Kennslukona nokkur var handtekin í gærdag í Bandaríkjunum og leidd í hlekkjum fyrir dómara. Var henni gefið að sök að hafa ekki gengið sómasamlega frá sælgæti og heitu súkkulaði er hún heimsótti Yellowstone-þjóðgarðinn fyrir ári.
Konan, Hope Clarke, var handtekin er hún kom með skemmtiferðaskipi til Miami á Flórída. Var hún flutt frá borði í hand- og fótjárnum og skipti engu þótt hún héldi því fram, að hún væri búin að greiða sektina við því að skilja eftir sig matarleifar í Yellowstone. Eftir níu klukkustunda vist í fangelsi kom í ljós, að hún hafði á réttu standa. Sektin, 3.500 kr., hafði verið greidd og var henni þá sleppt.