Þýskar eiginkonur, sem búnar eru að fá sig fullsaddar af nöldri eiginmanna sinna í innkaupaferðum um helgar, geta nú losað sig við þá á meðan þær þræða verslanirnar. Í Hamborg hefur, að því er segir í frétt Reuters, verið opnað gæslusvæði fyrir karla þar sem haft er ofan af fyrir þeim með tveimur bjórflöskum, heitum mat, útsendingu frá knattspyrnuleik og leikjum fyrir 10 evrur (um 900 kr. ísl.).
„Konurnar fylla út eyðublað fyrir makann, þegar þær koma með þá, og geta síðan sótt þá þegar þeim hentar,“ segir Alexander Stein, framkvæmdastjóri Nox Bar. Hann segir, að í síðustu viku hafi karlarnir haft fjarstýrðan bíl til að leika sér með og í næstu viku muni verða haft ofan af fyrir þeim með kappakstri lítilla fjarstýrðra bíla.