku andspyrnukonunni Sophie Scholl. Fallegust er síðan lokasenan þar sem eldri brúðuútgáfan af Günther tekur yngri útgáfu af sjálfum sér í faðm sinn og kemst loks á langþráð flug – laus undan byrðum sínum að loknu sársaukafullu en hreinsandi uppgjöri. Falleg tónlist Péturs Ben leikur stórt hlutverk í sýningunni og bætir miklu við heildarupplifunina,“ segir meðal annars í leikdómnum sem birtist í Morgunblaðinu í gær, miðvikudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir