Halldóra Kristjánsdóttir Larsen hætti notkun einnota dömubinda fyrir hálfu öðru ári, og fór að notast við margnota taubindi. Þá var yngsta dóttir hennar nýkomin í heiminn, en Halldóra kaus að nota taubleiur á þá stuttu.
Halldóra Kristjánsdóttir Larsen hætti notkun einnota dömubinda fyrir hálfu öðru ári, og fór að notast við margnota taubindi. Þá var yngsta dóttir hennar nýkomin í heiminn, en Halldóra kaus að nota taubleiur á þá stuttu.
Halldóra Kristjánsdóttir Larsen hætti notkun einnota dömubinda fyrir hálfu öðru ári, og fór að notast við margnota taubindi. Þá var yngsta dóttir hennar nýkomin í heiminn, en Halldóra kaus að nota taubleiur á þá stuttu.
„Þótt ótrúlegt megi virðast spurði barnsfaðir minn mig af hverju ég notaði ekki taubindi fyrst ég notaði taubleiur. Ég hafði ekki efni á að kaupa mér ný og flott bindi þannig að ég kynnti mér hvernig á að sauma bindin og byrjaði að sauma mín eigin. Það vatt svo uppá sig og ég stofnaði Touch of clouds, þar sem ég sauma og sel bindi í öllum regnbogans litum,“ segir Halldóra sem einnig er að fara að halda námskeið í taubindasaumi um miðjan maí.
Alls ekki óheilnæmt
Sumum finnst tilhugsunin um fjölnota bindi ógeðfelld og óttast að notkun þeirra kunni að vera óheilnæm. Halldóra segir þó að sú sé alls ekki raunin.
„Þetta er auðvitað ekki allra tebolli því margir eru klígjugjarnir þegar kemur að blóði, en þetta er langt frá því að vera óheilnæmt. Ég, og margar konur sem ég þekki, hafa til dæmis verið að fá síendurteknar sýkingar við notkun einnota binda en þegar við fórum að nota taubindi þá hætti það. Taubindi eru ekki með neinum aukaefnum eins og einnota bindin, þetta er bara tau eins og fötin okkar eru gerð úr. Í einnota bindi er notaður hellingur af efnum til að auka rakadrægni, hvítta þau og mörg þeirra innihalda jafnvel ilmefni sem eiga að fela lykt. Málið er bara að túrblóð lyktar ekki illa. Ástæðan fyrir þessari vondu lykt er sú að blóðið er að bregðast við öllum aukaefnunum sem eru í einnota bindunum.“
Margir velta eflaust fyrir sér hvernig þrifum á bindum er háttað, en Halldóra segir flestar konur þó einfaldlega skella þeim beint í þvottavélina.
„Það er misjafnt hvernig konur þvo bindin en flestar setja þau bara beint í þvottavélina. Þá eru þau fyrst sett á kalt skol til að skola sem mest úr þeim, þar sem heitt vatn festir blóðblettina. Svo eru þau þvegin á 60 gráðum og þurrkuð, annaðhvort á lágum hita í þurrkara eða bara hengd upp til þerris. Ég mæli frekar með að hengja þau upp, því þurrkarinn getur valdið því að þau endast ekki eins lengi.“
Notuð bindi ekki fyrir alla
Halldóra segir kostnaðinn við að koma sér upp margnota bindum vera misjafnan og fara eftir ýmsu.
„Kostnaðurinn er misjafn og fer alveg eftir því hvar þú kaupir bindin, hvort þú getir saumað þau sjálf, hversu mörg bindi þér finnst þú þurfa og hvort þú sért opin fyrir því að kaupa notað. Notuð bindi eru ekki fyrir alla því mörgum finnst það ósmekklegt. En þau eru ekkert hættuleg. Þeim er skellt í þvott á suðu og þá eru þau tilbúin til notkunar. Einnig er hægt að kaupa ódýr bindi, til dæmis á Aliexpress. Margar taubinda-saumakonur bjóða líka uppá startpakka, og þá er oft afsláttur af bindunum. Ég mæli með að eiga sirka 15 bindi. Þá ættu konur að vera með nóg fyrir tvo daga, og síðan skella þær bara í þvott daglega. Einnig mæli ég með að kaupa lítið til að byrja með, og þá jafnvel eitt til tvö frá nokkrum merkjum til að finna hvaða snið hentar best,“ bætir Halldóra við.
Þægilegri, umhverfisvænni og fallegri
Mikil vitundarvakning hefur verið undanfarið og segir Halldóra ýmsar ástæður liggja að baki.
„Bindin eru að mínu mati mun þægilegri, þau eru umhverfisvænni og svo eru þau auðvitað mikið fallegri. Svo, eins og ég nefndi, þola margar konur ekki efnin í einnota bindunum og nota því tauið vegna þess að bindin eru efnalaus,“ segir Halldóra og bætir við að áhuginn hafi aukist töluvert undanfarið.
Bætt aðgengi stúlkna að menntun
Margnota taubindi eru ekki einungis umhverfisvæn, heldur geta þau stuðlað að bættu aðgengi stúlkna að menntun. Samtökin Days for Girls sér stúlkum víðsvegar um heiminn fyrir fjölnota bindum, en víða þurfa stúlkur að halda sig heima á meðan blæðingum stendur þar sem þær hafa ekki aðgengi að hreinlætisvörum. Halldóra stofnaði nýverið deild á Íslandi, enda málefnið hugleikið.
„Næsta mál á dagskrá er að setja af stað fjáröflun fyrir þetta verkefni. Það er efniskostnaður á bak við svona, eins og svo margt annað, og ég hef nú þegar sett töluvert af eigin fjármunum í þetta. Þetta er mjög þarft verkefni að mínu mati. Blæðingar ættu ekki að vera böl og hreinlæti og menntun ætti ekki að vera lúxus,“ segir Halldóra að endingu.
Frekari upplýsingar um Days for Girls verkefnið má finna hér, en vert er að taka fram að vel er tekið á móti sjálfboðaliðum. Hvort sem þeir vilja aðstoða við saumaskap, eða koma að fjáröflun.
Þeir sem vilja fræðast meira um fjölnota bindi geta síðan leitað upplýsinga á Taubindatjattinu.