Lítill drengur gleymdi sér

Baldur Björn Arnarsson, Gabríel Máni Kristjánsson og Hlynur Atli Harðarson …
Baldur Björn Arnarsson, Gabríel Máni Kristjánsson og Hlynur Atli Harðarson skiptast á að leika Bubba á hans yngri árum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Þetta hefði svo auðveldlega getað farið illa. Þetta hljómaði eins og ansi hæpin hugmynd þegar hún var kynnt: að búa til söngleik byggðan á ævi og tónlist Bubba Morthens,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í leikdómi sínum um söngleikinn Níu líf sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu um liðna helgi. Leikdómurinn birtist í Morgunblaðinu í dag og þar fær uppfærslan fullt hús eða 5 stjörnur. 

Ástæður þess að rýnir telur það hæpna hugmynd að búa til söngleikinn eru: „Í fyrsta lagi: er eitthvað ósagt um þann mann? Eitthvað sem við vitum ekki frá fyrstu hendi um þennan óstöðvandi sagna- og tjáningarmann sem hefur staðið í forgrunni á þjóðarsviðinu síðan áður en við af miðaldrakynslóðinni fermdumst? Og annað: verður þetta ekki bara tákrullandi stórhittarasjó með mishæpnum afsökunum fyrir því að flytja helstu smelli? Og talandi um þá: hver á eiginlega að syngja þessi lög svo eitthvert bragð verði að sem jafnast á við eða minnir allavega á meistarann sjálfan? 

Björn Stefánsson leikur Utangarðs-Bubba í sýningunni Níu líf.
Björn Stefánsson leikur Utangarðs-Bubba í sýningunni Níu líf. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

En þetta fer allt vel. Oftast á algerlega óvæntan og og stundum mótsagnarkenndan hátt. Eitt er nú að auðvitað er það ekkert endilega verkefni leikhússins að segja okkur einhver ný tíðindi. Heldur einmitt að minna okkur á, spegla og kryfja það sem við þegar vitum. Þannig verða alþekktir áfangar í lífi stjörnunnar, sigrar og skipbrot í bland við skondnar atvikssögur, tilefni til upprifjunar og endurmats í nýju samhengi. Frumsýningarsalurinn rifnaði til dæmis þegar barnungum Ásbirni var sett fyrir að skrifa orðið „bomba“ á skólatöfluna, vitandi fullvel hvernig það myndi fara. Og já, auðvitað eru stórsmellirnir eins og vörður á leiðinni. Vitaskuld hefði aldrei komið til greina að sniðganga Ísbjarnarblús, Hiroshima, Afgan, Rómeó og Júlíu eða Blindsker. En samhengið er alltaf rétt og stundum óvænt. Og notkun á minna þekktum lögum oft brilljant: að grafa upp hið sniðuga og lúmskt sjálfshæðna Ég hata þetta bít til að fylgja útúrkókuðum Bubba á veiðilendur Safari þegar fyrstu endalokin nálgast. Eða teikna sögusvið upphafsins með hinni stórkostlegu og sjaldheyrðu Dauðakynslóð Egósins.

Halldóra Geirharðsdóttir sem Egó-Bubbi og Hjörtur Jóhann Jónsson sem Edru-Bubbi …
Halldóra Geirharðsdóttir sem Egó-Bubbi og Hjörtur Jóhann Jónsson sem Edru-Bubbi í sýningunni Níu líf sem fjallar um líf Bubba Morthens. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Eftir á að hyggja var líka ástæðulaust að hafa áhyggjur af handritsgerðinni. Afrek Ólafs Egils Egilssonar í Elly sýndi okkur að þetta gerir hann öllum betur: að fella saman framvindu og fyrirframgefna tónlist þannig að hvort styðji, spegli, dýpki og ögri hinu. Og varðandi þetta með að fylla fótspor mannsins: auðvitað er það ekkert hægt. En það þarf heldur ekkert. Að deila verkefninu, persónunni, í marga hluta, lauslega eftir tímabilum og enn lauslegar eftir eiginleikum og afstöðu er ein leið, og að henni valinni opnast ótal tæknilegir möguleikar sem hér eru þaulnýttir til að ýta undir þá tilfinningu að við séum að deila sögunni. Sögu sem við erum löngu farin að líta á sem sameign okkar hvort sem er. Þessi uppdeiling fríar sýninguna líka að mestu undan þeim eðlislæga vanda að það er ekki hægt að leika að maður hafi rokkstjörnuútgeislun.

Valur Freyr Einarsson er Sátti-Bubbi í Níu líf.
Valur Freyr Einarsson er Sátti-Bubbi í Níu líf. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Fyrir vikið gátu Bubbarnir einbeitt sér að því að lifa persónuna og búa í aðstæðum hennar, og leystu það öll framúrskarandi vel, frá dásamlegum litla-Bubba Hlyns Atla Harðarsonar til vígamóðs sátta-Bubba Vals Freys Einarssonar með viðkomu hjá ólgandi reiða-Bubba Rakelar Bjarkar Björnsdóttur, ómótstæðilega gúanó-Bubba Arons Más Ólafssonar, tryllta utangarðs-Bubba Björns Stefánssonar, kókdrifna egó-Bubba Halldóru Geirharðsdóttur, brotthætta edrú-Bubba Hjartar Jóhanns Jónssonar og gráthlægilega góðæris-Bubba Jóhanns Sigurðarsonar. Góðu heilli var ákveðið að láta ekkert þeirra herma eftir þessum næst-eftirhermdasta manni Íslandssögunnar, en áhugafólk um þá list fær engu að síður sitthvað fyrir snúð sinn: smámyndir af þjóðþekktu fólki birtast hér og þar, frá dýrðlegri Silju Aðalsteinsdóttur Estherar Talíu Casey til morðfyndins Þórarins Tyrfingssonar frá Jóhanni, en auk allra Bubbanna bregða þau sér öll í ýmis hlutverk í því sameiginlega verkefni að rekja þessa miklu sögu. Allt gengur þetta lipurlega og fallega fyrir sig. Eftirminnilegir hápunktar eru margir og fleiri rifjast upp eftir því sem lengra líður. Vert er að geta sérstaklega túlkunar Estherar Talíu á móðurinni Grethe. Flutningur hennar á Talað við gluggann eitt af mörgu í sýningunni sem grætti mann og gleymist seint,“ skrifar Þorgeir meðal annars í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar