Finni nokkur, sem lögregla stóð að ölvun við akstur, reyndist vera með 6,84 prómill af áfengi í blóði sínu. Samkvæmt venjulegum mælikvörðum hefði maðurinn átt að vera meðvitundarlaus en hann var hinn sprækasti og reyndi að komast undan lögreglunni á hlaupum.
Að sögn sænska blaðsins Dagens Nyheter gaf lögreglan manninum merki um að stöðva bíl sinn þar sem ökulagið þótti einkennilegt. Maðurinn, sem er 61 árs, tók þá til fótanna inn í nálægan skóg og þar fann lögreglan hann nokkru síðar. Að sögn lögreglu átti maðurinn ekki í erfiðleikum með að ganga að lögreglubílnum.
Þótt maðurinn hafi verið býsna ölvaður náði hann ekki finnska metinu sem er 8,3 prómill.