Tóku út skírskotun í nýjan spítala

Tóku út skírskotun í nýjan spítala

Hefur Alþingi samþykkt að nýr Landspítali rísi við Hringbraut í Reykjavík? Þessi spurning vaknar í kjölfar ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að undanförnu þess efnis að þingið hafi ekki samþykkt vorið 2014 að nýr spítali skuli rísa á þeim stað. Einungis hafi verið ákveðið að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og uppbyggingu á húsnæði Landspítalans við Hringbraut en endanleg ákvörðun um staðsetningu nýs spítala hafi á hinn bóginn ekki verið tekin.

Tóku út skírskotun í nýjan spítala

Framtíðaruppbygging Landspítalans | 15. mars 2016

mbl.is/Ómar

Hefur Alþingi samþykkt að nýr Landspítali rísi við Hringbraut í Reykjavík? Þessi spurning vaknar í kjölfar ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að undanförnu þess efnis að þingið hafi ekki samþykkt vorið 2014 að nýr spítali skuli rísa á þeim stað. Einungis hafi verið ákveðið að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og uppbyggingu á húsnæði Landspítalans við Hringbraut en endanleg ákvörðun um staðsetningu nýs spítala hafi á hinn bóginn ekki verið tekin.

Hefur Alþingi samþykkt að nýr Landspítali rísi við Hringbraut í Reykjavík? Þessi spurning vaknar í kjölfar ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að undanförnu þess efnis að þingið hafi ekki samþykkt vorið 2014 að nýr spítali skuli rísa á þeim stað. Einungis hafi verið ákveðið að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og uppbyggingu á húsnæði Landspítalans við Hringbraut en endanleg ákvörðun um staðsetningu nýs spítala hafi á hinn bóginn ekki verið tekin.

„Það hefur ekki verið samstaða um málið á Alþingi. Þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut var breytt í tillögu um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði spítalans við Hringbraut. Einungis þannig náðist samstaða um tillöguna. Það var enda í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar en í stjórnarsáttmálanum er því haldið opnu að menn skoði hver besta framtíðarlausnin sé en um leið lögð áhersla á mikilvægi þess að ráðast í úrbætur á núverandi húsnæði,“ sagði Sigmundur í grein á vefsíðu sinni á föstudaginn þar sem hann hvatti til þess að skoðað yrði hvort rétt væri að reisa nýjan Landspítala í landi Vífilstaða í Garðabæ.

Forsætisráðherra ítrekaði síðan þessi orð sín í umræðum sem fram fóru á Alþingi í gær þar sem hann ræddi stöðu Landspítalans við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar: „Ég vil fyrst minna háttvirtan þingmann á að það sem samþykkt var vorið 2014 var einmitt ekki að nýr Landspítali yrði byggður við Hringbraut. Það var vissulega upphafleg tillaga en ekki náðist samstaða um hana vegna þess að menn hafa ólíkar skoðanir á því hvort það sé skynsamleg nálgun. Þess vegna var ákveðið að sammælast frekar um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur við Hringbrautina á meðan menn meta aðra kosti.“

En hvað nákvæmlega var samþykkt á Alþingi vorið 2014? Þingsályktunartillaga var lögð fram á þingi í október 2013 sem flutt var af átta þingmönnum Samfylkingarinnar, einum þingmanni Sjálfstæðisflokksins og einum þingmanni Bjartrar framtíðar. Tillagan var svohljóðandi

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans strax að því loknu. Nýr Landspítali ohf. eða ríkissjóður fái heimild til að taka lán fyrir byggingarkostnaði, hvort heldur er beint hjá traustum lánveitendum eða óbeint með milligöngu ríkisins. Ríkisstjórnin veiti fullan atbeina til að ljúka megi við bygginguna, inni af hendi stjórnvaldsathafnir og leggi nauðsynleg lagafrumvörp fram á Alþingi.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Þingsályktunartillagan var rædd á þingi í byrjun nóvember og síðan send til velferðarnefndar. Velferðarnefnd afgreiddi tillöguna 14. maí 2014 og lagði til að umtalsverðar breytingar yrðu gerðar á orðalagi hennar og efni og var tillagan að lokum samþykkt tveimur dögum síðar með breytingum nefndarinnar. Breytt var tillagan svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“

Breytingin fólst einkum í því að í stað þess að talað væri um að ljúka „undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans strax að því loknu“ var rætt um að ljúka „undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“ Þannig var ekki lengur skírskotað til nýs Landspítala. 

Til samræmis við það var heiti þingsályktunartillögunnar að sama skapi breytt. Þannig hét hún upphaflega „Tillaga til þingsályktunar um byggingu nýs Landspítala“ en samþykkt á Alþingi eftir þinglega meðferð bar hún hins vegar heitið „Þingsályktun um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala.“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gagnrýndi í morgun í Ríkisútvarpinu ummæli Sigmundar og sagði meðal annars að Alþingi hefði samþykkt lög árið 2010 um að nýr Landspítali yrði við Hringbraut og aftur 2013. Vísar hann þar lagasetningar á síðasta kjörtímabili um stofnun opinbera hlutafélagsins Nýr Landspítali ohf. og síðan breytinga á þeim lögum. Kristján benti ennfremur á að ítrekað hefði verið skírskotað til verkefnisins í fjárlögum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is