Japanskur dómstóll dæmdi í dag sjúkrahús til að greiða karlmanni um 44 milljónir króna í skaðabætur. Maðurinn fæddist á spítalanum en var ruglað saman við annað barn og sendur heim með fólki sem hann var ekkert skyldur. Hann þurfti svo að þola harðræði í lífinu.
Maðurinn fór með með rangri fjölskyldu eftir fæðinguna árið 1953. Hann missti svo „föður sinn“ er hann var tveggja ára. Fjölskyldan var fátæk og hann þurfti að taka kvöldskóla og vinna með námi. Hann hóf svo störf hjá flutningafyrirtæki.
Hinn drengurinn, sem fór heim af spítalanum með raunverulegum foreldrum mannsins, gekk hins vegar í háskóla.
Maðurinn átti þrjá yngri bræður og var ekkert líkur þeim. Með DNA-rannsókn var svo staðfest árið 2009 að maðurinn var ekkert skyldur fólkinu sem hann hafði alist upp hjá.
Árið 2012 komust bræður hans að því að honum hafði ruglað saman við annað barn á sjúkrahúsinu á sínum tíma.
Dómarinn viðurkenndi að maðurinn hefði orðið af mörgu í lífinu þar sem hann ólst ekki upp hjá líffræðilegum foreldrum sínum.
Raunverulegir foreldrar mannsins eru látnir.
„Ég finn mjög til með manninum og skil hans miklu vonbrigði,“ sagði dómarinn.