Tæplega níu þúsund fylgdarlausra barna á flótta er saknað í Þýskalandi, samkvæmt nýjum upplýsingum frá stjórnvöldum. Óttast er að einhver þeirra séu fórnarlömb mansals. Yfir tíu þúsund börn komu ein sín liðs til Ítalíu á flótta undan hungursneyð og ofbeldi á fyrstu sex mánuðum ársins. Mörg þeirra hafa verið seld í vændi og jafnvel blekkt til fararinnar af jafnvel kennurum sínum og ættingjum með gylliboðum um betra líf handan hafsins.
Tæplega níu þúsund fylgdarlausra barna á flótta er saknað í Þýskalandi, samkvæmt nýjum upplýsingum frá stjórnvöldum. Óttast er að einhver þeirra séu fórnarlömb mansals. Yfir tíu þúsund börn komu ein sín liðs til Ítalíu á flótta undan hungursneyð og ofbeldi á fyrstu sex mánuðum ársins. Mörg þeirra hafa verið seld í vændi og jafnvel blekkt til fararinnar af jafnvel kennurum sínum og ættingjum með gylliboðum um betra líf handan hafsins.
Tæplega níu þúsund fylgdarlausra barna á flótta er saknað í Þýskalandi, samkvæmt nýjum upplýsingum frá stjórnvöldum. Óttast er að einhver þeirra séu fórnarlömb mansals. Yfir tíu þúsund börn komu ein sín liðs til Ítalíu á flótta undan hungursneyð og ofbeldi á fyrstu sex mánuðum ársins. Mörg þeirra hafa verið seld í vændi og jafnvel blekkt til fararinnar af jafnvel kennurum sínum og ættingjum með gylliboðum um betra líf handan hafsins.
Flestir flóttamennirnir sem koma frá Mið-Austurlöndum til Evrópu koma til Grikklands og Ítalíu. Aðbúnaður sem bíður flóttafólks þar er oft skelfilegur. Börn allt niður í sjö ára aldur eru fórnarlömb barnaníðinga í flóttamannabúðum í Grikklandi. Börn og konur óttast svo kynferðislegt ofbeldi í búðunum að þau þora ekki að fara ein á klósettið að kvöld- og næturlagi.
Fréttir sem þessar berast nánast í hverri viku. Það er fréttir af ofbeldi og lífsháska flóttafólks sem kemur til Evrópu. Á flótta undan stríði og öðru ofbeldi í heimalandinu í þeirri von að þeirra bíði mannsæmandi líf eða einfaldlega eitthvað annað en dauðinn. Flóttafólkið skiptir milljónum en samt sem áður kemur aðeins brot af þeim tugum milljóna sem eru á flótta í heiminum til Evrópu.
Fyrir rúmu ári bárust fréttir af dauða 71 flóttamanns í flutningabíl á hraðbraut í Austurríki. Fólkið hafði kafnað fljótlega eftir að hafa farið inn í kæligám bílsins í Ungverjalandi. Fréttir af dauða þeirra vöktu samúð og samkennd meðal fólks í álfunni og í kjölfarið opnuðu ríki Evrópu landamæri sín fyrir straumi fólks sem var að flýja stríð og fátækt, flestir frá Mið-Austurlöndum.
Nokkrum vikum síðar fór önnur samúðarbylgja af stað – myndir af þriggja ára gömlum dreng sem rak á land á baðströnd í Tyrklandi á flótta til betra lífs. Heimurinn kepptist við að lýsa yfir sorg sinni vegna ástandsins í Sýrlandi og stjórnmálamenn hétu því að gleyma ekki sínum minnsta bróður þó höf og álfur skilji að.
Nú ári síðar er staðan önnur. Gaddavírsgirðingar hafa verið reistar, skellt í lás á landamærum og Evrópusambandið gert samning við tyrknesk stjórnvöld um að senda til baka flóttamenn sem koma til Grikklands að því gefnu að beiðni þeirra um hæli í landinu verði hafnað. Þetta hefur eðlilega leitt til þess að færri hafa komið til Evrópu en vandinn hefur hins vegar ekki horfið því ekkert lát er á stríðinu í Sýrlandi og ef eitthvað er þá hefur ástandið þar versnað.
Fleiri flóttamenn leita á náðir smyglara og segir Gerald Tatzgern, yfirmaður mansalsdeildar austurrísku lögreglunnar, að það séu fleiri sem reyni að komast til Evrópu með aðstoð smyglara í ár en í fyrra.
„Við getum ekki útilokað að slíkt stórslys gerist aftur,“ segir Tatzgern og vísar þar til flóttafólksins sem fannst látið í flutningabílnum 27. ágúst í fyrra skammt frá bænum Parndorf. Þegar austurríska lögreglan opnaði afturhurð flutningabílsins, sem átti að vera að flytja kjúklingakjöt, blasti við þeim skelfileg sýn, stæður af látnu fólki, meðal annars stúlku á fyrsta ári. Rannsókn leiddi í ljós að fólkið, sem var frá Sýrlandi, Írak og Afganistan, hafði verið látið í tvo daga áður en það fannst.
Það sem af er ári hafa ítölsk yfirvöld bjargað 94 þúsund manns á flótta yfir hafið. Um 54 þúsund flóttamenn sitja fastir í Grikklandi.
Í vikunni sem er að líða hefur ítalska strandgæslan bjargað um tíu þúsund flóttamönnum á Miðjarðarhafi. Meðal þeirra voru fimm daga gamlir tvíburar, að sögn samtakanna Læknar án landamæra sem tók þátt í björgunaraðgerðum úti fyrir strönd Líbýu.
Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni, IOM, hafa yfir eitt hundrað þúsund flóttamenn komið að landi á Ítalíu það sem af er ári en alls hafa um 300 þúsund flóttamenn komið til Evrópu í ár. Um 3.200 hafa drukknað á flóttanum.
Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa rúmlega 3.700 einstaklingar farist eða horfið á leið sinni milli landa. Tölur um fjölda flótta- og farandfólks sem lætur lífið á ferðum milli landa hafa hækkað um 28% milli ára þegar horft er á sama tímabil áranna 2015 og 2016 og aukningin er 52% frá árinu 2014. Það verður meðal annars í skugga þessara dauðsfalla sem Sameinuðu þjóðirnar boða til fyrsta leiðtogafundar sögunnar um flótta- og farandfólk. Fundurinn verður haldinn í New York 19. september og daginn eftir ætlar Barack Obama forseti Bandaríkjanna að halda sérstakan leiðtogafund um flóttamenn, segir í Heimsljósi, vefriti utanríkisráðuneytisins.
Á fundinum munu þjóðarleiðtogar ræða þann brýna vanda sem blasir við og hefur ekki nema að óverulegu leyti verið leystur: hvernig á að takast á við straum flóttamanna og farandfólks? Samkvæmt gögnum frá Alþjóðastofnun um fólksflutninga (IOM) heldur dánartíðni farandfólks áfram að hækka, einkum vegna fjölgunar dauðsfalla á Miðjarðarhafi, en einnig í norðurhluta Afríku, Mið-Austurlöndum og Horni Afríku. Hins vegar fækkar dauðsföllum í öðrum heimshlutum eins og Karíbahafinu og Suðaustur-Asíu.
Í drögum að ályktun fundarins sem unnið hefur verið að á síðustu mánuðum kemur fram að fólksflutningar í heiminum séu meiri en áður hafi þekkst. Fleira fólk en nokkurn tíma áður búi í öðru landi en föðurlandinu. Farandfólk sé að finna í öllum ríkjum heims. Flestir komist klakklaust milli landa. Á árinu 2015 hafi fjöldinn farið yfir 244 milljónir. Af þeim séu rúmlega 65 milljónir manna sem hafa neyðst til að flýja, þar af 21 milljón flóttamanna, 3 milljónir hælisleitenda og 40 milljónir sem eru á vergangi.
Flestir flóttamanna í heiminum hafast við í fátækum ríkjum heims eins og Jórdaníu (2,8 milljónir), Tyrklandi (2,7 milljónir), Palestínu (2 milljónir), Pakistan (1,5 milljónir), Líbanon (1,5 milljónir) og Suður-Afríku (1,2 milljónir).
Yfir 54 þúsund flóttamenn sitja fastir í Grikklandi eftir að nágrannaríkin lokuðu landamærum sínum. Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur undanfarið ár veitt flóttafólki aðstoð í Grikklandi, segir að aðbúnaður sem fólki er boðið upp á í flóttamannabúðunum sé ekki mannsæmandi og fólk brotið þar niður. Það er einkum tvennt sem skýri hvers vegna fólk leggur á flótta – að komast í öruggt skjól og skapa börnum sínum framtíð með því að koma þeim til mennta.
Fólk sem er í lífshættu í heimalandinu og eins á flóttanum sem oft tekur vikur eða mánuði. Grikkland er mjög oft fyrsti áfangastaður þess þegar hinum eiginlega flótta upp á líf og dauða lýkur og þar bíður fólks fátt annað en eymd. Það þarf sterkar taugar til þess að þola slíkt og að sögn Þórunnar hafa margir hreinlega gefist upp og farið aftur heim til Sýrlands. Það er kannski spurning um hvort hægt er að nota orðið heim í þessu samhengi því yfirleitt eru heimili fólks rústir einar, enga vinnu að fá, enga menntun að fá fyrir börnin og munaður eins og magafylli er eitthvað sem aðeins er hægt að láta sig dreyma um.
Flóttafólkið var flutt nauðugt frá Idomeni við landamæri Makedóníu til Norður-Grikklands í vor eftir að hafa dvalið þar við hræðilegar aðstæður vikum saman en stjórnvöld í Makedóníu lokuðu landamærum sínum við Grikkland í mars. Þórunn segir að ástandið í Idomeni hafi verið ömurlegt en í Þessalóníku er ástandið enn verra en þangað sem fólkið var flutt hvort sem það vildi eður ei í maí.
Fjölmargar búðir hafa verið settar upp í iðnaðarhverfum Þessalóníku og víðar í Norður-Grikklandi. Oft í gömlum verksmiðjum sem ekki náðist að búa undir komu nokkur þúsund flóttamanna. Þar búa flóttafjölskyldur í tjöldum inni í verksmiðjunum í iðnaðarhverfum Þessalóníku þar sem það er ekki sýnilegt öðrum en þeim sem þangað eiga erindi. Hending er ef strætisvagnar ganga nálægt búðunum þannig að eina leiðin til þess að komast þaðan er með leigubílum sem kosta sitt eða ganga langar leiðir til þess að útvega sér helstu nauðsynjar ef fólkið er svo lánsamt að eiga eitthvert reiðufé. Annars verður það að sætta sig við einhæfan og óhollan mat í búðunum og vatn sem hermenn skammta því.
Þegar það er 40 stiga hiti og þú býrð í tjaldi innanhúss, skítur, moskítóflugur, snákar, rottur og sporðdrekar gera þér lífið leitt þá er erfitt að þola við í búðunum. Ekki síst fyrir fólk sem hefur ekkert annað fast í hendi en biðina eftir næstu skrefum.
Flóttafólk sem dvelur í grísku búðunum segir að það hafi flúið undan vígamönnum Ríkis íslams í Raqqa en það sem beið þeirra í Grikklandi hafi verið lítið betra. „Jafnvel þó að eitt þúsund börn deyi hér þá vilja Evrópubúar ekkert af því vita. Hvers vegna loka þeir landamærunum þegar við þurfum á öryggi að halda?”spyr Malek Haj Mohamed, 23 ára, blaðamann Observer en hún flúði ásamt bróður sínum frá Raqqa.
Í fyrra og á fyrstu mánuðum þessa árs komu flestir flóttamenn frá Sýrlandi, Afganistan og Írak sjóleiðina frá Tyrlandi til grísku eyjanna enda siglingin yfir Eyjahaf ekki löng og hættuminni en á Miðjarðarhafi sjálfu. Til þess að stemma stigu við straumnum var það svar yfirvalda á eyjunum að setja fólk í varðhald, það er í flóttamannabúðir sem bannað var að yfirgefa. Síðan átti að senda fólkið aftur til Tyrklands samkvæmt samningi Tyrkja og ESB. Sá samningur þótti mörgum skjóta skökku við enda hafði Tyrkland almennt ekki verið álitið öruggt land. Þess fyrir utan sem þar eru þegar milljónir flóttamanna.
Flóttafólk, sem fjölmiðlar eins og Guardian, New York Times og fleiri hafa rætt við, segir biðina erfiða eftir að til Evrópu er komið því hún getur tekið mánuði, jafnvel ár, áður en fólk fær vernd og leyfi til þess að dvelja þar til lengri tíma.
Að sögn Þórunnar hefst skráningarferlið strax við komuna þegar fólki er gert að gefa sig fram við lögreglu og óska eftir hæli. Þar fær fólk pappír upp á að það sé með stöðu flóttafólks og fái að dvelja tímabundið í landinu. Þá tekur við bið eftir forskráningu sem kannski hefur verið beðið eftir í einhverja mánuði. Þar gefur fólk upp helstu upplýsingar um sig og fjölskyldu sína og verður númer í kerfinu. Eftir það tekur við bið upp og von og óvon um hvort viðkomandi fær að dvelja áfram í landinu.
Frásagnir flóttafólks af lífinu heima eru oft hryllilegar og stundum þannig að það er vart hægt að ímynda sér að þær séu ekki hugarfóstur. En því miður er það ekki raunin og eins og flestir vita þá flýr fólk af illri nauðsyn.
Við skulum kalla hann Hussein en hann nam mannréttindalög við háskóla í Sýrlandi áður en stríðið braust út. Janine di Giovanni, blaðamaður Newsweek, hitti hann í flóttamannabúðum í Líbanon í mars 2012. Hussein er trúaður súnní-múslími og saga hans er skelfileg. Svo skelfileg að Giovanni bað 14 ára dreng sem lá í næsta rúmi á sjúkrahúsinu í flóttamannabúðunum um að fara út úr herberginu á meðan viðtalið færi fram en drengurinn svaraði að bragði að pabbi hans hafi verið skotinn til bana fyrir framan hann og því gæti hann tekið öllu.
Hussein kemur úr menntafjölskyldu frá Homs þar sem bræður hans höfðu lokið háskólanámi og hann sjálfur var í námi þegar uppreisnin hófst. Að sögn Hussein tók hann aldrei þátt í bardögum og öðru ofbeldi en skipulagði ásamt fleirum friðsamlega mótmæli. Í fyrstu snerist þetta um frelsi, að geta valið, en svo komu kúlurnar. Að rifja upp minningar úr stríði tekur á. Upp koma minningar um líkamlegt og andlegt ofbeldi, hungur, kulda og þorsta.
„Ég man eftir þyrlunum. Ég man eftir því þegar heilu fjölskyldurnar voru skotnar til bana, þar á meðal fimm börn,” segir Hussein þegar hann lýsir því þegar sýrlenski herinn kom í hverfið hans, Baba Amr. Hann man eftir fólki sem ætlaði ekki að flýja en flúði samt enda ekki með nein vopn.
Hussein faldi sig heima við ásamt fjölskyldu sinni. En svo komu þeir. Þegar þeir bönkuðu á dyr á heimili Husseins reyndi hann að tala þá til og sagði þau vera almenna borgara sem ættu rétt á mannréttindum. Að lokum opnaði hann hurðina og skothríð mætti honum og fjölskyldunni. Um þrjátíu hermenn komu inn í húsið og tóku Hussein með sér eftir að hafa skotið hann í öxl og handlegg. Hann lá á gólfinu við hlið bróður síns sem var að blæða út eftir skothríðina. Þeim var hent upp á vörubílspall þar sem lifandi sem liðnir hlóðust upp.
Farið var með mennina á hersjúkrahús en ekki til þess að gera að sárum þeirra því hlutverk sjúkrahússins var ekki lengur að veita líkn heldur að kvelja. Þar hófust barsmíðarnar og beittu kvalarar hans bareflum á særðan líkama Husseins. Bróður hans var varpað í líkhúsið og þar endaði hann ævina, einn fjarri fjölskyldu og vinum. Hussein var hent þangað á hverju kvöldi eftir pyntingar dagsins. Hvílubeðurinn var hrúga af líkum.
Menn sem kynntu sig sem lækna önnuðust yfirheyrslurnar. Hussein var spurður hvort hann væri vígamaður og þegar hann neitaði og sagðist vera námsmaður tók einn þeirra upp rakvélablað og hinir héldu kynfærum hans, skáru og hótuðu að skera lim hans af. Síðan þrýstu þeir af öllu afli á þvagblöðruna þannig að hann pissaði á sig. En pyntingunum var ekki lokið. Þeir gáfu honum raflost og svona gekk þetta í þrjá daga – hann var barinn, brenndur og skorinn.
Þeir skáru upp meltingarveg hans með skurðarhnífi og hann lýsir því fyrir Giovanni hvernig hann hafi ekki fundið fyrir neinu þar sem hann lá á skurðarborðinu enda í áfalli. En allt í einu fann hann að eitthvað var rifið innan úr honum og hann heyrði kvalara sína grínast með hvað uppreisnarmenn ætu mikið en þá höfðu þeir rifið úr honum þarmana. Síðan rimpuðu þeir hann saman á groddafenginn hátt þannig að hann er með þykkt og þrútið ör allt frá miðju brjósti niður að þörmum. En þeir lokuðu samt ekki kviðarholinu almennilega fyrr en eftir tvo sólarhringa. Næst voru það lungun. Þeir ristu hann upp frá geirvörtu út á mitt bak. Síðan settu þeir litla plastpípu inn í hann og lungun tæmdust. Hægra lunga Husseins féll saman og hann gat ekki andað um tíma.
Þannig liðu dagarnar, suma daga var hann látinn hanga á hvolfi í allt að fimm klukkustundir í senn. Hann var notaður sem boxpúði og öskubakki. En einn daginn kom læknir til hans. Hann hvíslaði að Hussein að hans væri að ganga úr skugga um að hann væri á lífi og hvort hægt væri að pynta hann meira. Læknirinn sagðist ekki geta horft á þetta lengur. Hjarta Husseins hafi tæknilega séð stoppað tvisvar og því ætli hann að skrá hann dauðann. sagði læknirinn við Hussein.
Farið var með lík Husseins í líkhúsið. Klukkutíma síðar kom hjúkrunarfræðingur þangað inn og hvíslaði í eyra Husseins að sýrlenski frelsisherinn hafi borgað henni fyrir að koma öllum föngum sem enn voru á lífi út úr líkhúsinu og hún ætlaði að aðstoða hann við að komast út. Hún klæddi Hussein í hermannabúning og sagði honum númer sem hann yrði að muna. Síðan hófst gangan út – ganga sem tók marga daga í huga Husseins – þó svo aðeins hafi verið um nokkrar mínútur að ræða og út komst hann. Frelsið var í augnsýn.
Hussein spurði Giovanni hvort hún teldi að einhverjir myndu þurfa að svara til saka fyrir glæpina sem framdir voru í hersjúkrahúsinu. Hugur hennar hvarflaði til fyrri átakasvæða þar sem hún hafði starfað sem stríðsfréttamaður, landa eins og Bosníu og Síerra Leone og svarið var: Ég veit það ekki.
Hussein er einn þeirra ungu manna sem eru á flótta frá Sýrlandi. Líkt og margar ungar konur sem hafa orðið fyrir hrottalegu ofbeldi og börn sem hafa horft á foreldra sína tekna af lífi. Fjöldinn er mikill en á meðan stríðið heldur áfram í heimalandinu þá er ekkert annað í boði fyrir þetta fólk ef það ætlar að halda lífi en að reyna að forða sér hvað sem það kostar.
Shiraz Madran er 28 ára gömul sýrlensk fjögurra barna móðir. Hún flúði með fjölskyldu sína frá Sýrlandi snemma árs. Þau hafa setið föst í grískum flóttamannabúðum mánuðum saman, fyrst í Idomeni og síðan í Nea Kavala í norðurhluta Grikklands. Þar bíða þau á milli vonar og ótta án þess að hafa hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér.
„Ef við hefðum vitað að þetta yrði svona þá hefðum við aldrei yfirgefið Sýrland,“ segir hún við blaðamann New York Times þar sem hún býr við þær aðstæður að biðin er það eina örugga í lífi fjölskyldunnar.
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, þekkir vel til Sýrlands og nágrannaríkjanna enda hefur hann dvalið þar um lengri tíma. Hann segist ekki geta svarað því hvort Evrópa ráði við að taka við öllum þeim flóttamönnum sem þangað leita. Það verði að koma á friði í Mið-Austurlöndum því að öðrum kosti hættir fólk ekki að flýja þaðan.
„Flóttafólkið er ekki að fara frá heimalandinu vegna þess að það hefur heyrt af frábærum skóla á Akureyri. Það er að fara því ástandið heima fyrir er óbærilegt og því verður að breyta. Ef Evrópa vill ekki taka á móti öllum þessum fjölda, en við megum ekki gleyma því að við erum bara að sjá toppinn á ísjakanum, þá þarf að veita ríkjum sem hafa tekið á móti meirihluta flóttafólksins meiri aðstoð. Ríkjum eins og Tyrklandi, Jórdaníu og Líbanon,“ segir Magnús og bendir réttilega á að önnur lönd í þessum heimshluta hafa ekki gert neitt sem heitið getur til þess að veita fólki í neyð hjálparhönd. Það eru ríki eins Sameinuðu arabísku furstadæmin, Kúveit og Sádi-Arabía.
Að sögn Magnúsar er þetta ábyrgð okkar allra. „Ekki bara á ábyrgð ríkja sem hafa veitt mestan stuðning heldur okkar allra,“ segir Magnús.
Hann segir að flóttamannavandinn sé ekki tímabundið vandamál heldur verði þetta viðvarandi vandi. „Þetta er hluti af stærri vanda og Evrópa í dag er eins konar slysavarðstofa. Það eru ekki forvarnir eða fyrirbyggjandi aðgerðir í gangi til þess að koma í veg fyrir að fólk leggi á flótta. Það verður ekki gert nema við komum á alþjóðlegu samstarfi í þessum málaflokki,“ segir Magnús en væntingar eru til leiðtogafundarins sem forseti Bandaríkjanna hefur boðað til nú síðar í september um málefni flóttafólks. Á sama tíma og einn af hverjum 122 íbúum heimsins hefur neyðst til þess að yfirgefa heimili sitt.
Áratugum saman hefur fólk flúið frá Afríku og Asíu, bæði vegna stríðsátaka og lífsskilyrða. Búast má við nýrri bylgju flóttafólks frá Afríku vegna loftslagsmála og sú bylgja er þegar farin af stað. Öfgar í veðri þýða uppskerubrest og það er það sem var einn af lykilþáttunum í upphafi arabíska vorsins, sem og uppreisnarinnar í Sýrlandi.
65 milljónir barna eru á flótta í heiminum, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF. Þau eru á flótta undan átökum, hungri og öfgum í veðri. Þau eru að leita að lífi og stað sem þau geta nefnt heima. Þau eru meðal þeirra íbúa heimsins sem eru í mestri hættu. Þetta eru börn sem lifa á brúninni – ekki af eigin vilja heldur vegna aðstæðna sem þau eru þvinguð í.
UNICEF efast um að þessi tala eigi eftir að lækka og það sé ein af mestu áskorunum sem heimurinn standi frammi fyrir í dag – að veita þessum börnum skjól. Því börn á flótta, einkum og sér í lagi börn sem eru ein á ferð á flóttanum, eru í mestri hættu allra á að lenda í mansali. Að vera seld í vændi eða þrælkun, verða fórnarlömb barnaníðinga sem leynast í öllum ríkjum heims.
Spurð um hvort Evrópa hafi verið undir það búin að flóttamenn myndu streyma til álfunnar á einu ári líkt og gerðist í fyrra svarar Þórunn því neitandi. „Þegar ég var á Lesbos fyrir rúmu ári var ekkert plan og enginn vissi hvernig ætti að bregðast við. Mér fannst það upp að ákveðnu marki skiljanlegt. Það er eðlilegt að það sé ekki til nákvæm aðgerðaáætlun fyrir svona aðstæður. En samt er það í raun skrítið því það eru mörg lönd Evrópu með meira en milljón íbúa sem er sami fjöldi flóttafólks og kom til Evrópu í fyrra. Hvað ef eitthvað gerist í viðkomandi landi? Er ekki til einhvers konar hamfaraáætlun?
Þetta voru mjög sein og fálmkennd viðbrögð um leið og þau einkenndust af tregðu við að veita þessu fólki aðstoð,“ segir Þórunn.
Hún segir að samanlagður fjöldi flóttafólks sem kom til Evrópu í fyrra sé rétt undir 0,003% af fjölda íbúa í álfunni. „Það svarar til þess að 10 hefðu komið til Íslands. Það er ekki fjöldinn heldur fór strax í gang hugsun eins og þetta er ekki okkar mál, ekki okkar vandamál. Eins og þegar dönsk yfirvöld settu auglýsingar í dagblöð í Líbanon um að fólk væri ekki velkomið til Danmerkur. Senda skilaboð út í heim um að þetta sé ekki góð hugmynd – ekki koma til okkar við ætlum ekki að hjálpa ykkur. Þetta er eiginlega ótrúlegt og um leið óskiljanlegt. Í stað þess að setja á laggirnar sameiginlega aðgerðaráætlun þar sem fleiri lönd eru skylduð til að taka þátt í að veita fólki neyðaraðstoð,“ segir Þórunn en nánar verður rætt við hana á mbl.is í vikunni.
Á sama tíma og engin lausn er í sjónmáli fyrir þessi börn og aðra sem eru á flótta eða á vergangi eykst stuðningur við þjóðernishreyfingar í Evrópu og er staðan orðin þannig að í mörgum löndum álfunnar er ekki hægt að mynda ríkisstjórnir án stuðnings slíkra stjórnmálaflokka. Flokka sem áður þóttu óstjórntækir. Þetta er meðal þess sem verður fjallað um í fréttaskýringu á mbl.is um helgina.