Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, sagðist ekki myndu svara spurningum ákæruvaldsins um liði þeirrar ákæru sem hefur verið gefin út á hendur honum, við aðalmeðferð málsins sem fram fer í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, sagðist ekki myndu svara spurningum ákæruvaldsins um liði þeirrar ákæru sem hefur verið gefin út á hendur honum, við aðalmeðferð málsins sem fram fer í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, sagðist ekki myndu svara spurningum ákæruvaldsins um liði þeirrar ákæru sem hefur verið gefin út á hendur honum, við aðalmeðferð málsins sem fram fer í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Geirmundur er ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með lánveitingum til einkahlutafélaga. Fjárhæðirnar sem getið er í ákærunni nema tæpum átta hundruð milljónum króna. Brotin geta varðað allt að sex ára fangelsi.
Áður en skýrslutaka hófst fyrir dómi í dag var Geirmundur spurður hvort hann vildi tjá sig að einhverju leyti um þær sakir sem á hann eru bornar.
„Ég fól undirmanni mínum að framkvæma þau mál sem hér er getið, sem og hann gerði. Ég kom því ekkert nánar að þessu enda var það ekki í mínum verkahring,“ sagði Geirmundur. Bætti hann við að tekið hefði verulega á hann að sitja undir þessum ásökunum í fleiri ár, enda teldi hann að ferlið hefði tekið úr hófi langan tíma.
Að yfirlýsingunni lokinni sagðist hann biðjast undan frekari spurningum varðandi liði ákærunnar, þar sem hann væri áður búinn að svara spurningum lögreglu. Lauk skýrslutöku yfir honum þar með. Eins og mbl.is hefur áður greint frá, neitar Geirmundur sök í málinu.
Í ákæru segir að Geirmundur, sem lét af störfum á miðju ári 2009, og er nú 72 ára, hafi stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga, með því að veita einkahlutafélaginu Duggi 100 milljóna króna yfirdráttarlán þann 16. júní 2008.
Afstaða lánanefndar hafi ekki legið fyrir á þeim tíma og þá hafi áhættu- og greiðslumat ekki farið fram, auk þess sem endurgreiðslan hafi ekki verið tryggð með nokkrum hætti.
Tveimur dögum síðar, eða þann 18. júní 2008, mun fjárhæðinni hafa verið ráðstafað inn á reikning Duggs. Sama dag tók Icebank, síðar Sparisjóðabanki Íslands (SPB), handveð í þessum reikningi fyrir skuldbindingum annars tengds einkahlutafélags, Suðurnesjamanna, gagnvart bankanum.
Í september sama ár var síðan gengið að allri innistæðunni til greiðslu á skuld Suðurnesjamanna við Icebank.
Icebank hafði áður lánað Suðurnesjamönnum miklar fjárhæðir til kaupa á hlut í HS Orku, en Suðurnesjamenn voru í 47% eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og var hann jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.
Landsbankinn hf. afskrifaði síðan kröfuna í júlí 2015 vegna gjaldþrots Duggs ehf. Ekkert fékkst upp í kröfur í kjölfar gjaldþrotsins. Suðurnesjamenn urðu gjaldþrota árið 2009.
Þá varðar málið einnig umboðssvik þar sem Geirmundur er talinn hafa misnotað aðstöðu sína, sem stjórnarformaður dótturfélags sparisjóðsins, einkahlutafélagsins Víkna, og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu, þegar hann framseldi stofnbréf í Sparisjóði Keflavíkur að verðmæti tæplega 700 milljón króna, frá Víkum til einkahlutafélagsins Fossvogshyls í lok árs 2007 án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir.
Enginn lánasamningur var gerður og ekki var gengið frá neinni tryggingu. Sama dag og stofnfjárbréfin voru skráð á Fossvogshyl var félagið framselt frá Deloitte til sonar Geirmundar, Sverris Geirmundssonar.
Skuldin var skráð hjá dótturfélagi sparisjóðsins og var hún afskrifuð árið 2010.
Sparisjóðurinn var yfirtekinn af ríkinu árið 2010 og sameinaðist Landsbankanum árið 2011. Þurfti ríkið að greiða bankanum 19,2 milljarða vegna sameiningarinnar.
Eftir fall sjóðsins fékk Fjármálaeftirlitið endurskoðunarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers til að gera úttekt á starfsemi sjóðsins. Skýrslan var sögð draga upp svarta mynd af rekstri hans og að meðal annars hafi háar fjárhæðir verið lánaðar starfsmönnum, stjórnendum og félögum þeim tengdum án trygginga.