Sápuóperur í sjónvarpi kenna börnum jafn mikið um ást og kynlíf og mæður þeirra, samkvæmt nýrri breskri rannsókn.
Sögðu 66% krakka á aldrinum 10-14 ára jafngott að fá upplýsingar úr sápuóperum og táningatímaritum og frá mæðrum sínum. Höfundar rannsóknarinnar leiða líkur að því að unglingum þyki ef til vill ekki eins vandræðalegt að fá upplýsingar úr þessum miðlum og að ræða þessi mál við foreldra sína.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru börn klókir neytendur sem trúa ekki endilega eða treysta því sem þau sjá í sjónvarpi. Þá segja höfundar rannsóknarinnar að hæfileiki barna til að túlka efnið sem þau sjá í sjónvarpi þroskist með aldrinum.
Fram kom að 89% barnanna hafa eigin sjónvarp í herberginu sínu en þrátt fyrir það segjast 68% barnanna horfa helst á sjónvarp annars staðar í húsinu með hinum fjölskyldumeðlimunum. Einnig sýndi rannsóknin að börn fá líka gjarnan upplýsingar úr útvarpinu, bæklingum og veggspjöldum.