Er hún enn forsetafrú?

Hollande og ástarmálin | 24. janúar 2014

Er hún enn forsetafrú?

Sambýliskona Frakklandsforseta François Hollande, Valérie Trierweiler, er á leið til Indlands á sunnudag á vegum franskra mannúðarsamtaka. Það mun því ekki upplýsast næstu daga hver staða hennar er - forsetafrú eða fyrrverandi sambýliskona.

Er hún enn forsetafrú?

Hollande og ástarmálin | 24. janúar 2014

Sambýliskona Frakklandsforseta François Hollande, Valérie Trierweiler, er á leið til Indlands á sunnudag á vegum franskra mannúðarsamtaka. Það mun því ekki upplýsast næstu daga hver staða hennar er - forsetafrú eða fyrrverandi sambýliskona.

Sambýliskona Frakklandsforseta François Hollande, Valérie Trierweiler, er á leið til Indlands á sunnudag á vegum franskra mannúðarsamtaka. Það mun því ekki upplýsast næstu daga hver staða hennar er - forsetafrú eða fyrrverandi sambýliskona.

Undanfarnar tvær vikur hefur Trierweiler hvílst en hún var lögð inn á sjúkrahús í kjölfar frétta af framhjáhaldi Hollande með sér mun yngri konu, Julie Gayet. Þjáðist hún meðal annars af ofþreytu og of lágum blóðþrýstingi.

Fréttir herma að ferðin til Indlands hafi verið ákveðin fyrir löngu og hafi ekkert með næturbrölt forsetans. Er þetta hennar fyrsta opinbera ferðalag frá því tímaritið Closer greindi frá ástarfundum Hollande og Gayet.

Ummælin féllu í grýttan jarðveg

Í gær sagði Frederique Giffard, lögfræðingur Trierweiler, að skjólstæðingur hennar gerði sér grein fyrir því að það styttist í að staða hennar yrði ljós. Giffard sagði ekkert beint um hvort Hollande og Trierweiler myndu skila að skiptum heldur sagði hún að forsetinn og skjólstæðingur hennar væru að fara yfir stöðuna. Ákvörðunin væri þeirra. „Það er mjög erfitt fyrir Valérie Trierweiler að halda ró sinni með þennan mikla þrýsting frá fjölmiðlum og pólitíkinni. En hún veti að það er nauðsynlegt að skýra stöðu hennar.“

Ummæli Giffard féllu í grýttan jarðveg hjá Trierweiler sem brást ókvæða við og gagnrýndi hana fyrir að tjá sig opinberlega án heimildar.

Talsmaður Trierweiler, Patrice Biancome, segir að hann sé sá eini sem megi tjá sig í umboði Valérie Trierweiler og telja fréttaskýrendur þetta merki um að hvað sem öllu líður þá líti Trierweiler á sig sem forsetafrú og að engin ástæða sé til þess að fara yfir þeirra mál opinberlega.

„Forsetafrú, þetta er búið“

Hollande hét því á blaðamannafundi um miðjan janúar að hann myni opinberlega skýra stöðu þeirra Trierweiler áður en hann færi í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna 11. febrúar. Enn sem komið er hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá forsetanum um hvort franska þjóðin eigi sér forsetafrú eður ei. En franska dagblaðið virðist ekki efast því þessi fyrirsögn birtist í blaðinu í dag: „Première same, c'est fini“ eða  „Forsetafrú, þetta er búið“.

Trierweiler starfaði áður en Hollande tók við embætti forseta sem blaðamaður á tímaritinu Paris Match. Samband hennar og Hollande varð opinbert árið 2007 en það ár  bjó hann enn með barnsmóður sinni Ségolène Royal. Royal bauð sig fram til embætti forseta árið 2007 en tapaði baráttunni gegn Nicolas Sarkozy í maí 2007. Sarkozy var á þessum tíma kvæntur Céciliu Ciganer-Albéniz. Þau skildu hins vegar í október 2007 og innan við mánuði síðar tókust ástir með honum og Cörlu Bruni. Þau gengu síðan í hjónaband í febrúar 2008.

Frakkar virðast ekki kippa sér mikið upp við fréttir af framhjáhaldi Hollande enda ekki í fyrsta skipti sem Frakklandsforseti á í ástarsambandi utan hjónabands/sambúðar í embætti. Talið er að Jacques Chirac hafi átt margar ástkonur og forveri hans í embætti forseta Francois Mitterrand, átti dóttur með hjákonu sinni.

Valery Giscard d'Estaing var einnig álitinn mikill kvennamaður, að minnsta kosti að eigin áliti ef marka má nýjar endurminningar hans þar sem hann ýjar að því að hafa átt í ástarsambandi við Díönu prinsessu.

mbl.is