Þó svo að það séu þeir sem séu í hættu á vígvellinum, þá eru bandarískir hermenn hvattir til að biðja fyrir George W. Bush Bandaríkjaforseta.
Þúsundir fótgönguliða hafa fengið bækling með titlinum „Kristilegar skyldur“ sem inniheldur nokkrar bænir. Þá er hægt að rífa blaðsíðu úr bæklingnum og senda til Hvíta hússins en á blaðsíðunni segir að viðkomandi hermaður hafi beðið fyrir Bandaríkjaforseta.
„Ég hef skuldbundið mig til að biðja fyrir þér, fjölskyldu þinni, starfsfólki og hermönnum okkar á þessum óvissutímum. Megi friður guðs leiðbeina þér,“ segir á blaðsíðunni.
Ein bæn er fyrir hvern dag vikunnar í bæklingnum. Sunnudagsbænir hljóðar svo: „Ég bið að forsetinn og ráðgjafar hans leiti eftir visku guðs og treysti ekki á eigin dómgreind,“ og mánudagsbænin: „Ég bið að forsetinn og ráðgjafar hans búi yfir nægilegum styrk og hugrekki til að breyta rétt þrátt fyrir gagnrýni.“