Mannréttindaákvæðið ekki útfært

Ísraelskar vörur sniðgengnar | 22. september 2015

Mannréttindaákvæðið ekki útfært

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í síðustu viku fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum með vísan í innkaupastefnu borgarinnar.

Mannréttindaákvæðið ekki útfært

Ísraelskar vörur sniðgengnar | 22. september 2015

mbl.is/Styrmir Kári

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í síðustu viku fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum með vísan í innkaupastefnu borgarinnar.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í síðustu viku fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum með vísan í innkaupastefnu borgarinnar.

Þar segir að meðal annars skuli tekið tillit til mannréttindasjónarmiða við opinber innkaup Reykjavíkurborgar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur síðan ítrekað vísað í innkaupastefnuna vegna málsins. Hins vegar hefur vinna við endanlega útfærslu umrædds ákvæðis enn ekki átt sér stað og fyrir vikið liggur ekki fyrir með hvaða hætti eigi að framkvæma það. Þannig var aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2015-2019 samþykkt í mannréttindaráði borgarinnar í dag. Þar er meðal annars fjallað um opinber innkaup Reykjavíkurborgar með tilliti til jafnréttis- og mannréttinda og vinnu sem fyrirhugað er að fara í við að útfæra þær áherslur.

Skoðuð verði reynsla annarra borga

Þannig segir til að mynda í aðgerðaáætluninni að safna eigi upplýsingum um það „hvernig innleiðing jafnréttis- og mannréttindavitundar í opinberum innkaupum og samningagerð hefur verið framkvæmd í öðrum borgum og vinna áætlun um markvissa innleiðingu í innkaupum og samningagerð Reykjavíkurborgar,“ og ennfremur að móta eigi „ákvæði í stöðluðum útboðsgögnum og samningum um stefnu Reykjavíkurborgar um að virða jafnrétti og mannréttindi í viðskiptum á grundvelli mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.“

Þá segir að innkaupadeild Reykjavíkur muni í framhaldi af þessari vinnu „standa fyrir fræðslu meðal innkaupaaðila hjá Reykjavíkurborg um eflingu jafnréttis- og mannréttindavitundar í opinberum innkaupum þar sem m.a. ný ákvæði staðlaðra skilmála verða kynnt. Stofnaður verði starfshópur með verkefnastjóra sem heldur utan um þessa aðgerð.“

„Vanhugsað og fullkomlega ábyrgðarlaust“

„Þetta sýnir enn og aftur hversu ofboðslega vanhugsað þetta mál var og fullkomlega ábyrgðarlaust að leyfa sér að taka slíkar ákvarðanir þegar reglukerfi borgarinnar getur ekki einu sinni stutt við þær. Fyrir utan það að farið sé út fyrir valdsvið sitt þá eru ekki einu sinni verklagsreglur borgarkerfisins sjálfs tilbúið fyrir þetta,“ segir Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hún sat fund mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.

Hildur bætir við að sjálfstæðismenn hafa ítrekað bent á að innkaupareglur borgarinnar geti ekki hnikað til landslögum eða alþjóðlegum samningum sem Íslands sé aðili að. Þá feli það í sér mismunun á grundvelli þjóðernis að neita að eiga viðskipti við fyrirtæki frá ákveðnu ríki. Tilgangurinn með þeirri vinnu mannréttindaráðs sem fyrirhugað sé í þessum efnum sé meðal annars að útfæra innkaupareglur borgarinnar þannig að þær gangi ekki gegn lögum og alþjóðasamningum.

Fundur hefst klukkan 17:00 í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem tekin verður fyrir tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að ákvörðun meirihluta borgarstjórnar frá því í síðustu viku verði dregin til baka. Dagur B. Eggertsson hyggst einnig leggja til að ákvörðunin verði dregin til baka en í staðinn verði samþykkt breytt tillaga um að sniðgangan nái aðeins til varning sem framleiddur er á þeim svæðum sem séu hernumin af Ísrael.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is