Háskóli Páfagarðs í Róm, Regina Apostolorum, ætlar að bjóða upp á námskeið í djöflafræðum og særingum á næstunni. Eiga námskeiðin að vera mótvægi við áhrif djöfladýrkendasöfnuða en sífellt fleiri söfnuðir af því tagi hafa skotið upp kollinum á Ítalíu undanfarið, að því er fram kemur á vefmiðlinum Ananova.
Námskeiðið er ætlað nýnemum og lærlingum í prestastétt og mun hefjast í febrúar á næsta ári. Verður fjallað um djöflafræði, hvernig djöfullinn birtist í helgum bókum auk þess sem skoðað verður hvernig lækna má fólk sem sagt er að sé andsetið.
Einn kennaranna, sem er rithöfundur og blaðamaður, segir að námskeiðið muni enda á því að tveir særingarmenn segi frá reynslu sinni. Meðal annars muni þeir kenna fólki hvernig á að sjá muninn á veiku fólki sem þurfi læknismeðferð og fólki sem er andsetið af djöflinum.