Allir sýknaðir í Aserta-málinu

Rannsókn sérstaks saksóknara | 18. desember 2014

Allir sýknaðir í Aserta-málinu

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag fjóra einstaklinga í Aserta-málinu svokallaða, en mönnunum var gefið að sök að hafa brotið gegn fjármagnshöftunum með ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum. Dómurinn féll nú á þriðja tímanum í dag.

Allir sýknaðir í Aserta-málinu

Rannsókn sérstaks saksóknara | 18. desember 2014

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag fjóra einstaklinga í Aserta-málinu svokallaða, en mönnunum var gefið að sök að hafa brotið gegn fjármagnshöftunum með ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum. Dómurinn féll nú á þriðja tímanum í dag.

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag fjóra einstaklinga í Aserta-málinu svokallaða, en mönnunum var gefið að sök að hafa brotið gegn fjármagnshöftunum með ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum. Dómurinn féll nú á þriðja tímanum í dag.

Þá greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda, en þau nema samtals um 24 milljónum króna.

Málið höfðaði sérstakur saksóknari gegn þeim Karli Löve Jóhannessyni, Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelsson Maute og Ólafi Sigmundssyni.

Fjórmenningarnir áttu, í nafni sænska félagsins Aserta AB, gjaldeyrisviðskipti með því að kaupa íslenskar krónur af erlendum fjármálafyrirtækjum fyrir erlendan gjaldeyri sem mótaðilar þeirra höfðu lagt inn á gjaldeyrisreikning á nafni félagsins í banka í Svíþjóð. Hin eiginlegu gjaldeyrisviðskipti fólust í þessu að sögn héraðsdóms. 

Viðskiptin fóru ekki fram hér á landi

„Þau viðskipti fóru ekki fram hér á landi. Sá þáttur í viðskiptum við mótaðilana að flytja krónurnar til Íslands telst til fjármagnshreyfinga í skilningi laga um gjaldeyrismál sem engar teljandi skorður voru reistar við fram til þess að gjaldeyrishöftum var komið á og voru ekki refsiverðar á þeim tíma sem hér skiptir máli,“ segir héraðsdómur.

Það er niðurstaða dómsins, að ekki sé fullnægt því skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldeyrismál að gjaldeyrisviðskiptin hafi verið stunduð hér á landi. Ekki þurfi þá ekki að taka afstöðu til þess hvort þjónusta við mótaðila samkvæmt samningum við þá teljist milliganga um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt ákvæðinu.   

Í höndum ríkissaksóknara að taka ávörðrun um áfrýjun

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögmaður Markúsar, segist fagna niðurstöðunni í samtali við mbl.is. Dómstóllinn hafi fallist á allar helstu málsástæður sakborninga. „Þetta voru einfaldlega gjaldeyrisviðskipti sem áttu sér ekki stað hér á landi,“ segir Heiðrún og bætir við að niðurstaðan sé í samræmi við væntingar.

Ekki liggur fyrir hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar, en saksóknari segir að það sé í höndum ríkissaksóknara að ákveða það en hann hefur fjögurra vikna frest til að taka endanlega ákvörðun í málinu.

Aðspurð segir Heiðrún að málið hafi verið í skötulíki frá upphafi og ákæran meingölluð. Því verði saksóknari að taka mjög meðvitaða ákvörðun ætli hann sér með málið lengra.

Hún bendir á að ákæran gegn mönnunum hefði fjallað um ólögmæt gjaldeyrisviðskipti en sá hluti féll síðar út úr málinu. Við það hefði orðið mikil breyting og málið aðeins snúist skort á starfsleyfi.

Málið tók umtalsverðum breytingum

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að í upphafi hafi saksókn á hendur ákærðu tekið til þess að samhliða því að hafa haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands, sem hún sé nú einskorðuð við, hefðu þeir „staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum hér á landi“, hvort tveggja með þeim hætti sem síðan var nánar lýst í ákæru.

Þá segir, að með því að fallið hafi verið var frá sakargiftum um ólögmæt gjaldeyrisviðskipti hafi saksóknin tekið umtalsverðum breytingum. Til samræmis við þetta hafi ákæru verið breytt með þeim hætti að felldur hafi verið brott úr henni texti í upphaflegri verknaðarlýsingu og röksemdum sem ekki sé lengur talinn eiga við. Þetta breytir því á hinn bóginn ekki að ákæran í núverandi horfi dragi í umtalsverðum mæli dám af þessu sakarefni sem aftur leiðir til þess að mörgu sé þar ofaukið.

„Er ákæran af þessum sökum haldin annmarka, en í ljósi þess einfalda og afmarkaða sakarefnis sem eftir stendur leiðir hann ekki til þess að dómur verði ekki lagður á málið,“ segir héraðsdómur.

Ekki útskýrt í lögum hvað felist í að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti

Fjórmenningunum var að endingu gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um gjaldeyrismál, þ.a. 1. mgr. 8. gr. laganna. Þar segir: „Seðlabankinn hefur heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Öðrum aðilum er óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningnum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum.“

Í dómi héraðsdóms segir, að ákvæðið hafi staðið óbreytt allt frá gildistöku laganna.

„Óumdeilt er að ákærðu öfluðu sér ekki leyfis frá Seðlabankanum til að hafa með höndum milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og höfðu ekki með öðrum hætti heimild til að stunda slíka starfsemi hér á landi. Í 1. gr. laganna kemur fram að gjaldeyrisviðskipti merki það að skipta innlendum gjaldeyri fyrir erlendan, erlendum gjaldeyri fyrir innlendan eða einum erlendum gjaldeyri fyrir annan eða reikningsviðskipti sem eru ígildi þess að erlendur gjaldeyrir sé látinn af hendi eða móttekinn. Ekki er sérstaklega útskýrt í lögunum  hvað felst í því að hafa „milligöngu“ um gjaldeyrisviðskipti,“ segir héraðsdómur. 

mbl.is