HönnunarMars hefst formlega á morgun. Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands segir að við verðum að fara að líta á hönnun sömu augum og frændur okkar í Danmörku og í Svíþjóð. Þar myndi engum detta í hug að kópera Múmínbolla frá Iittala eða sjöuna eftir Arne Jacobsen.
HönnunarMars hefst formlega á morgun. Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands segir að við verðum að fara að líta á hönnun sömu augum og frændur okkar í Danmörku og í Svíþjóð. Þar myndi engum detta í hug að kópera Múmínbolla frá Iittala eða sjöuna eftir Arne Jacobsen.
HönnunarMars hefst formlega á morgun. Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands segir að við verðum að fara að líta á hönnun sömu augum og frændur okkar í Danmörku og í Svíþjóð. Þar myndi engum detta í hug að kópera Múmínbolla frá Iittala eða sjöuna eftir Arne Jacobsen.
Reglulega heyrum við fréttir af því í fjölmiðlum að hinn eða þessi aðili hafi apað eftir hönnun hönnuða. Ef fólk almennt statt á þeim stað að þeim finnist það í lagi að apa eftir hönnun annarra eða er þetta að breytast?
„Það er auðvitað misjafnt, sumum finnst í lagi að apa meðvitað eftir því sem aðrir hafa skapað og kalla sitt eigið. Það er auðvitað stuldur á hugverki eða höfundarréttarbrot. Ég held að margir sem „kópera“ geri sér ekki endilega grein fyrir því að það sé eitthvað athugavert við það sem þeir eru að gera. Línan er heldur ekki alveg skýr og stundum erfitt fyrir leikmenn að átta sig á því hvað er hugmynd og hvað ekki og í hverju hönnunin eða nýnæmið felst.
Það er líka stór munur á því að búa eitthvað til handa sjálfum sér eða fjöldaframleiða hugverk annarra og selja. Þar sem það fyrrnefnda er siðlaust en það síðarnefnda glæpur,“ segir hún.
Hvers vegna er þakagangur fólks á Íslandi svona?
„Aðallega skortur á menntun, virðingu og þekkingu á vinnu þeirra sem lifa af því að skapa nýja hluti. Lifibrauð okkar Íslendinga hefur byggst að mestu á nýtingu auðlinda og frumframleiðslu, síður á úrvinnslu eða snjallri nýtingu hráefna þar sem verðmæti eru búin til eða aukin með hönnun eða hugviti.
Þess vegna er þekking og virðing fyrir hugmynda- og höfundarétti ekki sterkur hluti af menntun okkar, uppeldi eða reynsluheimi. Virðing fyrir hugmynda- og höfundarétti víkur fyrir sjálfsbjargarviðleitni og framkvæmdagleði sem eru í sjálfu sér góðir og fallegir eiginleikar.“
Þegar Halla er spurð að því hvort við séum stödd á sama stað hvað varðar hönnunarvernd og frændur okkar á Norðurlöndunum segir hún svo ekki vera.
„Ég þori ekki að alhæfa um öll Norðurlöndin en í Danmörku og Finnlandi er löng hefð fyrir því að skapa verðmæti með hönnun og hugverkum og þess vegna bera þeir auðvitað virðingu fyrir því og vita að það er ekki löglegt að búa til eigin útgáfur t.d. af stólum Arne Jacobsen eða Múmínbolla eins og þá sem Iittala framleiðir. Hönnun er orðin stór hluti af sænsku efnahagslífi og eykst í Noregi og þessi þekking og virðing helst óhjákvæmilega í hendur við þá aukningu.“
Hvað er hægt að gera til að vernda betur höfundaverk og hugvit?
„Að hluta er það gert með lögum og reglum, sb. höfundarréttalög og einkaleyfi. En ekki síður með kynningarstarfi og vitundarvakningu. Eftir því sem einstaklingum og fyrirtækjum á sviði hönnunar og hugverka vex ásmegin, eykst virðingin og stoltið varðandi það sem þau skapa. Þannig breytist hugarfarið smám saman.
Við yrðum eflaust öll mjög hneyksluð ef einhverjir Danir stofnuðu fyrirtæki sem héti CCD og færu að framleiða leik sem héti EVE ONLIME og væri eftiröpun af leik CCP. Eða ef fram kæmi fyrirtæki erlendis sem héti 99°N og framleiddi heimskautafatnað sambærilegan þeim sem 66°N framleiðir. En við verðum ekki eins hneyksluð þegar einhver atorkusöm manneskja fer að saga út krummaherðatré sem eru eins og þau sem ihanna býr til og er að selja. Eða þegar herir góðra kvenna apa peysur Farmers market upp, fjöldaframleiða þær og selja. En hvort tveggja er hugverkastuldur og skemmdarverk gagnvart litlum fyrirtækjum ungra hönnuða sem eru að reyna að skapa sér tekjur og atvinnu.
Við búum í netvæddum heimi samskipta og auðvelds aðgengis og þar hef ég miklu meiri trú á að leggja áherslu á heiðarleika, siðferðisvitund og fræðslu frekar en lög, reglur og refsingar.“
Þegar Halla er spurð að því hvort við séum endalaust að spóla í sömu hjólförunum þegar kemur að hönnunarvernd og virðingu fyrir hönnun segir hún að það hafi orðið framför í jákvæða átt.
„Ég held að mjög margt hafi áunnist á undanförnum árum varðandi virðingu og áhuga á hönnun. En breytingar taka tíma þannig að við eigum auðvitað mikið starf óunnið.“
Berum við nægilega mikla virðingu fyrir hönnuðum?
„Virðing er flókið fyrirbæri. Almennt held ég held að við berum ekki nægilega virðingu fyrir fólki sem lifir á sköpun og vinnur helst við það sem það hefur ástríðu fyrir, óháð hagnaðarvon. Samfélagið er mjög fjármagnsdrifið, sb. að við berum virðingu fyrir fólki sem er mjög ríkt þótt margt annað í fari þess sé ekki áhugavert og okkur gruni jafnvel að féð sé ekki endilega vel fengið. Þeir sem eiga fé gera ráð fyrir virðingu samfélagsins og krefjast hennar jafnvel sem stundum er furðulegt. En það er ekki hægt að krefjast virðingar, maður verður að ávinna sér virðingu. Í okkar samfélagi hefur ekki verið nægur skilningur og þar með áhersla og fjármagn lagt í þau gæði og virðisauka sem góður hönnuður og hönnun getur haft í för með sér. Það veldur því að hönnuðir ná síður að blómstra sem veldur því að virðingin fyrir þeim hópi vex ekki.
Önnur hlið þessa máls er að þekkingin á því sem hönnuðir gera er ekki nægileg og kunnáttan í að greina hönnun frá handverki eða því að „búa eitthvað til“ ekki mikil.
Ég held að mjög margt hafi áunnist á undanförnum árum varðandi virðingu og áhuga á hönnun. En breytingar taka tíma þannig að við eigum auðvitað mikið starf óunnið.“
Hvernig myndi fólk haga sér í þessum efnum í hinum fullkomna heimi?
„Huga meira að gæðum, vanda sig, kaupa færri, vandaðari og betri hluti eða föt af snjöllum hönnuðum. En líka vanda sig betur við það sem búið er til, fá hönnuði inn nægilega snemma svo þekking þeirra nýtist raunverulega í verkefnunum sem þeir eru beðnir að taka að sér. Sleppa því alveg að stela hugverki eða apa eftir því sem aðrir eru að byggja lifibrauð sitt á.“
Finnst þér hönnunarbransinn á Íslandi hafa breyst eftir að Hönnunarmiðstöð tók til starfa?
„Hönnunargeirinn er fjölbreytilegur. Grafísk hönnun hefur verið sterk á Íslandi lengi en einstaklingar sem búa til sitt eigið; stíl, vörur eða þjónustu eru mun fleiri og meira áberandi. Meiri frumkvöðlaandi hefur ríkt í þeirri grein sem ég vona að betra árferði kæfi ekki. Arkitektar sem eru líka hluti af gömlum greinum hér á landi lentu mjög hart í kreppunni. Hjá þeim var um 65% atvinnuleysi á tímabili. Ástandið hefur breyst til batnaðar, en mikil og gagnrýnin umræða hefur verið hér undanfarin ár um hlutverk arkitekta og ábyrgð í manngerðu umhverfi. Ekki síst ungir arkitektar hafa verið uppteknir af nýjum leiðum sem fela í sér meiri virðingu fyrir mannlífinu, nýta og breyta því sem er til og sýna umhverfi og náttúru aukna auðmýkt og virðingu. Fata- og vöruhönnun eru nýjar greinar hér á landi, þær hafa verið mjög áberandi hér undanfarin ár enda sterkasta grasrótin þar. Áskorunin er og hefur verið sú að fá fyrirtæki eru til á þessum sviðum og framleiðsla í landinu mjög lítil. Þesir hópar hafa verið að ryðja sér til rúms og margir hafa sýnt gríðarlega áræðni, úthald og elju við að koma fyrirtækjum sínum á legg. Oft í andstreymi kerfisins og þeirra sem helst ættu að styðja við grasrót. Sum af þessum fyrirtækjum eru að ná sér mjög á strik, önnur síður eins og gengur.
Hönnunarmiðstöð hefur bara starfað í kreppu, þar til núna þegar rofa tekur í fjármálum. Það er vitað að í kreppuástandi þrífst frumkvöðlaandi, og nýsköpun vel. Það verður áhugavert að sjá hvað næstu ár bera í skauti sér. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að halda þeim góðu eiginleikum og sköpunarkraftinum sem við erum orðin þekkt fyrir á góðu lífi.“