Í algjöru myrkri verða minnstu athafnir flóknari. Hvernig finnur þú hurðina út úr herberginu? Hvernig eldarðu þér máltíð eða ferð yfir götu? Þetta er meðal þess sem gestir „Ósýnilegu sýningarinnar“ í Varsjá í Póllandi fá að reyna, en þar er fólkið boðið að takast á við lífið eins og það er í heimi hinna blindu.
Blindir leiðsögumenn fylgja fólki í gegnum sýninguna, sem er í sex herbergjum þar sem alls staðar er kolniðamyrkur. Í hverju herbergi er líkt eftir athöfnum daglegs lífs, bæði inni á heimilinu, úti á götu, á kaffihúsi og svo framvegis. Það tekur gesti um klukkustund að vera leiddir í gegnum safnið þar sem þeir læra að lykta, heyra, smakka á og snerta hluti án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut. Hugmyndin er sú að gefa innsýn í og dýpka skilning á stöðu blindra.
„Markmið okkar er að sýna fram á að veröld hins blinda getur verið falleg og stórkostleg, að blindir hafa skopskyn og lifa lífinu af ástríðu,“ segir Malgorzara Szumowska, safnvörður á Ósýnilegu sýningunni.
Í herberginu sem líkir eftir umferðargötu er yfirgnæfandi umferðarhávaði og gestir verða að forðast að lenda í árekstri við bíla eða ljósastaura. Annað herbergi er öllu friðsælla, þar er líkt eftir gönguferð úti í skógi þar sem allt angar af gróðri og lítill lækur seytlar undir brú. Síðasta herbergið er kaffihús, þar sem gestir láta reyna á hæfileika sína sem blindir þjónar.
Hugmyndin að blindrasýningunni kviknaði í Ungverjalandi hjá konu sem umbreytti íbúð sinni í myrkraveröld til að deila lífsreynslunni með eiginmanni sínum sem missti sjónina í slysi og þurfti að læra að athafna sig upp á nýtt. Tilraun hennar vakti athygli og úr varð sýning í Prag í Tékklandi, sem varð fyrirmynd sýningarinnar í Varsjá. Ár er liðið frá opnun og hafa 30.000 manns heimsótt Ósýnilegu sýninguna.
Blindu leiðsögumennirnir fá allir greitt fyrir vinnu sína sem er dýrmætt þar sem atvinnutækifæri eru fá fyrir blinda. Pawel Kozlowski, einn leiðsögumannanna, segir þetta besta starf sem hann hafi unnið, en líka mikla áskorun. „Ef þetta skilar sér í því að einn af hverjum 10 gestum lærist að líta á blinda sem venjulegt fólk, þá höfum við ná árangri.“