Hver átti að taka af skarið?

Hver átti að taka af skarið?

Fjármálaeftirlitið og aðrar stofnanir ríkisins höfðu ekki bolmagn til að taka yfir fleiri fjármálastofnanir en stóru bankana haustið 2008. Ákveðinnar fælni virtist gæta hjá stjórnvöldum við að taka ákvarðanir sem tengdust stærri sparisjóðunum í upphafi árs 2009. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. 

Hver átti að taka af skarið?

Rannsókn á falli sparisjóðanna | 10. apríl 2014

Rannsóknarskýrslan kynnt á blaðamannafundi í Iðnó.
Rannsóknarskýrslan kynnt á blaðamannafundi í Iðnó. mbl.is/Árni Sæberg

Fjármálaeftirlitið og aðrar stofnanir ríkisins höfðu ekki bolmagn til að taka yfir fleiri fjármálastofnanir en stóru bankana haustið 2008. Ákveðinnar fælni virtist gæta hjá stjórnvöldum við að taka ákvarðanir sem tengdust stærri sparisjóðunum í upphafi árs 2009. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. 

Fjármálaeftirlitið og aðrar stofnanir ríkisins höfðu ekki bolmagn til að taka yfir fleiri fjármálastofnanir en stóru bankana haustið 2008. Ákveðinnar fælni virtist gæta hjá stjórnvöldum við að taka ákvarðanir sem tengdust stærri sparisjóðunum í upphafi árs 2009. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. 

Vandinn lá öðrum þræði í því hver ætti að taka af skarið. Samráðsvettvangi stjórnvalda var ætlað að vera ráðgefandi en var ekki falið ákvörðunarvald, segir í skýrslunni. Þótt slíkur vettvangur til miðlunar upplýsinga um stöðu mála og skoðanaskipta hafi verið góðra gjalda verður varð afleiðingin sú að langur tími leið áður en nokkur tók af skarið, að mati rannsóknarnefndarinnar.

Verulegur vandi stærstu sjóðanna

Eftir fall viðskiptabankanna varð strax ljóst að stærstu sparisjóðunum og Icebank hf., sem áður hét Sparisjóðabanki Íslands hf., væri verulegur vandi á höndum, og vegna mikillar skuldsetningar væri helsta bjargræði þeirra að semja við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að stjórnvöld hafi ekki eingöngu litið til rekstrarþátta við mat á framtíð sparisjóðanna. Markaðslegt hlutverk þeirra, greiðslumiðlunarhlutverk Sparisjóðabankans og takmarkaður mannafli ríkisstofnana voru meðal þátta sem höfðu áhrif á mat á framtíð sparisjóðakerfisins.

Þrýstingur frá erlendum kröfuhöfum

Með lögum nr. 125/2008, neyðarlögunum, var ríkissjóði veitt heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við sparisjóðina með eiginfjárframlagi. Tímafrekt reyndist að semja reglur um útfærslu aðstoðarinnar. Fyrstu sparisjóðirnir sóttu um hana vorið 2009. Þó var ljóst frá setningu neyðarlaganna snemma í október að stjórnvöld höfðu hug á að styðja við sparisjóðina. Erlendir kröfuhafar þrýstu mjög á aðkomu stjórnvalda að samningaviðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna og kölluðu eftir viðbrögðum þeirra, en stjórnvöld voru treg til að koma með beinum hætti að samningaviðræðunum, segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ákveðinn veikleiki er fólginn í því að ekki skuli vera einn eftirlitsaðili sem leggur heildstætt mat á stöðu fjármálafyrirækja og áhrif þeirra innan fjármálakerfisins. Því er umhugsunarvert hvort eiginfjáreftirlit og lausafjáreftirlit sé betur komið í höndum eins og sama stjórnvaldsins.

Illa var komið fyrir Sparisjóði Keflavíkur

Þegar í mars 2009 var stjórnvöldum ljóst hversu illa var komið fyrir Sparisjóðnum í Keflavík. Þrátt fyrir það hélt sparisjóðurinn áfram starfsemi og „glöggt má sjá af áreiðanleikakönnunum sem gerðar voru á árinu 2009 að staða hans fór sífellt versnandi,“ segir í skýrslunni.

Þegar sparisjóðurinn var loks tekinn yfir í apríl 2010 var ákveðið að endurreisa hann sem Spkef sparisjóð. Sparisjóðurinn í Keflavík hafði um langt skeið glímt við lausafjárvanda sem nýr sparisjóður fékk í arf. Sú ákvörðun að stofna nýjan sparisjóð á grunni Sparisjóðsins í Keflavík byggði á vilja ráðamanna til að viðhalda sparisjóðakerfinu í landinu og endurreisa það, segir í skýrslunniþ

Án Sparisjóðsins í Keflavík var talið að sparisjóðanetið yrði aldrei almennileg stoð í nýju fjármálakerfi. Fjármálaeftirlitið tók einnig yfir vald stofnfjárhafafundar Byrs sparisjóðs og á grunni hans var stofnað hlutafélag, Byr hf. Ekki var talin sérstök ástæða til þess að Byr hf. gegndi sama hlutverki og Spkef sparisjóður sem kjölfesta í sparisjóðakerfinu.

Líklegt var talið að þegar Byr gengi í endurnýjun lífdaga sem hlutafélagsbanki vekti hann athygli fjárfesta og yrði seljanlegri í kjölfarið. „Þetta skýtur skökku við í ljósi þess að Byr sparisjóður hafði þá þegar tekið að sér hlutverk sem telja mættu til kjölfestu í sparisjóðakerfinu, til að mynda hvað varðaði greiðslumiðlun og uppfyllingu bindiskyldu fyrir sparisjóðakerfið,“ segir m.a. í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar.

Aðeins óljósar hugmyndir

Eitt af aðalmarkmiðum reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárframlög til sparisjóða, samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008, var að ná fram hagræðingu innan sparisjóðakerfisins, ekki síst með sameiningu sparisjóða. „Hins vegar lagði enginn þeirra sparisjóða sem sóttu um eiginfjárframlag fram annað en óljósar hugmyndir um mögulegar sameiningar sem þó var ekki ætlunin að vinna með frekar fyrr en að eiginfjárframlaginu fengnu,“ segir í skýrslunni.

Fjárhagsleg endurskipulagning smærri sparisjóða leiddi ekki til sameiningar sparisjóða fyrr en Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis sameinuðust sumarið 2013. Þessu markmiði reglnanna var því ekki náð.

Aðstöðumunur þeirra litlu og þeirra stóru

Nokkur aðstöðumunur skapaðist meðal sparisjóðanna í samningaviðræðum við kröfuhafa þar sem þeir stærri áttu í viðræðum við erlenda kröfuhafa um erlend lán sín en þeir minni við Seðlabanka Íslands sem hafði tekið yfir kröfur Sparisjóðabanka Íslands hf. á hendur sparisjóðunum við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á bankanum 21. mars 2009. „Stjórnvöld sem lýst höfðu yfir stuðningi við sparisjóðakerfið voru mun þolinmóðari í samningaviðræðum en erlendir kröfuhafar,“ segir í skýrslunni.

Á vordögum 2009 gerði Fjármálaeftirlitið kröfu um að eiginfjárhlutfall nýju viðskiptabankanna yrði 16%, en það var ekki fyrr en í desember 2009 sem eftirlitið gerði sömu kröfu til Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík. Í lok árs 2009 tilkynnti Fjármálaeftirlitið fjármálaráðuneytinu að sama krafa yrði gerð til smærri sparisjóða og var þeim tilkynnt um þá ákvörðun bréflega í febrúar 2010. Þessi aukna krafa Fjármálaeftirlitsins kom seint fram, enda höfðu sparisjóðirnir þegar unnið í nokkurn tíma eftir áætlunum til að ná öðru og lægra eiginfjárhlutfalli.

Varðveisla gagna ekki í föstum skorðum

Vinnuhópur um málefni smærri fjármálafyrirtækja var helsti vettvangur samráðs um sparisjóðina fyrstu vikurnar eftir fall bankanna, eða þar til nefnd um endurreisn fjármálakerfisins var sett á laggirnar. Ekki er að sjá að varðveisla gagna eða þeirra upplýsinga sem miðlað var á samráðsvettvangi stjórnvalda hafi verið í nægjanlega föstum skorðum á þeim tíma sem fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðanna stóð yfir, segir í rannsóknarskýrslunni. Ábyrgð á samráðsvettvanginum var ítrekað flutt milli ráðuneyta og stjórnvalda og tóku áherslur breytingum í hvert sinn. Líta verður svo á að það hafi á sínum tíma gert starfið ómarkvissara og haft áhrif á ákvarðanatöku um framtíð sparisjóðakerfisins, að mati skýrsluhöfunda.

mbl.is