„Fullkomlega eðlileg samskipti“

Glitnismenn fyrir dóm | 23. nóvember 2015

„Fullkomlega eðlileg samskipti“

„Hver er glæpurinn?“ spurði Óttar Pálsson hæstaréttarlögmaður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem munnlegur málflutningur fer fram í svonefndu Stím-máli, en Óttar er verjandi Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, sem er einn ákærðra í málinu.

„Fullkomlega eðlileg samskipti“

Glitnismenn fyrir dóm | 23. nóvember 2015

Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans.
Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Hver er glæpurinn?“ spurði Óttar Pálsson hæstaréttarlögmaður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem munnlegur málflutningur fer fram í svonefndu Stím-máli, en Óttar er verjandi Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, sem er einn ákærðra í málinu.

„Hver er glæpurinn?“ spurði Óttar Pálsson hæstaréttarlögmaður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem munnlegur málflutningur fer fram í svonefndu Stím-máli, en Óttar er verjandi Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, sem er einn ákærðra í málinu.

Lárus er ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga hjá Glitni banka þegar hann hafi beitt sér fyrir því að félagið FS36, sem síðar varð Stím, fengi um 20 milljarða króna lán frá bankanum með veði í öllu hlutafé félagsins og bréfum í FL Group sem lánsféð var notað til að kaupa. Lánsféð var einnig notað til að kaupa bréf í Glitni í eigu bankans.

Óttar sagði að um hefði verið að ræða „fullkomlega eðlilegt samskipti“ sem ákæruvaldið hefði reynt að gera tortryggileg. Ennfremur að 90% af dæmum sem nefnd hefðu verið í málflutningi Hólmsteins Gauta Sigurðssonar saksóknara hefðu ekkert með málið að gera. „Ákæruvaldið er fullkomlega að reiða sig á einhverja óbeina sönnum um að hann hafi mátt vita eitthvað,“ sagði hann.

Gat ekki einn borið ábyrgð á nefndinni

Vísaði Óttar þar til áherslu saksóknara á það að Lárusi hafi mátt vera ljóst að hann væri kominn út fyrir heimildir sínar til lánveitingar með lánafyrirgreiðslum til Stíms. Benti hann á að það hefði meðal annars verið á könnu áhættustýringar Glitnis banka og lánastjóra að hafa eftirlit með því að ekki væri farið út fyrir lánaheimildir. Engar athugasemdir hefðu verið gerðar af hálfu þeirra.

Einnig vakti Óttar athygli á því að lánastjóri Glitnis banka og fulltrúi áhættustýringar hefði setið í áhættunefnd bankans sem Lárus veitti formennsku. Enginn nefndarmanna hefði gert sér grein fyrir því að farið hefði verið út fyrir lánaheimildir. Ósanngjarnt væri að gera þá kröfu til Lárusar eins að bera ábyrgð á ákvörðunum nefndarinnar og að honum hefði einum átt að vera það ljóst.

Fulltrúi áhættustýringar Glitnis og sjóðsstjóri hafi af ástæðu átt sæti í áhættunefndinni að sögn Óttars. Þeim hafi borið ríkari skylda til þess að fylgjast með mörkum lánaheimilda. Lárus hafi ekki haft nokkra ástæðu til að ætla annað en að tillaga um lánveitingar til Stím sem lögð var fyrir nefndina uppfyllti skilyrði bankans. Hann hafi einfaldlega verið í góðri trú í þeim efnum.

Vildi ekki lánveitingar inn á sitt borð

Þannig hafi Lárus treyst því að sérfræðingar Glitnis banka létu hann vita ef skilyrði fyrir lánveitingum væru ekki uppfyllt. Það hafi ekki verið gert. Vitni meðal fyrrverandi starfsmanna bankans hafi greint frá því að um mistök og yfirsjón hafi verið að ræða að þeirra mati. Ekki hafi þannig verið vísvitandi farið á svig við reglur í tengslum við þær lánveitingar sem til umræðu eru.

Hvað varðar málflutning saksóknara um að Lárus hafi ekki lagt lánveitingar til Stím fyrir stjórn Glitnis banka benti Óttar á að stjórnin hefði sjálf ályktað um að hún vildi ekki að einstakar lánveitingar kæmu inn á borð hennar. Einungis samþykkt viðskiptamarka og staða viðkomandi mótaðila. Engu hefði þannig verið haldið frá stjórn bankans eins og ákæruvaldið héldi fram.

Hvað varðaði meinta fjártjónshættu fyrir Glitni banka vegna viðskiptanna sagði Óttar að ekki mætti gleyma að bréfin í FL Group og Glitni, sem Stím hefði fjármagnað kaup á með lánveitingunum, hefðu áður verið í eigu bankans. Viðskiptin hefðu þannig dregið úr áhættu Glitnis. Með þeim hefði verulegt fé komið inn í bankann fyrir utan eigið fé sem nokkrir hluthafar Stím hefðu lagt fram.

Skorast ekki undan ábyrgð sinni

Óttar sagði Lárus ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem sanngjarnt væri að gera kröfu um að hann bæri varðandi lánveitinguna til Stím. Hann hefði viðurkennt að farið hefði verið fram úr lánaheimildum og ekki gert ágreining um það atriði. Það væri hins vegar ekki nóg til þess að uppfylla skilyrði um misnotkun á aðstöðu líkt og Lárusi væri gefið að sök af ákæruvaldinu.

Lykilatriði í þessu sambandi væri að sýna fram á að farið hefði verið verulega út fyrir lánaheimildir eins og ákæruvaldið héldi fram og ennfremur að það hefði verið gert með vilja. Það hvíldi á ákæruvaldinu að sýna fram á að Lárus hefði af ásetningi misnotað aðstöðu sína og skapað þannig Glitni banka verulega fjártjónshættu. „Það hlýtur að vera stórt álitamál hvort svo sé.“

Fór Óttar fram á sýknu og að málskostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði.

mbl.is