Innanríkisráðuneytinu hefur borist bréf frá Mannréttindadómstól Evrópu þar sem óskað er svara íslenskra stjórnvalda við fjórum spurningum um málsmeðferðina í Al Thani-málinu svonefnda.
Innanríkisráðuneytinu hefur borist bréf frá Mannréttindadómstól Evrópu þar sem óskað er svara íslenskra stjórnvalda við fjórum spurningum um málsmeðferðina í Al Thani-málinu svonefnda.
Innanríkisráðuneytinu hefur borist bréf frá Mannréttindadómstól Evrópu þar sem óskað er svara íslenskra stjórnvalda við fjórum spurningum um málsmeðferðina í Al Thani-málinu svonefnda.
Mannréttindadómstóllinn sendi bréfið 20. júní síðastliðinn. Fá íslensk stjórnvöld frest til 10. október næstkomandi til þess að svara spurningunum. Að því loknu tekur dómstóllinn afstöðu til þess hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar og réttað í því.
Flestum málum sem kærð eru til dómstólsins er vísað frá án meðferðar. Eftir að hafa yfirfarið kæru sakborninganna í málinu metur dómstóllinn það hins vegar sem svo að rétt sé að leita nánari upplýsinga frá stjórnvöldum og bjóða þeim að skila inn skriflegri greinargerð.
Að sama skapi hefur stjórnvöldum einnig verið boðið að ná sáttum í málinu.
mbl.is fékk staðfest frá innanríkisráðuneytinu síðdegis í dag að bréfið hafi borist því. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu í kvöldfréttum sínum.
Sakborningarnir fjórir voru sakfelldir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun af Hæstarétti í febrúar á síðasta ári. Var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi, Ólafur, sem var einn stærsti hluthafi bankans, í fjögurra og hálfs árs fangelsi og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, sömuleiðis í fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Þeir vísuðu málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem þeir töldu að brotið hefði verið á réttindum þeirra, bæði við rannsókn málsins og við meðferð þess fyrir dómstólum. Þannig hefðu þeir ekki fengið að undirbúa vörn sína nægilega vel, ekki fengið tækifæri til að boða lykilvitni í skýrslutöku og að brotið hefði verið á friðhelgi einkalífs þeirra.
Spurningar dómsins til íslenskra stjórnvalda eru í fjórum liðum, eins og áður sagði.
Í fyrsta lagi er spurt um meint vanhæfi Árna Kolbeinssonar, eins þeirra fimm dómara sem dæmdu málið í Hæstarétti.
Fram hefur komið að sonur hans, Kolbeinn Árnason, gegndi starfi forstöðumanns lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings og telja kærendur að hann hafi átt hagsmuna að gæta af því að sakfellt yrði í málinu.
Eins var eiginkona Árna varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins fram í janúar 2009, á meðan eftirlitið rannsakaði starfsemi Kaupþings.
Í öðru lagi er spurt hvort brotið hafi verið á réttindum kærenda til réttlátrar málsmeðferðar, þar sem beiðni þeirra um að leiða lykilvitni í málinu fyrir dóm, þá Al Thani og Sheikh Sultan, var hafnað.
Í þriðja lagi er einnig spurt um réttláta málsmeðferð og þá einkum varðandi meginreglu um andmælarétt, jafnræði málsaðila í sakamálaréttarfari og það hvort hvort kærendum hafi verið veittur nægur tími til að undirbúa málsvörn sína.
Þá er sérstaklega spurt hvort sakborningar hafi fengið aðgang að öllum gögnum málsins frá embætti sérstaks saksóknara og ef ekki, hvort nauðsynlegt hafi verið að takmarka aðgang þeirra að gögnum vegna almannahagsmuna og hvort það hafi eingöngu verið ákvörðun saksóknara að halda aftur gögnum. Einnig spyr Mannréttindadómstóllinn hvort takmörkunin að aðgangi gagna hafi verið borin undir dómstóla.
Í fjórða lagi spyr dómstóllinn um símtöl á milli sakborninga og lögmanna, sem voru hleruð af embætti sérstaks saksóknara. Er spurt hvort rétti sakborninganna til friðhelgi einkalífs hafi verið raskað og ef svo er, hvort sú röskun hafi verið í samræmi við lög, haft lögmætan tilgang og verið nauðsynleg í lýðræðissamfélagi.