„Er þetta það sem ferðamaðurinn vill? Að hann viti ekki hvort hann sé í Keflavík, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn eða Denver. Á okkar litla Ísland að stefna að því að verða alveg eins og allir hinir?“ spyr Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, sem er ósátt við útboðsferli Isavia fyrir veitingareksturinn í Leifsstöð.
„Er þetta það sem ferðamaðurinn vill? Að hann viti ekki hvort hann sé í Keflavík, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn eða Denver. Á okkar litla Ísland að stefna að því að verða alveg eins og allir hinir?“ spyr Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, sem er ósátt við útboðsferli Isavia fyrir veitingareksturinn í Leifsstöð.
„Er þetta það sem ferðamaðurinn vill? Að hann viti ekki hvort hann sé í Keflavík, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn eða Denver. Á okkar litla Ísland að stefna að því að verða alveg eins og allir hinir?“ spyr Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, sem er ósátt við útboðsferli Isavia fyrir veitingareksturinn í Leifsstöð.
Hún segir stóran hluta tekna fyrirtækisins stafa frá kaffihúsinu í Leifsstöð og niðurstöðuna vera því mikið högg í ljósi þess að þau framleiða allt kaffið og bakkelsið sjálf og störfum í framleiðslu muni þannig fækka í kjölfarið.
Niðurstöður útboðsins voru kynntar á miðvikudag og fær Kaffitár ekki áframhaldandi rekstrarleyfi í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar. Alþjóðlega kaffihúsið Segafredo opnar í staðinn á vegum nýs fyrirtækis sem stofnað verður um samstarf franska fyrirtækisins Lagardére Services og íslenska fyrirtækisins Nord, sem þegar er með veitingarekstur á flugvellinum.
„Auðvitað á maður ekki plássið og engan sérstakan forgang en mér finnst eins og ég hafi verið höfð að fífli. Það átti bara að fá smart erlent fyrirtæki þangað,“ segir Aðalheiður. Hún gagnrýnir leyndina yfir útboðsferlinu og að engar skýringar séu gefnar fyrir stigagjöfinni sem réði úrslitum um valið á rekstraraðilum en stigagjöfina telur hún hafa verið byggða á huglægu mati. „Í útboðsgögnum er beðið um það besta sem Ísland og Reykjavík hafa upp á að bjóða. Þá spyr maður hvað hefur Segafredo umfram Kaffitár? Við höfum ekki fengið skýringar þessu og erum að kalla eftir því,“ segir hún.
Í valnefndinni voru fimm aðilar; Einn erlendur ráðgjafi frá fyrirtækinu Portland sem ráðinn var til ráðgjafar í verkefninu en fyrirtækið hefur yfir 20 ára reynslu af hönnun á flugvöllum, ásamt fjórum starfsmönnum Isavia. „Þarna er erlendur ráðgjafi sem ráðleggur öllum hinum flugstöðunum, þarna er einnig arkitekt sem ráðleggur öðrum flugstöðum og síðan eru valdar sömu keðjurnar þarna inn,“ segir hún. Þá setur hún spurningarmerki við hæfi Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, í valnefndinni, vegna orða hans í samtali við miðilinn Moodies þar sem hann sagði sérstakan áhuga vera á erlendum aðilum.
Í kynningu Isavia sagði að gert væri ráð fyrir að tekjur af verslunarsvæðinu í flugstöðinni myndu aukast um sextíu prósent með þeim breytingum sem gerðar verða á svæðinu. Aðalheiður bendir á að verið sé að stækka verslunarrýmið auk þess sem farþegum sé að fjölga. „Það er látið í veðri vaka að þessi mikli vöxtur eigi að vera vegna þessara nýju aðila,“ segir hún. „Mér finnst það skammsýni að hugsa ekki um heildaráhrifin þegar það er verið að bjóða auðlindina sem ferðamaðurinn er til hæstbjóðenda. Þessir aðilar þykja smart vegna þess að þeir ætla að borga hærri leigu,“ segir hún en tekur fram að hún hafi aldrei kveinkað sér undan erlendri samkeppni en vilji hins vegar að allir sitji við sama borð.
Kaffitár bað eftir upplýsingum um útboðsferlið hjá Isavia og fyrir um þremur vikum síðan barst Aðalheiði svar sem sagði að engar upplýsingar yrðu veittar. Þá voru Samtök atvinnulífsins beðin um að bera upp sömu beiðni en svör Isavia voru á þá leið að ekkert yrði afhent fyrr en Hæstiréttur kvæði svo á um. Nú segir hins vegar á heimasíðu Isavia að öll gögn sem útboðsferlinu tengjast og ekki ríkir trúnaður verði aðgengileg þeim sem eftir því kalla. Aðalheiður segist þegar hafa sent bréf og vonast eftir gögnunum bráðlega.
„Það er ekki allt uppi á borðinu í kringum þetta og þá grunar manni að þetta sé gruggugt,“ segir Aðalheiður.
Við kynningu á niðurstöðum útboðsins sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, að útboðsferlið hefði verið vandað og gagnsætt en nefndi þó að fleiri utanaðkomandi aðilar hefðu ef til vill mátt eiga þar sæti að teknu tilliti til umfjöllunar um málið.
Þá vísar Hlynur Sigurðson gagnrýni Aðalheiðar á bug og segir að allir hafi setið við sama borð í forvalsgögnum auk þess sem í viðtalinu við Moodies hafi ekkert gefið til kynna að erlend fyrirtæki hefðu einhvern sérstakan forgang.