Verklag við hleranir verður endurskoðað hjá embætti sérstaks saksóknara í kjölfar staðhæfingar dómara í Imon-málinu að lög hafi verið brotin þegar hlustað var á símtöl sakborninga og verjenda þeirra og þegar upptökum símtalanna var ekki fargað. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í viðtali við mbl.is
Verklag við hleranir verður endurskoðað hjá embætti sérstaks saksóknara í kjölfar staðhæfingar dómara í Imon-málinu að lög hafi verið brotin þegar hlustað var á símtöl sakborninga og verjenda þeirra og þegar upptökum símtalanna var ekki fargað. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í viðtali við mbl.is
Verklag við hleranir verður endurskoðað hjá embætti sérstaks saksóknara í kjölfar staðhæfingar dómara í Imon-málinu að lög hafi verið brotin þegar hlustað var á símtöl sakborninga og verjenda þeirra og þegar upptökum símtalanna var ekki fargað. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í viðtali við mbl.is
Ólafur tekur fram að upptakan hafi aldrei verið hluti af málsskjölunum og telur hana ekki hafa haft áhrif á niðurstöðuna. „Að sjálfsögðu leiðir svona athugasemd til þess að farið verði í verklag og reynt verður að skerpa á því. Það liggur fyrir hvernig lögin hljóma að þessu leyti og það þarf að gæta að því að þessi staða komi ekki upp aftur,“ segir Ólafur.
Ríkissaksóknari hefur eftirlit með símhlerunum og var kallað eftir skýringum á því hvers vegna upptökunni hefði ekki verið eytt undir rekstri málsins og voru þau gögn lögð fram fyrir dómi.
Hann segir símtalið hafa verið merkt til eyðingar en mannleg mistök valdið því að svo var ekki gert. „Í dómnum er talað um að það hefði átt að hætta hlustun þegar í ljós kæmi að sakborningur væri að ræða við verjanda sinn en málið er að við fáum ekki símtalið fyrr en því er lokið. Við hlustum ekki á það á meðan það fer fram og okkur er ekki ljóst fyrr en við yfirferð á þessum gögnum hvort þarna séu að finna einhver símtöl frá verjendum,“ segir hann.
Starfsmenn sérstaks saksóknara þurfa því að fara í gegnum öll símtöl sem fara um hleraðan síma en um leið og starfsmanni verður ljóst að um er að ræða símtal á milli verjanda og sakbornings á hins vegar að merkja það til eyðingar.
Ólafur segir að hleranir séu ekki notaðar í öllum málum en nú þegar rannsóknum er að ljúka sé umfangið að verða ljóst. Hleranir voru mest notaðar á árunum 2009 og 2010 en mikið hefur dregið úr frá árinu 2012. Þá hefur verið skorið niður hjá embættinu en starfsmönnum fækkaði úr 109 niður í rúmlega sjötíu í október 2013 og verður þá eðli máls samkvæmt að ráðstafa verkefnum starfsfólksins með öðrum hætti. „Þetta er gríðarleg vinna og þá þarf að vega og meta hversu mikið fæst úr henni. Við höfum ekki ótakmarkað vinnuafl og ef þetta var ekki að skila miklu þarf að vega og meta hvort úrræðið verði áfram nýtt.“
Mikið hefur verið rætt um trúnaðarsamband verjenda og sakborninga eftir að sérstakur saksóknari tók til starfa þar sem hleranir eru oft hluti af rannsókn málsins. Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands, benti á í samtali við Morgunblaðið í fyrra að trúnaðarsamband verjanda og sakbornings væri einn af hornsteinum réttlátrar málsmeðferðar.
„Vernd þess í lögum og virðing fyrir því er grundvallarþáttur í að sakborningur geti undirbúið vörn sína í sakamáli á fullnægjandi hátt og á jafnræðisgrundvelli gagnvart ákæruvaldinu. Það er andstætt réttlátri málsmeðferð og því ótækt að rannsóknaraðilar geti hlustað á símtöl verjanda og sakbornings,“ sagði Jónas.
Aðspurður hvar mörkin á trúnaðarsambandi verjenda og sakborninga liggi og hvort það mögulega nái yfir samtal sakbornings við lögmann sem ekki sé verjandi hans segir Ólafur að lögin taki skýrt fram að trúnaðurinn nái aðeins til verjanda.
Hvað ef grunaður maður ráðfærir sig við lögmann í upphafi máls en lögmaðurinn verður ekki verjandi hans þegar uppi er staðið? „Þá erum við meira að hugsa um innihald samræða. Ef þetta eru samræður með þeim hætti að þeir séu aðeins að ræðast og þetta byggir ekki á starfssambandi heldur vinatengslum má velta fyrir sér hvers vegna þau ættu að vera undanþegin,“ segir hann.
„Hvað þá um samtöl prests, sálfræðings, endurskoðanda eða annarra stétta sem hafa ríkar trúnaðarskyldur. Þá ertu kominn með ansi stóran hóp sem er undanþeginn.“ nefnir Ólafur sem dæmi og segir rýmkun trúnaðarsambandsins geta verið varhugaverða. „Ef við tökum þetta lengra og veltum fyrir okkur mönnum í þessum fögum sem eru saman í brotum gætum við í reynd verið komin með nokkurs konar vé gegn þessari aðferð,“ segir hann.
Tveir sýknudómar féllu í héraðsdómi í síðustu viku í málum sem sérstakur saksóknari höfðaði, þ.e. í Aurum og Imon málunum. Ólafur segir sýknudómana ekki vera áfall fyrir embættið. „Umræðan fram til þessa hefur frekar snúið að háu sakfellingarhlutfalli en nú koma fram tveir sýknudómar sem sýna að niðurstaða getur verið með tvenns konar hætti.“
Hann segir auðveldara verða að taka ákvörðun um ákæru eftir því sem fordæmum fjölgar. „Eftir því sem fordæmum fjölgar erum við að fá línur í málin og hver dómur er mælikvarði á hvað þurfi til en við eigum ekki að ákæra nema það sé líklegt til sakfellis,“
Sýknudómarnir tveir féllu í héraði en Ólafur segir Hæstaréttardóma vega þyngra. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um áfrýjun en Ólafur segir að hingað til hafi flestum hrunmálum verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Aðspurður hvort hann finni fyrir mótlæti af hálfu dómstóla segir hann erfitt að fara fram með mál sem ekki njóti margra skýrra fordæma. „Það er svo margt nýtt bæði fyrir þeim sem sækja málið og verja en einnig fyrir þeim sem leggur dóm á það. Við skynjum kannski að nálgun héraðsdóms einkennist af varfærni. Við getum þó ekkert fullyrt en þetta eru þannig mál sem flest fá yfirferð á tveimur dómsstigum og öll kurl eru því ekki komin til grafar.“