Norsk kona, sem titlar sig dýratúlk, hefur átt langt hugsanaflutningssamtal við háhyrninginn Keikó og segir hann kvarta yfir að eiga engan maka.
Astrid Moe segir í samtali við norska blaðið Adresseavisen, að Keikó segist vera að leita að maka en efist um að sú leit beri árangur. Hún segir að Keikó hafi verið mikið niðri fyrir. Hann finni fyrir togstreitu milli tveggja heima og sé í tilvistarkreppu. Þess vegna gangi honum illa að samlagast öðrum háhyrningum. Þetta hafi líka haft þau áhrif að hann virtist vera veikur í síðustu viku því hann skorti orku. Þá fari bátafarganið á Skálavíkurfirði í taugarnar á honum en honum finnist mjög gaman að horfa á fólkið á bryggjunni.
Að auki segir Moe að Keikó hafi kvartað yfir því að hann klæi á bakinu. Hún hafi síðar tekið eftir því að hann var með senditæki á bakinu og Keikó hafi væntanlega átt við það.
Moe segist hafa að mestu rætt um tilfinningar við háhyrninginn og ein setning hafi haft mikil áhrif á sig: „Þótt ég væri fangi naut ég að mörgu leyti frelsis. En nú þegar ég er frjáls er ég samt fangi," hefur Moe eftir Keikó.