„Hreinn hugarburður“

Glitnismenn fyrir dóm | 24. nóvember 2015

Fundurinn „hreinn hugarburður“

Forsendur fyrir ákæru á hendur Jóhannesi Baldurssyni í svonefndu Stím-máli eru engar. Þetta sagði Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem málflutningur fer fram í málinu, en Jóhannes er einn ákærðra í málinu ásamt þeim Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, og Þorvaldi Lúðviki Sigurjónssonar, fyrrverandi bankastjóra Saga Capital. Allir ákærður eru viðstaddir málflutninginn fyrir héraðsdómi.

Fundurinn „hreinn hugarburður“

Glitnismenn fyrir dóm | 24. nóvember 2015

Reimar Pétursson (t.v), verjandi Jóhannesar Baldurssonar.
Reimar Pétursson (t.v), verjandi Jóhannesar Baldurssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsendur fyrir ákæru á hendur Jóhannesi Baldurssyni í svonefndu Stím-máli eru engar. Þetta sagði Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem málflutningur fer fram í málinu, en Jóhannes er einn ákærðra í málinu ásamt þeim Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, og Þorvaldi Lúðviki Sigurjónssonar, fyrrverandi bankastjóra Saga Capital. Allir ákærður eru viðstaddir málflutninginn fyrir héraðsdómi.

Forsendur fyrir ákæru á hendur Jóhannesi Baldurssyni í svonefndu Stím-máli eru engar. Þetta sagði Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem málflutningur fer fram í málinu, en Jóhannes er einn ákærðra í málinu ásamt þeim Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, og Þorvaldi Lúðviki Sigurjónssonar, fyrrverandi bankastjóra Saga Capital. Allir ákærður eru viðstaddir málflutninginn fyrir héraðsdómi.

Jóhannes er ákærður fyrir umboðssvik fyrir að hafa beitt sér fyrir því að fjárfestingasjóðurinn GLB FX, í eigu Glitnis banka, keypti víkjandi skuldabréf í félaginu Stím af Saga Capital. Jóhannesi er gefið að sök að hafa með því gengið erinda Þorvaldar Lúðvíks og Saga Capital. Markmiðið með viðskiptunum hafi verið að tryggja að Saga Capital fengi kröfu sína að fullu bætta á kostnað Glitnis banka. Aðrir kröfuhafar Stím hafi ekki fengið kröfur sínar bættar.

Hafði litla þekkingu á málum Stím

Reimar benti á að samkvæmt málatilbúnaði ákæruvaldsins væri torvelt að færa sönnur á meinta sekt Jóhannesar án framburðar Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fyrrverandi sjóðstjóra GLB FX. Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá saksókn á hendur Magnúsi en fram hefur komið í máli ákæruvaldsins að það telji Magnús hafa gerst sekan um lögbrot sem þó séu ekki eins alvarleg og meint brot Jóhannesar og Þorvalds sem ákærður er fyrir hlutdeild í brotum Jóhannesar.

Reimar sagði gögn málsins sýna að skjólstæðingur hans hafi í besta falli verið einhvers konar aukaskeifa í viðskiptunum. Aðrir hafi haldið utan um viðskipti við Stím. Hann hafi aðeins haft milligöngu í þeim efnum. Gögnin sýndu ennfremur að Jóhannes hafi haft litla þekkingu á málefnum Stím. Þá sýndu samskipti hans við Magnús Pálma að hann hafi ekki tekið neinar ákvarðanir í þessum efnum. Hann hafi ekki gefið Magnúsi nein fyrirmæli.

Jóhannes var ekki staddur á landinu

Varðandi framburð Magnúsar Pálma sagði Reimar framburð hans ekki standast. Hann hafi breytt framburði sínum og síðari útgáfa hans kæmi ekki heim og saman við samtímagögn. Meðal annars tölvupósta. Magnús hafi ennfremur lýst í síðari framburði sínum tilfinningaríkum fundi með Jóhannesi í höfuðstöðvum Glitnis að Kirkjusandi og farið í alger smáatriði varðandi hann. Magnús hafi sérstaklega tekið fram að fundurinn væri sér mjög minnistæður.

Magnús hafi sagt að á þessum fundi hafi Jóhannesi sagt að ef eitthvað kæmi upp á ætti hann að segja að Jóhannesi hafi gefið honum fyrirmæli um viðskiptin. Hins vegar hafi Jóhannes ekki verið á landinu þegar þessi fundur hafi átt að eiga sér stað. Jóhannes hafi verið á Spáni á þessum tíma. Lögreglan hafi búið yfir upplýsingum um það en einfaldlega gleymt þeim. Framburðurinn væri þannig einfaldlega hreinn hugarburður og kæmi ekki heim og saman við staðreyndir.

Breyttur framburður Magnúsar keyptur?

Reimar vísaði ennfremur til fyrri framburðar Magnúsar Pálma við skýrslutöku. Þar hafi Magnús ítrekað sagt að hann einn hafi tekið ákvörðun um viðskiptin í Stím. Endanleg ákvörðun hafi legið hjá honum. Aðspurður sagðist hann ekki hafa fengið nein fyrirmæli frá yfirmönnum sínum í þessum efnum. Hann hafi verið spurður sérstaklega að því hvort Jóhannes hafi gefið honum fyrirmæi en hann neitað því. „Ég skal vera mjög hógvær, ég var kóngurinn þarna.“

Framburður Magnúsar breyttist við vafasamar aðstæður að sögn Reimars þegar hann hafi verið kominn upp að vegg. Hann hafi sjálfur sagt fyrir dómi að hann hafi „unnið“ fyrri tvær yfirheyrslurnar en tapað þeirri þriðju. Magnús hafi í kjölfarið verið reiðubúinn að segja lögreglunni hvað sem hún hafi viljað heyra og verðmiðinn verið friðhelgi frá saksóknum. Svo virtist sem lögreglan hefði keypt framburð hans með friðhelgi frá öllum saksóknum.

„Aðalmaðurinn“ ekki verið ákærður

Reimar sagði ljóst að Jóhannes hafi ekkert umboð né formlegt vald haft til þess að taka ákvarðanir um viðskipti af hálfu GLB FX sjóðsins. Ákvörðunarvaldið í þeim efnum hafi verið í höndum Magnúsar Pálma. Hann hafi verið „aðalmaðurinn“ í málinu en væri hins vegar ekki ákærður sem væri ótrúlegt. Benti hann ennfremur á að Jóhannes hafi sjálfur geymt talsverðan hluta sparnaðar síns í GLB FX og hagsmunir sjóðsins því samrýmst hans eigin.

Engar forsendur væru heldur fyrir því að dæma Jóhannes fyrir hlutdeild í gerðum Magnúsar. Benti Reimar á með vísan í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu að ekki væri hægt að lýsa mann sekan með dómi í máli þar sem hann hefði fengið friðhelgi frá saksókn. Jafnvel þó reynt væri að saka Jóhannes um hlutdeild í gerðum Magnúsar væru því engar forsendur fyrir því. Eftir sem áður væri ljóst að Jóhannes hefði ekki tekið neinar ákvarðanir í þessum efnum.

Reimar fór fram á það að skjólstæðingur hans yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði. Þar með talið málsvarnarlaun.

mbl.is