Fjölmiðlar gagnrýndir á aðalfundi

Bankakreppa | 26. ágúst 2009

Fjölmiðlar gagnrýndir á aðalfundi

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, var harðorður í garð íslenskra fjölmiðla og bloggara í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í morgun. Sagði hann að mikilli umræðu hafi verið þyrlað upp í fjölmiðlum um yfirtökutilboð félags í eigu hans og bróður hans, BBR, í Exista. Auk þess sem margt í rekstri Exista hafi verið gert tortryggilegt í umræðu undanfarinna mánaða.

Fjölmiðlar gagnrýndir á aðalfundi

Bankakreppa | 26. ágúst 2009

Frá upphafi aðalfundar Exista í morgun.
Frá upphafi aðalfundar Exista í morgun. mbl.is/Kristinn

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, var harðorður í garð íslenskra fjölmiðla og bloggara í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í morgun. Sagði hann að mikilli umræðu hafi verið þyrlað upp í fjölmiðlum um yfirtökutilboð félags í eigu hans og bróður hans, BBR, í Exista. Auk þess sem margt í rekstri Exista hafi verið gert tortryggilegt í umræðu undanfarinna mánaða.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, var harðorður í garð íslenskra fjölmiðla og bloggara í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í morgun. Sagði hann að mikilli umræðu hafi verið þyrlað upp í fjölmiðlum um yfirtökutilboð félags í eigu hans og bróður hans, BBR, í Exista. Auk þess sem margt í rekstri Exista hafi verið gert tortryggilegt í umræðu undanfarinna mánaða.

Því hafi meðal annars verið haldið fram að Exista hafi stundað spákaupmennsku gegn íslensku krónunni og segir Lýður engan fót vera fyrir slíkum ásökunum. Segir hann það sjást á því að félagið hafi frá því í ársbyrjun 2007 fært reikninga sína í evrum en ekki krónum. 

„Stórar eignir, þar á meðal hlutabréf í Kaupþingi og Bakkavör voru skráðar í krónum og þarf af leiðandi hefur veiking hennar alls ekki verið félaginu hagstæð. Exista gerði reikninga sína upp í evrum vegna þess að eignir og skuldir félagsins voru að meirihluta í erlendri mynt. Á þeim tíma var hins vegar óhjákvæmilegt að verja eigið fé félagsins gagnvart sveiflum í öðrum gjaldmiðlum en evru, m.a. norskri krónu, pundum og íslensku krónunni."

Hann segir þetta sannleikann og honum fái enginn haggað sama hversu oft menn reyni að halda öðru fram.

Vart hægt að réttlæta setu slúðurbera í skilanefndum

Lýður segir að það hafi verið með ólíkindum að heyra frétt á borð við þá sem ríkissjónvarpið flutti landsmönnum síðastliðið mánudagskvöld um rekstrarkostnað félagsins, „með rangfærslum og dylgjum í annarri hverri setningu," segir Lýður og bendir á að fréttamaðurinn hafi vísað í heimildarmenn í skilanefndum bankanna.

„Fleirtalan sem fréttamaðurinn notaði um skilanefndarmenn vekur athygli og auðvitað er það miður að um leið liggja allir skilanefndarmenn undir grun um að hafa veitt rangar upplýsingar sem e.t.v. aðeins tveir einstaklingar bera ábyrgð á. Nema að ekkert sé að marka þetta orðfæri frekar en annað í þessari umfjöllun.

Fréttinni er augljóslega ætlað að ala á tortryggni í garð Exista og kynda jafnvel undir það hugarfar sem við höfum því miður fundið fyrir hjá einstökum skilanefndarmönnum, að réttast sé að setja Exista í þrot eða að minnsta kosti að semja ekki við félagið nema nýir stjórnendur taki við því," sagði Lýður.

Hann sagði vandséð, að hægt sé að réttlæta það að slúðurberar sitji skilanefndum bankanna.

„Frétt sjónvarpsins er langt í frá sú fyrsta sem sést með fingraförum leka úr skilanefndunum. Slíkt er auðvitað óþolandi en um leið dæmigert fyrir allan þann rétt bæði einstaklinga og fyrirtækja sem er fótum troðinn í íslensku samfélagi um þessar mundir."

Fjalla um mál sem þeir hafa ekki sérfræðiþekkingu á

Lýður segist hafa á því vissan skilning að fréttamönnum verði stundum á ónákvæmni í umfjöllun sinni þegar þeir fjalla um mál sem þeir hafa ekki sérfræðiþekkingu á.

„Stór hluti fréttamanna sem áður þurfti aldrei að fjalla um viðskiptaheiminn skrifar í dag fréttir á hverjum degi um afleiðingar bankahrunsins, framvirka afleiðusamninga, gjaldmiðlaskiptasamninga, endurhverf viðskipti og ótal margt annað sem bæði er erfitt að skilja og ennþá erfiðara að fjalla um svo vel skiljist í stuttum fréttum. Verra er hins vegar ef þeir hinir sömu taka illa við ábendingum eða leiðréttingum," segir Lýður.

Eltir ekki ólar við hugleysingja í bloggheimum

Stjórnarformaður Exista vandaði ekki bloggurum kveðjuna í ræðu sinni í morgun.

„Ég ætla ekki að elta ólar við það samfélag hugleysingja sem stór hluti bloggheima virðist orðinn. Sóðakjaftur þeirra sem þar skýla sér undir dulnefnum á samt sinn þátt í því andrúmslofti sem daglega er kynt undir og því miður leika nokkrir oddvitar umræðunnar í netheimum þar talsvert hlutverk líka. Ég virði tjáningarfrelsi í landinu en ég fyrirlít margt það sem nafnlausir hugleysingjar senda daglega frá sér með bloggi sínu og orðbragði sem aldrei ætti að sjást eða heyrast," að sögn Lýðs Guðmundssonar.

Lýður Guðmundsson.
Lýður Guðmundsson. mbl.is/Golli
mbl.is