Gríðarlegt tap árið 2008

Gríðarlegt tap árið 2008

Nokkuð bar á því í skýrslum sparisjóðamanna fyrir rannsóknarnefndinni að endurskoðendur hefðu tekið virkan þátt í ýmsu reikningshaldslegu mati, svo sem á framlagi í afskriftareikning útlána og á virði óskráðra hlutabréfa í eigu sparisjóðanna. Þessu mótmæltu endurskoðendurnir eindregið.

Gríðarlegt tap árið 2008

Rannsókn á falli sparisjóðanna | 10. apríl 2014

Rannsóknarskýrslan um sparisjóðina kynnt á fundi í Iðnó.
Rannsóknarskýrslan um sparisjóðina kynnt á fundi í Iðnó. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkuð bar á því í skýrslum sparisjóðamanna fyrir rannsóknarnefndinni að endurskoðendur hefðu tekið virkan þátt í ýmsu reikningshaldslegu mati, svo sem á framlagi í afskriftareikning útlána og á virði óskráðra hlutabréfa í eigu sparisjóðanna. Þessu mótmæltu endurskoðendurnir eindregið.

Nokkuð bar á því í skýrslum sparisjóðamanna fyrir rannsóknarnefndinni að endurskoðendur hefðu tekið virkan þátt í ýmsu reikningshaldslegu mati, svo sem á framlagi í afskriftareikning útlána og á virði óskráðra hlutabréfa í eigu sparisjóðanna. Þessu mótmæltu endurskoðendurnir eindregið.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. Skýrslan er kynnt á blaðamannafundi í Iðnó.

Frá byrjun aldarinnar fór afkoma sparisjóðanna stöðugt batnandi og náði hámarki árið 2006 er hún nam samtals 21,4 milljörðum króna. Verulegt tap varð hins vegar af rekstri þeirra á árunum 2008 og 2009. Tap þeirra árið 2008 nam tæpum 143 milljörðum króna sem jafngilti um 23% af heildareignum sparisjóðanna samkvæmt efnahagsreikningum þeirra í árslok 2007. Lætur nærri að á árinu 2008 einu hafi þeir tapað nærri tvöföldum samanlögðum hagnaði næstliðinna tíu ára, umreiknuðum til sama verðlags. Árið 2009 var einnig mikið tap af rekstri þeirra. Sparisjóðirnir töpuðu á þessum tveimur árum rúmum 203 milljörðum króna.

Árin 2010 og 2011 nam hagnaður starfandi sparisjóða samtals um 1,3 og 1,7 milljörðum króna hvort árið um sig. Þessi hagnaður stafaði bæði árin alfarið af áhrifum fjárhagslegrar endurskipulagningar. Ef horft er fram hjá áhrifum tekjufærslu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar hefði tap sparisjóðanna fyrir skatt numið samtals 3,4 milljörðum króna og 938 milljónum króna hvort árið.

Eignirnar 161 milljarður árið 2001 - 668 milljarðar 2008

Eignir sparisjóðanna jukust mikið á sama tíma. Þær námu í árslok 2001 samtals 161 milljarði króna. Þær urðu mestar í lok árs 2008, samtals 668 milljarðar króna. Eftir áföll árin 2008 og 2009, þar á meðal fall fjögurra stærstu sparisjóðanna, drógust eignirnar mikið saman og námu í lok árs 2011 samtals 59 milljörðum króna. Til samanburðar námu eignir viðskiptabankanna í árslok 2001 samtals 830 milljörðum króna. Þær urðu mestar í árslok 2007 eða 12.262 milljarðar króna, en í árslok 2011 námu þær samtals 2.874 milljörðum króna.

Árið 2004 var sú breyting gerð á lögum um ársreikninga að heimilt varð að meta til gangvirðis óskráð hlutabréf sem færð voru í veltubók. Breyting þessi var gerð í samræmi við ákvæði tilskipunar 2001/51/EB. Nokkrir sparisjóðir tóku að fylgja þessari reglu í ársreikningi sínum 2005 og mátu tilteknar óskráðar fjáreignir upp í bókum sínum og gátu með því bókfært umtalsverðan gengishagnað.

Upplýsingar skorti í ársreikningum

Lán til íbúðakaupa sem veitt voru í samstarfi við Íbúðalánasjóð á árunum 2004 og 2005 voru bókfærð sem eign sparisjóðanna enda þótt ávinningur og áhætta af þessum lánum hefði flust yfir til Íbúðalánasjóðs, segir í skýrslunni. Að vísu var fjármögnun þeirra frá Íbúðalánasjóði skuld á móti. Efnahagsreikningur sparisjóðanna í heild var 42 milljörðum króna stærri fyrir vikið, án þess að umrædd útlán skiluðu vaxtamun. Þessi reikningshaldslega meðferð er umdeilanleg að mati rannsóknarnefndarinnar og gat haft þensluhvetjandi áhrif á sparisjóðina.

Almennt má segja um ársreikninga sparisjóðanna að þar skorti á að upplýsingar í skýringum fullnægðu kröfum staðlanna, misjafnlega mikið þó. Hjá minni sparisjóðunum sem tóku upp IFRS var skýringum verulega áfátt. Nægileg þekking á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum var ekki fyrir hendi innan allra þeirra sparisjóða sem tóku upp reikningsskil í samræmi við staðlana. Stjórnendur þeirra leituðu því utanaðkomandi aðstoðar við gerð ársreikningsins sem hafði í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka.

Endurskoðunarkostnaður sparisjóðanna í heild hækkaði mikið á árunum 2006–2008. Það skýrðist einkum af aðstoð endurskoðenda vegna stofnfjáraukningar í mörgum sparisjóðum og sameiningar nokkurra sparisjóða, og einnig af innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS), sem stóð yfir á árunum 2005–2007. Stóru sparisjóðunum var öllum skylt að gera upp í samræmi við staðlana, en fæstum hinna minni. Sumir þeirra tóku samt upp uppgjör í samræmi við IFRS og báru stjórnendur þeirra það fyrir rannsóknarnefndinni að endurskoðendurnir hefðu hvatt til þess. Þessu höfnuðu viðkomandi endurskoðendur alfarið í skýrslum sínum fyrir nefndinni.

Takmarkaða umfjöllun var að finna í endurskoðunarskýrslum sparisjóðanna um það hvaða endurskoðunaraðgerðir voru framkvæmdar við skoðun á stöðu stærstu lántakenda sparisjóðanna. Þetta gilti að heita mátti almennt fyrir minni sparisjóðina framan af. Hjá stærri sparisjóðunum voru heldur fyllri upplýsingar gefnar, að mati nefndarinnar.

Helstu skýringar á rekstrartapi sparisjóðanna á árunum 2008 og 2009 eru útlánatöp og virðisrýrnun fjárfestinga. Umtalsverðar niðurfærslur vegna útlána voru stærsti þátturinn í rekstrarerfiðleikum sparisjóðanna þessi ár. Framlög í afskriftareikning útlána námu samanlagt 145 milljörðum króna. Gengistap af fjáreignum nam samanlagt 55 milljörðum króna.

mbl.is