Nokkrir með stöðu grunaðs hjá Sjóvá

Húsleit hjá Sjóvá ofl | 15. ágúst 2009

Nokkrir með stöðu grunaðs hjá Sjóvá

 

Nokkrir með stöðu grunaðs hjá Sjóvá

Húsleit hjá Sjóvá ofl | 15. ágúst 2009

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Yfirheyrslur eru hafnar og nokkrir hafa verið yfirheyrðir með stöðu grunaðs manns í rannsókn embættis sérstaks saksóknara á tryggingafélaginu Sjóvá. Þór Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Sjóvár, er meðal þeirra sem hafa verið yfirheyrðir með slíka stöðu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Út fyrir heimildir sínar

Rannsókn embættisins, sem er mjög umfangsmikil og flókin, er vel á veg komin og beinist að umboðssvikum, en grunur leikur á að stjórnendur og eigendur Sjóvár hafi farið út fyrir heimildir sínar. Embættið framkvæmdi sem kunnugt er húsleitir hjá stjórnendum og eigendum félagsins í þágu rannsóknarinnar.

Mikill vafi leikur á því hvort stjórnendur Sjóvár hafi haft heimildir til að ráðstafa fjármunum tryggingafélagsins með þeim hætti sem þeir gerðu. Umboðssvik eru refsiverð samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga og geta varðað allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar. Umboðssvik er svokallað hættubrot, þannig að það telst fullframið ef sannað er að hætta á tjóni hafi skapast. Hætta á ólögmætri yfirfærslu fjármuna, þ.e. tjóni, er saknæm í þessu samhengi. Þannig að það skiptir í reynd ekki máli hvort verðmæti hafi farið forgörðum.

mbl.is