Hrein fjarstæða er að samfélagið taki upp á því að refsa mönnum fyrir að misfara með eigið fé. Þetta sagði Gestur Jónsson, verjandi Margrétar Guðjónsdóttur sem ákærð er fyrir aðild sína að Milestone-málinu svonefnda. Menn gjaldi fyrir það sjálfir taki þeir ákvarðanir sem verði til þess að þeir tapi eigin fé. Aðalmeðferð Milestone-málsins lauk á fjórða tímanum í dag og hefur það verið dómtekið.
Hrein fjarstæða er að samfélagið taki upp á því að refsa mönnum fyrir að misfara með eigið fé. Þetta sagði Gestur Jónsson, verjandi Margrétar Guðjónsdóttur sem ákærð er fyrir aðild sína að Milestone-málinu svonefnda. Menn gjaldi fyrir það sjálfir taki þeir ákvarðanir sem verði til þess að þeir tapi eigin fé. Aðalmeðferð Milestone-málsins lauk á fjórða tímanum í dag og hefur það verið dómtekið.
Hrein fjarstæða er að samfélagið taki upp á því að refsa mönnum fyrir að misfara með eigið fé. Þetta sagði Gestur Jónsson, verjandi Margrétar Guðjónsdóttur sem ákærð er fyrir aðild sína að Milestone-málinu svonefnda. Menn gjaldi fyrir það sjálfir taki þeir ákvarðanir sem verði til þess að þeir tapi eigin fé. Aðalmeðferð Milestone-málsins lauk á fjórða tímanum í dag og hefur það verið dómtekið.
Í málinu eru Karl og Steingrímur Wernerssynir ákærðir en þeir voru eigendur Milestone og sátu auk þess einnig í stjórn félagsins. „Ég skal fúslega viðurkenna að mér hefur gengið seint og illa að skilja ákæruskjalið. Eigendur eru ákærðir fyrir að brjóta trúnað gagnvart sjálfum sér. Ég átti mjög lengi erfitt með að skilja að þetta væri textinn í ákærunni,“ sagði Gestur í málflutningsræðu sinni.
Auk Karls og Steingríms er Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, meðal sakborninga. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta milljarð króna á árunum 2006 og 2007.
Jafnframt eru endurskoðendurnir Margrét, Hrafnhildur Fanngeirsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.
Gestur fór ekki eingöngu yfir þátt Margrétar heldur einnig almennt um málið. „Ef eigendur Milestone misnotuðu aðstöðu sína og fóru út fyrir umboð sitt og sköpuðu félagi sínu fjártjónshættu þá er það mögulega skilasvik þar sem einhverjir kröfuhafar hefðu ef til vill orðið fyrir tjóni. En það hljómar eins og hrein fjarstæða að samfélagið taki það upp að refsa fólki fyrir að misfara með eigið fé. Menn gjalda fyrir það sjálfir og þurfa sjálfir að taka afleiðingum af þeim ákvörðunum.“
Hvað varðar þá fullyrðingu ákæruvaldsins að Milestone hafi orðið fyrir fjártjónshættu vegna greiðslna til Ingunnar sagði Gestur: „Það liggur fyrir að Milestone hafði breytt stórum hluta eigna sinna í peninga. [...] Fjárhæðirnar hjá Milestone voru engir smá-peningar. Milestone hefði getað fjármagnað skuldaleiðréttinguna. Þetta eru engar smá-fjárhæðir.“
Gestur lagði í dag fram gögn varðandi gagnavörslu hjá sérstökum saksóknara og samningsgerð. Hvað varðar gagnavörsluna vísaði hann til þess að saksóknari hefði leyft sér að halda því fram, að minnsta kosti tvisvar við aðalmeðferðina, að tiltekin gögn séu ekki til, með vísan til þess að þau hafi ekki fundist í þeim gögnum sem lagt var hald á við húsleitir.
Hann gagnrýndi harðlega þann hátt sem hafður er á við húsleitir og haldlagningu gagna hér á landi. Hann sagðist telja sig vita að nánast hvarvetna annars staðar en á Íslandi sé ekki lagt hald á gögn með þeim hætti að ráðast inn í fyrirtæki, safna saman öllum gögnum og koma þeim í pappakassa, stafla þeim svo upp í sendiferðabíla og keyra burt. Gert sé afrit af þeim gögnum sem til stendur að leggja hald á. „Að búa við þetta sem við búum við, að það sé verið að flytja hundruð þúsund síðna af haldlögðum gögnum og svo séu handvalin skjöl til að byggja refsimál á á sama tíma og sakborningar hafa ekki aðgang að gögnunum, þetta verður talið óskiljanlegt í framtíðinni.“
Þá vísaði hann í tölvubréf frá saksóknara hjá ríkissaksóknara til ríkissaksóknara þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að annmarkar væru á gagnavörslu hjá sérstökum saksóknara. Í fylgiskjali með bréfinu segir að starfsmenn þrotabús Milestone hafi fengið aðgang að skjölum Milestone hjá sérstökum saksóknara, fengið að vinna með þau hjá embættinu og taka eintök. Þá kemur fram að aðgangur að gögnum hjá sérstökum saksóknara hafi ekki verið í föstum skorðum.
Gestur sagði það skipta öllu máli að sá sem verði fyrir ákæru eigi skilyrðislausan rétt á því að geta treyst að það sé enginn vafi á því að meðhöndlun sönnunargagna sé með þeim hætti að engum brögðum sé beitt. „Sérstakur saksóknari hefur með einhvers konar samningi hleypt mönnum í gögnin sem hafa verið tekin með þessum sérstöku húsleitum.“
Ennfremur benti Gestur á að ákæruvaldið hafi í málinu gert tortryggilegt að dagsetningar á lánasamningi hafi verið gerðar aftur í tímann. Í því samhengi lagði hann fram þjónustusamning á milli sérstaks saksóknara og þjónustufyrirtækis frá 2. janúar 2012. Hann sagði að í samningnum komi fram að skrifað sé undir samninginn, í votta viðurvist, umræddan dag. Undir samninginn skrifa Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og vottar það starfsmaður embættisins.
Einnig lagði hann fram lögregluskýrslu sem tekin var af Ólafi Þór en í henni kemur fram að samningurinn hafi verið gerður mun síðar, í febrúar eða mars sama ár. Ólafur Þór segi í skýrslunni að þrátt fyrir að samningurinn hafi verið gerður síðar hafi hann verið látinn gilda frá áramótum.
Gestur sagði að þetta væri ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að sama embætti gerir í Milestone-málinu sömu háttsemi tortryggilega og segir að hún eigi að vera grundvöllur refsingar.
Eins og áður segir þá lauk munnlegum málflutningi skömmu eftir klukkan þrjú í dag og var málið þá dómtekið. Reikna má með dómi innan fjögurra vikna.