Flugmenn þurfa að gæta vel að því hvaða talnalyklar eru sendir út til flugstjórnarmiðstöðva meðan á flugi stendur. Að þessu komust tveir flugmenn í Bandaríkjunum.
Harry Butler var að fljúga flugvél sinni ásamt aðstoðarflugmanni frá Georgetown til Columbia í Suður-Karólínu þegar fjarskiptasamband um talstöð rofnaði. Veðrið var ekki nógu gott til að lenda talstöðvarlaust í Columbia og Butler snéri því við þar sem skyggni var gott í Georgetown.
Á leiðinni sendi aðstoðarflugmaðurinn boð til flugumsjónar með sérstökum merkjagjafa. Hann átti að skrifa tölurnar 7600 sem er talnakóði fyrir boðin: fjarskipti hafa rofnað. Þess í stað sló hann inn tölurnar 7500, sem þýða að verið sé að ræna flugvélinni.
Flugumferðastjórar í Myrtle Beach fengu boðin og létu lögreglu strax vita. Butler segist ekki hafa vitað hvaðan á hann stóð veðrið, þegar hann lenti í Georgetown og lögreglumenn og útsendarar FBI umkringdu flugvélina. Butler og aðstoðarflugmaðurinn voru síðan teknir til yfirheyrslu sem stóð yfir í tvo klukkutíma.