„Sérstakur saksóknari gerði tiltölulega einfalt mál einstaklega flókið. Hann reyndi að gera hvern einasta anga þess grunsamlegan og starfsmenn Milestone ótrúverðuga. Þegar hins vegar rýnt er í þennan sýndarveruleika þá byrjar hann að hrynja,“ sagði verjandi Karls Wernerssonar fyrir dómi í dag.
„Sérstakur saksóknari gerði tiltölulega einfalt mál einstaklega flókið. Hann reyndi að gera hvern einasta anga þess grunsamlegan og starfsmenn Milestone ótrúverðuga. Þegar hins vegar rýnt er í þennan sýndarveruleika þá byrjar hann að hrynja,“ sagði verjandi Karls Wernerssonar fyrir dómi í dag.
„Sérstakur saksóknari gerði tiltölulega einfalt mál einstaklega flókið. Hann reyndi að gera hvern einasta anga þess grunsamlegan og starfsmenn Milestone ótrúverðuga. Þegar hins vegar rýnt er í þennan sýndarveruleika þá byrjar hann að hrynja,“ sagði verjandi Karls Wernerssonar fyrir dómi í dag.
Í málinu eru Guðmundur Ólason, fv. forstjóri Milestone, Karl, fv. stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, fv. stjórnarmaður, ákærðir vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta milljarð króna á árunum 2006 og 2007.
Jafnframt eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.
Ólafur sagði að ekki væri nokkur grundvöllur fyrir því að sakfella Karl og að nálgun ákæruvaldsins sé afar ósanngjarn. Þrátt fyrir að utanumhald skjalafrágangs hefði mátt vera betra í tengslum við þau viðskipti sem ákært er fyrir þá geri það ekki að verkum að samningar hafi ekki komist á og að Karl hafi brotið hegningarlög.
Meðal þess sem Ólafur lagði áherslu á er að Karl starfaði þannig að hann fékk ráðgjöf um lögfræðileg málefni og einnig endurskoðun. „Þegar teknar voru stærri ákvarðanir fékk hann færustu sérfræðinga á sínu sviði til að veita ráðgjöf,“ sagði hann og velti upp þeirri spurningu hvernig Karl ætti að vita betur en umræddir sérfræðingar.
Þannig hafi tveir hæstaréttarlögmenn komið að gerð samninganna við Ingunni og þrátt fyrir að útfærslan á því hver endanlegur kaupandi bréfa Ingunnar hafi ekki legið fyrir þegar greiðslur hófust hafi legið fyrir frá upphafi að Karl og Steingrímur ætluðu sér eða félögum sínum að eignast bréfin. Milestone sem fjármagnaði kaupin hefði þannig allt eins getað endað sem kaupandi bréfanna og vitnaði Ólafur til framburðar Guðmundar sem leit svo á að Milestone væri að kaupa þau.
„Það að endanleg útfærsla hafi ekki verið ákveðin strax leiðir ekki til þess að það hafi verið fullkomin óvissa. Allar leiðir sem samið var um í kaupréttar- og sölusamningunum voru öruggar. Allar leiðir leiddu til þess að Milestone fengi fjármuni sína til baka eða að félagið myndi hreinlega eignast bréfin sjálft. Það var enginn óvissa um að eitthvað félag yrði tilgreint sem kaupandi. Samningarnir lágu fyrir.“
Ólafur sagði athugunarefni hversu mikið ákæruvaldið geri mikið úr greiðslum til Ingunnar með víkjandi skuldabréfum á Sjóvá. Ekki síst í ljósi þess að ekki er ákært fyrir þau. Þannig hafi Þór Sigfússon, þáverandi forstjóri Sjóvár, sagt fyrir dómi að bréfin sem útgefin voru á Ingunni hafi aðeins verið 30% af útgefnum bréfum. Þá sé á engan hátt óeðlilegt að Sjóvá hafi fengið greiðslu í gegnum viðskiptareikning Milestone.
Hann benti einnig á að hæstaréttarlögmaður og lögfræðilegur ráðgjafi hafi séð um þau skjöl sem þar bjuggu að baki. „Hvernig ætti Karl að vita betur, að það væri eitthvað athugavert sem sérfræðingar hafa metið í lagi.“
Einnig sagði Ólafur að háttsemi Karls, að samþykkja fjármögnun Milestone á hlutum Ingunnar, teljist hún refsiverð, geti ekki talist vera umboðssvik. Hann sagði málið án fordæma í íslenskum rétti og einstakt í röð sakamála sem sérstakur saksóknari hefur höfðað. Það kalli á að dómstólar meti hvort Karl og Steingrímur geti hafa misnotað aðstöðu sem þeir veittu sér sjálfir. „Er hægt að segja að þeir geti misnotað sjálfa sig og sína hagsmuni? Hvernig gátu þeir farið út fyrir umboð sem þeir veittu sjálfum sér? Slík heimfærsla stenst ekki skoðun.“
Hann benti á að frá því að Ingunn skrifaði undir samning og seldi þeim bréf sín voru þeir einu stjórnarmenn félagsins og einu hluthafar Milestone og tengdra félaga, eða félög í þeirra eigu. „Er hægt að halda því fram að þeir hafi gerst sekir um trúnaðarbrot? Og þá gegn hverjum? Sjálfum sér?“
Ennfremur vísaði hann til þess að verndarandlag umboðssvikaákvæðisins nái ekki til kröfuhafa. Því hafi ákæruvaldið ranglega haldið fram. Það sé röng niðurstaða og kröfuhöfum veitt ítarleg vernd samkvæmt öðrum ákvæðum. „Ef ákæra á fyrir að hafa gengið á rétt kröfuhafa er rangt að gera það með ákæru fyrir umboðssvik. Það ber að heimfæra það undir skilasvikaákvæði, eða að kröfuhafar sæki rétt sinn með einkaréttarlegum úrræðum, eins og skaðabótakröfu.“
Ólafur sagði að hagsmunir Karls og Steingríms væru hagsmunir Milestone og að þeir einir hafi geta bundið Milestone. „Þeir geta ekki gerst sekir um umboðssvik. Þetta er fordæmalaus staða. Dómstólar hafa ekki áður verið spurður hvort einu eigendur félags geti gerst sekir um umboðssvik gegn sínu eigin félagi.“
Hvað varðar ákæru vegna bókhaldsbrota sagði Ólafur meginstef ákæruvaldsins sé að skjöl sem fylgdu bókhaldsfærslunum hafi ekki verið fullnægjandi. Því sé alfarið hafnað. Engan veginn sé hægt að tala um kerfisbundnar rangfærslur og ósannað að nokkrar bókhaldsfærslur hafi verið í trássi við lög og venjur.
Eins geti Karl ekki borið refsiábyrgð hvað varðar ársreikningsgerð, það hafi ekki verið á hans könnu að semja ársreikning eða að einstakar kröfur væru skjalfestar. „Hann gat ekki annað en talið að ársreikningurinn bæri með sér rétta mynd.“
Sigmundur Hannesson, verjandi Steingríms, flutti einnig ræðu. Hann tók að öllu leyti undir ræðu Ólafs og gat því stytt mál sitt töluvert. Til viðbótar benti hann á að framburður Steingríms hafi verið samhljóða hjá lögreglu og fyrir dómi. „Aðkoma hans að ákvarðanatökum var ekki þannig að hann gæti með einum eða öðrum hætti greint þar frá.“
Hann sagði að afstaða Steingríms væri afdráttarlaus um að öll úrvinnsla um ákvarðanatöku og tilhögum á greiðslum hafi ekki verið á hans hendi. Hann hafi ekki komið að ákvörðun um greiðsluáætlun eða lánveitingu frá Milestone. Hann hafi ekki komið að daglegum rekstri Milestone eða færslu bókhalds félagsins. Að öðru leyti byggði Sigmundur á að viðskiptin hafi verið eðlileg í alla staði og verðmæti fyrir hluti Ingunnar sanngjarnt.
Aðalmeðferð heldur áfram á morgun.