Seðlabankinn hefur birt greinargerð frá yfirstjórn bankans þar sem athugasemdum umboðsmanns Alþingis er svarað.
Seðlabankinn hefur birt greinargerð frá yfirstjórn bankans þar sem athugasemdum umboðsmanns Alþingis er svarað.
Seðlabankinn hefur birt greinargerð frá yfirstjórn bankans þar sem athugasemdum umboðsmanns Alþingis er svarað.
Greinargerðin skiptist í tvo megin hluta. Fyrri hlutinn fjallar um gjaldeyrismál og hinn síðari um flutning eigna og verkefna í hlutafélög í eigu Seðlabanka Íslands. Gagnrýni umboðsmanns sneri að báðum atriðum.
Í kaflanum um gjaldeyrismál segir að ekki verði séð hvernig Seðlabankinn geti komið til móts við athugasemdir umboðsmanns, „einkum vegna þess að tilvik eða athugasemdir sem UA virðist byggja á eru víða óljós“.
Í greinargerðinni segir að gjaldeyriseftirlitið hafi gert athugun á kærðum málum eftir athugasemdir umboðsmanns og að engin frávik frá reglum um tilkynningarskyldu hafi komið í ljós.
Í seinni hlutanum er farið yfir lagagrundvöllinn fyrir stofnun og starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands. Þar segir meðal annars að ESÍ sé ekki hefðbundið stjórnvald.
Seðlabankinn leggur áherslu á að eignir ESÍ eru kröfur og fullnustueignir sem stafa af bankahruninu 2008 og 2009. „Félagið hefur ekki með höndum hefðbundna stjórnsýslu, það tekur ekki stjórnvaldsákvarðanir eða sinnir opinberri þjónustu eða öðrum opinberum verkefnum sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald eigi að sinna eða sem telst vera opinbert hlutverk stjórnvalds,“ segir í greinargerðinni.
„Meðhöndlun krafnanna og fullnustueignanna í höndum ESÍ var og er ekki með öðrum hætti en ef eignirnar hefðu áfram verið skráðar í bókum Seðlabankans.“
Í niðurlagi greinargerðarinnar segir að í bréfi sínu geri umboðsmaður Alþingis athugasemdir sem hafa ekki verið fullrannsakaðar enda hafi sjónarmið Seðlabankans í öllum þáttum ekki legið fyrir þegar bréfið var ritað.
Þá segir að Seðlabankanum hafi verið falin verkefni í fordæmalausum aðstæðum sem hann hafi gert sér far um að sinna af samviskusemi, fagmennsku og í samræmi við hlutverk bankans samkvæmt lögum.
Nú hilli hins vegar undir að verulega dragi úr verkefnum tengdum fjármálaáfallinu á næsta ári.
Margar þeirra ábendinga sem fram koma í bréfi umboðsmanns séu því e.t.v. fremur til umhugsunar í samhengi við mótun löggjafar til framtíðar en viðfangsefni næstu missera.
Hér má lesa greinargerðina í heild sinni.