Már Guðmundsson segir í samtali við Morgunblaðið hallast að því að seðlabankastjóri, sérstaklega ef einn maður gegni starfinu, eigi að vera skipaður eitt tímabil. Ekki fleiri. Og viðkomandi ætti að gegna starfinu í sjö eða átta ár. Með þeim hætti sé nýja kerfið í Bretlandi.
Már Guðmundsson segir í samtali við Morgunblaðið hallast að því að seðlabankastjóri, sérstaklega ef einn maður gegni starfinu, eigi að vera skipaður eitt tímabil. Ekki fleiri. Og viðkomandi ætti að gegna starfinu í sjö eða átta ár. Með þeim hætti sé nýja kerfið í Bretlandi.
Már Guðmundsson segir í samtali við Morgunblaðið hallast að því að seðlabankastjóri, sérstaklega ef einn maður gegni starfinu, eigi að vera skipaður eitt tímabil. Ekki fleiri. Og viðkomandi ætti að gegna starfinu í sjö eða átta ár. Með þeim hætti sé nýja kerfið í Bretlandi.
Eins og greint var frá í gær hefur Már verið endurskipaður í starfið til næstu fimm ára.
– Hverjir eru kostirnir við það kerfi?
„Kosturinn er sá að það kemur ekki upp þetta með endurskipun í starfið. Þá skapast ekki svona ástand eins og verið hefur á undanförnum mánuðum hér á Íslandi og hefur skapast sums staðar annars staðar.“
– Hvaða ástand?
„Það hefur verið óvissa í nokkra mánuði hvað yrði með þessa skipun. Það er best að óvissan sé í sem stystan tíma. Ef seðlabankastjóri er skipaður í átta ár og það má ekki endurskipa hann kemur þessi óvissa aldrei upp. Og sjálfstæði þess aðila er miklu meira.“
– Varst þú vongóður um að fá starfið?
„Ég velti því ekki mikið fyrir mér. Ég taldi það skyldu mína að bjóða fram starfskrafta mína, eins og ég útskýrði þegar ég sótti um starfið. Bankinn er í miðju kafi í mörgum mjög flóknum verkefnum. Ekki síst, ásamt öðrum stjórnvöldum, að vinna að losun fjármagnshafta. Það er snúið.
Auk þess þarf að varðveita verðstöðugleika sem hefur náðst. Það er ekki einfalt. Ég vildi sjá betur til lands í þessum verkum öllum.“
Már sagði í fréttatilkynningu, þar sem upplýst var um endurskipun hans, að hann hefði í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis, „áður en aldursmörk hamla um of“. Hann sagði því óvíst að hann myndi sækjast eftir að sitja áfram ef endurráðið yrði í yfirstjórn bankans.
– Hvers vegna ertu að upplýsa á þessari stundu að þú munir mögulega ekki gegna starfinu í mörg ár til viðbótar?
„Ég taldi rétt að gera það vegna þess að það liggur fyrir að endurskoða á lög um seðlabanka sem getur kallað á breytingar á yfirstjórn hans. Það gæti kallað á að endurskipað væri í þá stöðu sem ég nú gegni. Þetta var nefnt sérstaklega í skipunarbréfi ráðherra.
Ég taldi því rétt að það kæmi fram að ég gerði mér grein fyrir þessu og gerði engar athugasemdir við það,“ segir Már og nefnir að hann hafi bent á það í leiðinni að fleira geti breyst vegna þess hugar sem hann hafi haft á að skoða, eftir ákveðinn tíma, að hverfa aftur til alþjóðlegra starfa. Már var aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss frá árinu 2004 til 2009.
– Vissi fjármálaráðherra þegar hann framlengdi skipunartímann að þú hefðir áhuga á að vinna erlendis á næstu misserum?
„Já, hann vissi að ég hefði hug á að skoða það eftir ákveðinn tíma,“ segir Már. „Ég taldi hins vegar ekki heppilegt að gera það núna. Ég hef verið upptekinn við vinnu. Hef ekki getað skoðað það að neinu gagni og það hefði líka verið mjög erfitt fyrir bankann, tel ég, og kannski að einhverju leyti landið, að skipta um seðlabankastjóra á þessum tímapunkti vegna verkefnastöðunnar sem ég nefndi áðan.“
– Við hvað langar þig helst að vinna erlendis?
„Mér finnst ekki eðlilegt eða tímabært að upplýsa um það að svo stöddu. Þetta er nokkuð sem ég ræði við mína fjölskyldu og aðra.“
– Af hverju viltu ekki ljúka starfsferlinum hjá Seðlabanka Íslands?
„Auðvitað gæti það farið svo. Því miður er aldurstakmark hjá alþjóðastofnunum. Hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er það 65 ára og hjá Alþjóðagjaldeyrisbankanum, þar sem ég starfaði, er það 66 ára. Það spilar inn í þetta,“ segir Már, sem er sextugur.