Vonast er til að um 100 þúsund pund fáist fyrir matseðil úr hinni örlagaríku jómfrúferð farþegaskipsins Titanic árið 1912 á uppboði 31. mars næstkomandi hjá uppboðsfyrirtækinu Henry Aldridge & Son. Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina boðið upp fjölmarga muni tengda skipinu. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph fjallar um þetta í dag.
Eins og sögufrægt er sökk Titanic í jómfrúferð sinni út af Nýfundnalandi á leið frá Englandi til New York í Bandaríkjunum eftir að hafa siglt á ísjaka með þeim afleiðingum að 1.517 manns týndu lífi.
Matseðillinn er dagsettur 14. apríl 1912 og þar gefur að líta þær gómsætu veitingar sem farþegum á fyrsta farrými Titanic stóðu til boða. Hann var á borði bankamannsins Washingtons Dodge og konu hans, Ruth, en hún hafði stungið honum í töskuna sína.
Ruth Dodge lifði það af þegar Titanic sökk ásamt syni þeirra hjóna og matseðillinn hefur síðan verið í eigu afkomenda þeirra.