Fylkir Sævarsson kajakræðari þurfti að hætta á leið sinni í kringum Danmörku eftir 550 kílómetra af 1.200 heildarvegalengd.
„Ég braut tvær árar og reglurnar eru þannig að maður verður að leggja af stað með sama búnað og maður klárar með. Það fylgdu því mikil átök að róa í gegnum brimgarðinn og árarnar brotnuðu í stórum öldum,“ segir Fylkir í umfjöllun um tilraun hans í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir vonbrigðin vera mikil enda hafi honum gengið vel á leiðinni. Hann lagði af stað hinn 1. júlí og ætlunarverk hans var að slá metið í kajakróðri í kringum Danmörku, sem er 24 dagar. „Þetta er mjög svekkjandi. Ég var í mjög góðum gír, hafði náð upp fínum takti og réri um 70 kílómetra á dag eins og markmiðið var.“