Hundinum Forgea, sem rekið hefur um Kyrrahaf í nærri þrjár vikur matar- og vatnslítinn, var í gær bjargað um borð í fiskiskip undan ströndum Hawaii.
Forgea var um borð í yfirgefnu tankskipi en mikil leit hefur staðið yfir að skipinu og hundinum að undanförnu. Áhöfn taívanska flutningaskipsins Insiko 1907 var bjargað um borð í skemmtiferðaskip 2. apríl. Eldur kom upp um borð í flutningaskipinu 13. mars og við það fór rafmagn af því og það varð sambandslaust við umheiminn. Hundurinn varð hins vegar eftir um borð og þegar af því fréttist skipulögðu bandarísk dýraverndunarsamtök björgunaraðgerðir. Lengi vel sást ekkert til skipsins og var um tíma talið að það hefði sokkið. En á laugardag sá áhöfn bandarískrar strandgæsluflugvélar skipið og hundinn hlaupandi á þilfarinu. Kassa með pítsu, súkkulaði og appelsínum var varpað til hundsins í skipinu og í gær kom fiskibátur á staðinn og bjargaði hundinum um borð. Von er á bátnum og Forgea til Honolulu í vikunni. „Það er kraftaverk að Forgea hafi fundist á lífi," sagði Martha Armstrong, varaformaður bandarísku dýraverndunarsamtakanna Humane Society.