Tyrkneskur þingmaður hefur sent George W. Bush Bandaríkjaforseta hvítlauk til að róa taugar hans, nú þegar spenna vex vegna Íraksdeilunnar.
Mehmet Yildirim, þingmaður tyrkneska Þjóðarflokksins, gekk á fund Roberts Pearsons sendiherra Bandaríkjanna í Ankara og gaf sendiherranum hvítlauksklasa og bað hann fyrir fullan kassa af hvítlauk handa Bush.
Talsmaður sendiráðsins hafði eftir Yildirim að hvítlaukur væri hjartastyrkjandi og hefði róandi áhrif. Tyrkneska fréttastofan Anatolia sagði að Pearson og Yildirim hefðu báðir lýst yfir von um að Íraksdeilan yrði leyst með friðsamlegum hætti og síðan stilltu þeir sér saman upp fyrir myndatöku.